Áramót bókaútgáfunnar

Á miðnætti á Þorláksmessu lýkur bókaflóðinu. Þá er rennslið komið úr 700 rúmtitlum á sekúndu niður í eðlilega bókabunu og fólk getur gengið þurrum fótum yfir lækinn. Það má líkja þessu við vínuppskeru. Búið að tína þrúgurnar, pressa og gerja og setja á flöskur og nú má taka tappann úr. Vínsmakkarar hafa ferðast um sveitir með skrifblokkir og bragðlaukana vafða inn í loftbólupappír til að halda þeim frá hroðanum á meðan bragðað var á því helsta úr þessum árgangi: næturfrost snemma í september skemmdu krimmauppskeruna en fræðabókaekrunar nutu þess að borið var á þær snemma.

Sjálfur hef ég verið að stelast í ungvínin og fundið hitt og þetta til að smjatta á þótt ég sé raunar alltaf spenntastur fyrir óvæntum uppákomum í smakkmálum. Í ár er mikið framboð af bókum í flokknum "almenn rit", sumt af því gefið út í litlu upplagi fyrir fámennan hóp og algerlega án markaðsvinnslu og þessi skortur á kynningu dregur mig að þessu efni fremur en hitt. Til dæmis greinasafn um Brynjólf Skáholtsbiskup Sveinsson. Sérlega áhugverðar eru líka útgáfur Söguspekingastiftisins sem eru endurútgáfur gamalla prentaðara bóka (oftast reyndar) og fallegur vitnisburður um útgáfusögu okkar en innan fárra áratuga stendur íslensk prentsaga á hálfu árþúsundi.

Línur á markaðnum skýrðust nú í vikunni þegar Morgunblaðið birti sölulista Félagsvísindastofnunar. Ekki eru reyndar allar bókabúðir þar í hópi og sjálfsögðu hvorki bókaklúbbar né forlagssala, sem getur verið gríðarleg á þessum árstíma. En þarna eru allir stóru útsölustaðirnir og í raun öll almenn bóksala í landinu representeruð. Það er forvitnilegt að skoða þessa lista og mynstrið sem teiknast þar upp og nauðsynlegt fyrir þá vilja átta sig á útgáfulandslagi samtímans, smekk almennings og straumum og stefnum. Hér er smá bókhald yfir fyrirferð einstakra útgefenda á listanum. Tekið skal fram að það eru 50 sæti í boði í flokkunum: Íslensk og þýdd skáldverk, Íslensk og þýdd ljóð, Íslenskar og þýddar barna- og unglingabækur, Almennt efni og handbækur og Ævisögur og endurminningar:

  • Edda útgáfa - 17 sæti
  • JPV útgáfa - 15 sæti
  • Bjartur - 4 sæti
  • Útkall - 3 sæti
  • Hólar - 2 sæti
  • Nýhil - 2 sæti
  • Hagkaup - 1 sæti
  • Setberg - 1 sæti
  • Skjaldborg - 1 sæti
  • Skrudda - 1 sæti
  • Tindur - 1 sæti
  • Uppheimar - 1 sæti
  • Veröld - 1 sæti

Séu listarnir skoðaðir á þennan hátt sést að Edda og JPV bera höfuð og herðar yfir önnur útgáfufyrirtæki landsins á þessum vettvangi, og raunar er komið upp einskonar tvegga turna tal á jólamarkaði. Sé Bjartur undanskilinn nær samanlagður titlafjöldi allra hinna útgáfanna samt ekki að komast upp fyrir titlafjölda JPV. Sé aðallistinn skoðaður er hlutfallið í raun það sama. Þar er Edda með 5 titla, JPV með 3, Hagkaup 1 og Útkall 1. Þess ber náttúrlega að geta að Hagkaup er með mest seldu bókina þessi jólin, en Hagar lögðu gríðarlega áherslu á það að vera jafnfætis öðrum útgáfum í slagnum, þ.e. hvað varðar aðgengi allra neytenda að vörunni, og komu bókinni í sölu hjá Pennanum. Hef hins vegar ekki séð Eftirréttina í Bónus eða Krónunni. Sjálfsagt er árangur Útkalls á jólamarkaði merkilegastur. Mér telst til að þeir hafi gefið út þrjár bækur og þær er allar að finna á listunum. 100% árangur! Veröld getur líka verið tölfræðilega kát, útgáfan gaf út þrjár bækur í haust og er því samkvæmt þessu viðmiði með 33% árangur!

Mér sýnist að til að bók mælist á topp tíu á þessum lista verði hún að vera komin að minnsta kosti yfir 5000 eintök í dreifingu og "vera á skriði" eins og sagt er. Ég býst við að Hagar hafi prentað Eftirréttina í um 15.000 eintökum, kannski meira. Arnaldur var prentaður í 20.000 eintökum ef talin er með trade paperback útgáfa fyrir Leifsstöð. Ljósið í Djúpinu eftir Reyni Trausta var prentuð í 12.000 eintökum og er búin á lager útgáfunnar, sem er raunar með því mesta sem ævisaga hefur selst á seinni árum. Útkallið er á svipuðu róli, þetta 10-12.000 eintök; ferill þeirrar útgáfu er orðinn sérkafli í íslenskri útgáfusögu, stórmerkileg röð og ótrúlegar viðtökur, Óttar hlýtur að fara að fá orðu bráðum. Skipið eftir minn gamla góðvin Stefán Mána er eitthvað í kringum 10.000 eintökin að mér skilst sem er meiriháttar árangur hjá honum og skilar honum í nýtt tíðnisvið í stjörnukerfi íslenskra rithöfunda og Eragon lika, aðrir minna eins og sagt var í spurningakeppnunum hér í gamla daga. Þetta minna er á bilinu 8000-5000 eintök. Svo má náttúrlega ekki gleyma því að Draumaland Andra Snæs var uppselt þegar vertíðin byrjaði og þá voru búin 17.000 eintök. Hátíðarútgáfan er 1.000 eintök og mér skilst að hún hafi tekið vel við sér og klárast af lager. Það þýðir náttúrlega að Draumalandið er næst mestselda bók ársins 2006.

Þetta er massasala "by any standards" eins og útlendingurinn segir. Íslensk bókaútgáfa er í rokna gír þessi jólin.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband