Upprisa Máls og menningar

Miðpunktur Reykjavíkur er á horni Laugavegar og Vegamótastígs. Ef marka má nýlega skoðanakönnun um örlög Bókabúðar Máls og menningar er yfirgnæfandi meirihluti höfuðborgarbúa og nágrennis sammála þessari fullyrðingu. Ég held að öllum hafi komið á óvart hve sterkar tilfinningar lætu á sér kræla eftir að spurðist að Bókabúð Máls og menningar myndi ekki hafast lengur við í húsnæði sínu á Laugavegi 18. Þetta var eins og staðfesting þess að heimurinn væri ekki lengur í lagi.

Nú hafa lyktir orðið þær að gamla Bókmenntafélagið, hið eigendalausa en þó ekki hirðislausa eignarhaldsfélag hafi ákveðið í félagi við Iðu að opna bókabúð eftir að Penninn flytur nú í haust. Eigendur húsnæðisins, Kaupangur, hafa ekki viljað endurnýja leigusamninginn við Pennann, af þeirri einföldu ástæðu að leigan var ódýr, en fá nú greinilega meira fyrir sinn snúð.

Þetta eru gleðileg málalok. Líklegast er þarna líka komin aukin samkeppni á heilsársbóksölumarkaði. Penninn hefur verið langmikilvægasti endursöluaðili íslenskra bóka alla þessa öld og staða hans styrktist sífellt. Svo varð fyrirtækið gjaldþrota og er nú í eigu Kaupþings banka. Það er engin framtíðarlausn og þótt hún virki í bili er ljóst að núverandi eigendur munu ekki reka fyrirtækið til eilífðar. Spurningin "hvað verður?" hangir alltaf yfir, hvernig svo sem gengur frá degi til dags.

Um leið er þetta svolítið kaldhæðnislegt alltsaman. Ástæðan fyrir öllu havarínu er jú að eigendur húsnæðisins vildu fá hærri leigu. En áður áttu Vegamót, félag í eigu Bókmenntafélagsins, húsnæðið, svo salan á því er í raun ástæðan fyrir því að bókabúðin var í hættu. Með því að stíga inn nú er komin enn einn hlykkurinn á þeirri snúnu leið sem Bókmenntafélag Máls og menningar hefur gengið í gegnum á heilum áratug. Fyrst var rekstrinn seldur undan Eddu, sem Bókmenntafélagið átti þá hlut í, árið 2002, síðan var húsnæðið selt 2007 til að fjármagna sameiningu JPV-útgáfu og útgáfuhluta Eddu útgáfu undir heitinu Forlagið þar sem Bókmenntafélagið á 50% hlut. Þar með er Bókmenntafélagið aftur farið að reka búð og forlag eins og það gerði fyrir 10 árum síðan, en nú í félagi við fjölskyldu Jóhanns Páls Valdimarssonar annars vegar og Iðu hins vegar. En það sem er enn skemmtilegra er að Arndís í Iðu var einmitt verslunarstjóri Bókabúðar Máls og menningar um það leyti sem búðin var seld, þannig að "allir komu þeir aftur".

Bókmenntafélagið er þannig búið að ná mestu af vopnum sínum aftur, nema náttúrlega húsnæðinu sem Kaupangur á enn sem fyrr, það glaðbeitta félag sem borgarbúar urðu að greiða lausnargjald fyrir 19. aldar götumynd Ólafs Magnússonar þegar timburhjallarnir við Laugaveg 4. og 6. voru seldir. Nú er s.s. nýi samkeppnisaðilinn í bókabúðabransanum jafnframt annar aðaleigandi stærsta forlagsins. Það væri fremur kjánalegt að halda því fram og hvað þá trúa því að þar verði hagsmunir ekki stilltir saman.

Ástæðan fyrir því að Bókabúð Máls og menningar virkaði var ekki síst sú að búðin var í fararbroddi nýrra verslunarhátta: Sérhæfing, langur opnunartími, kaffihús, upplestrar í búðinni og annað menningarstarf, en um leið var framlegðin tjúnuð upp með sölu á sérvettum, lundastyttum og stílabókum. Það var "atmó" í búðinni sem þrátt fyrir sívaxandi póleringu og standardíseringu Pennaáranna yfirgaf aldrei staðinn.

Nú geta þeir sem ætluðu að hlekkja sig við stigann geymt keðjurnar sínar fram að næsta baráttumáli. Bókabúð Máls og menningar er komin til að vera í miðpunkti Reykjavíkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband