3.1.2007 | 13:29
Nýjustu vendingar
Áfram heldur sagan um þá undarlegu bók If I Did It eftir O.J. Simpson og hans draugahöfunda. Hér á síðunni var fyrir jólin fjallað um hvernig bókin gerði allt vitlaust í Murdochveldinu og leiddi af sér brottrekstur Judith Regan sem Robert Murdoch lét taka pokann sinn eftir að hún hafði hraunað yfir stallkonu sína hjá HarperCollins, Jane Friedmann, sem og aðra gyðingættaða starfsmenn forlagsins og umboðsmenn því tengda, og sagt að þau hefðu blásið til samsæris gegn sér. Murdoch kvað þá endanlega upp úr um að bókin kæmi ekki út hjá sínum fyrirtækjum og héldu menn að þar með væri málið dautt. Nú berast hins vegar þau tíðindi að rétturinn á bókinni falli höfundinum, Simpson sjálfum, aftur í skaut í lok nóvember næstkomandi þar sem forlagið muni ekki uppfylla skyldur sínar og gefa bókina út 30. nóvember 2007 eins og fyrirséð var. Það þýðir að hver sem er annar getur gert það.
Að sögn TIME eru nú evrópskir og japanskir útgefendur óðir og uppvægir að þýða bókina og gefa hana út um leið og hægt er, aðallega vegna þess hve mikla umfjöllun hún hefur fengið vegna Regan-málsins. Um leið eru menn vestanhafs á því að bókin komi út þar í landi en hins vegar er allt í uppnámi vegna þess að ættingjar Ron Goldmanns, hins myrta kokkáls, og Nicole Brown Simpson, eiginkonunnar sálugu, eru að fara í málaferli við O.J. og heimta allar tekjur af bókinni og raunar útgáfuréttinn á henni líka.
Hvað Judith Regan varðar eru menn almennt á því að hún eigi eftir að rísa á ný. Það er líka almennt talið að bókin hafi verið ofplögguð í upphafi, hefði hún komið hávaðalaust út hefði enginn sagt neitt. En saga þessa útgefanda sem fór í útgáfu eftir að hafa verið blaðamaður hjá National Enquier og velt sér upp úr skandölum og uppákomum fræga fólksins er að sönnu furðuleg og raunar einstök í hinu annars fremur dannaða umhverfi bókaútgáfunnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.