26.6.2009 | 15:54
Penninn ræðst gegn kiljuútgáfu
Félagið Penninn á Íslandi ehf. var stofnað eftir að eldra félag, Penninn hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 3. apríl síðastliðinn. Þetta félag er í eigu Nýja Kaupþings banka hf. sem þremur vikum fyrr hafði tekið yfir rekstur félagsins af fyrri eigendum. Þetta fyrirtæki er stærsti einstaki endursöluaðili bóka á Íslandi og skiptir þá ekki máli hvernig er mælt. Bókaútgefendur eiga gríðarlega mikið undir góðum samskiptum við fyrirtækið og erfiðleikar þess hafa jafnframt mikil áhrif á afkomu bókaútgefenda. Sem betur fer fóru gjaldþrotaskiptin betur með útgefendur en á horfðist sökum þess að birgðir færðust yfir til nýju kennitölunnar. Yfirlýst stefna forstjóra og forvígismanna Pennans á Íslandi ehf. var að vinna náið og dyggilega með bókaútgefendum og öðrum við að tryggja að Íslendingar héldu áfram að vera bókaþjóð. Þar með að tryggja að öll virðiskeðjan frá höfundum til lesenda virkaði og gæti staðið undir sér, en það hefur verið eitt af kraftaverkum okkar menningarlífs að eiga tiltölulega sjálfbæran bókabransa.
Í morgun rak alla útgefendur landsins í rogastans. Í Fréttablaðinu blasti við auglýsing og umfjöllun um að Penninn hefði ákveðið að gjaldfella allar nýjar kiljur, þó ekki með samráði við birgja, enda höfðu útgefendur ekkert heyrt af þessari ráðstöfun fyrr en nú, heldur með því að búa til birgja úr manninum á götunni. Öllum kiljum frá árinu 2007 til dagsins í dag, séu þær í söluhæfu ástandi, má nú skila til Pennans og fá kr. 200 fyrir. Síðan geta kúnnar keypt þessar sömu kiljur með 80% afslætti frá hefðbundnu kiljuverði á kr. 400. Kaupi maður tvær fær maður þá þriðju frítt, s.s. þrjár "notaðar" kiljur á kr. 800.
Markmiðið segir Penninn vera að auka lestur, koma til móts við neytendur sem hafi ekki mikið fé á milli handanna, fá Íslendinga inn í búðirnar í júlímánuði. Allar eru þessar röksemdir mjög undarlegar frá sjónarmiði útgefenda. Í fyrsta lagi hefur bóksala á árinu verið mjög góð og bókabransinn einn af þeim fáu geirum sem ekkert hafa gefið eftir í kreppunni. Í öðru lagi hafa kiljur ekkert hækkað frá því í febrúar 2008, ÞRÁTT FYRIR að útgefendur taki á sig sífellt meiri kostnað við prentun. Framlegðarhlutfallið er m.v. óbreytt verð á kiljum fyrir löngu komið niður fyrir sársaukamörk. Í þriðja lagi er júlí einn sterkasti sölumánuður á kiljum á árinu.
Ekkert sem Penninn boðar stenst. Þetta eru óskiljanleg rök því enn furðulegra er að sjá eitthver bissnesvit í þessu dæmi. Penninn segist einmitt ekkert græða á þessu því það sama gangi yfir erlendar kiljur. Ef ætlunin er að styðja við lestur landsmanna, hefði þá ekki verið ráð að fá útgefendur og hvað þá rithöfunda, í lið með sér og gera eitthvað sem allir myndu vilja standa að og væru stoltir af?
Þessi ráðstöfun er árás á tekjumöguleika rithöfunda sem fá 23% af andvirði hverrar seldar kilju, en að sjálfsögðu ekkert í endurnýtingarprógrammi Pennans. Með öðrum orðum: Penninn hlýtur að ætla sér að koma höggi á útgefendur og höfunda. Það er eina haldbæra skýringin á þessari undarlegu ráðstöfun. Öll önnur rök eru haldlaus.
Af hverju er fyrirtæki sem er í umsjá ríkisbanka tímabundið og hlýtur á þeim tíma að vilja halda sjó fyrst og fremst að standa í skæruhernaði? Er það s.s. vilji Nýja Kaupþings hf. að Árni Þórarinsson, Arnaldur Indriðason, Auður Jónsdóttir, Hallgrímur Helgason og Yrsa Sigurðardóttir, svo nefnd séu nöfn nokkurra íslenskra höfunda sem nú nýverið hafa komið út í kilju, fái engar tekjur af hugverkum sínum? Er þessu fólki illa við íslenskar bókmenntir?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.