12.1.2009 | 17:03
Félag íslenskra bókaútgefenda 120 ára
Þann 12. janúar 1889 komu saman í miðbæ Reykjavíkur þeir þrír bóksalar bæjarins "sem helzt fást við að kosta bókaútgáfur" og stofnuðu félag til að koma dreifingu og sölu bóka á Íslandi í skipulagðan farveg. Þetta félag var þá kallað "Bóksalafélagið í Reykjavík" og stofnendurnir voru þeir Björn Jónsson (1846-1912), ritstjóri Ísafoldar, eigandi Ísafoldarprentsmiðju, bæjarfulltrúi og alþingismaður, Sigurður Kristjánsson (1854-1952) bóksali og Íslendingasagnaútgefandi og Sigfús Eymundsson (1837-1911) bóksali, bókaútgefandi, ljósmyndari og athafnamaður.
Þetta er sá félagsskapur sem nú nefnist Félag íslenskra bókaútgefenda og er því 120 ára í dag. Félagið starfaði mestmegnis að sömu markmiðunum í nærfellt hundrað ár, en á níunda áratug 20. aldar verða ýmsar breytingar í smásölu, svo sem að stórmarkaðir taka að selja bækur fyrir jólin, sem breyta forsendum þeirra viðskiptareglna sem félaginu var ætlað að vinna að. Þegar bókaverð er gefið frjálst um miðjan tíunda áratuginn gjörbreyttist eðli hinnar upphaflegu stofnskrár í einu vetfangi. Þá voru öll samtök útgefenda um skipulag bókamarkaðarins bönnuð og endanlega girt fyrir fyrirbæri á borð við "bóksöluleyfi" og samræmda verðskrá sem og samræmd viðskiptakjör og skilanefndir.
Árið 1889 skipti bókaútgefndur mestu að þeir sæju sér hag í því að gefa út bækur, að eitthvert lágmarksskipulag væri á bóksölunni til að hægt væri að starfa við útgáfu. Til þess var félagsskapur þeirra stofnaður. Nú hefur félagið miklu víðfemara hlutverk. Það er sameinaður vettvangur bókaútgefenda við að skapa bókaútgáfu, lestri og bókmenningu hagfellt umhverfi, efla lestrarmenningu og stuðla að því að útgáfa íslenskra hugverka sé arðbær atvinnuvegur þrátt fyrir smæð málsamfélagsins. Íslensk bókaútgáfa er ein af meginforsendum þess að íslensk tunga fær þrifist og sé tækur miðill fyrir hugmyndir, frásagnir og ljóð.
Menningararfur okkar er fyrst og síðast textar. Í þeim fáum við innsýn í stórt samhengi, flóknar hugmyndir, já, jafnvel fegurð, sem belgir sálirnar á okkur út svo okkur finnst við snerta hringi Satúrnusar og fylgihnetti Júpíters. Á næsta ári verða 470 ár liðin síðan fyrsta prentaða bókin kom út á Íslandi. Við sem gefum út bækur í dag erum í raun ekkert að gera neitt mikið flóknara en það sem fyrsti bókaútgefandinn, Oddur Gottskálksson fékk prentara í Hróarskeldu til að hjálpa sér við: Fjöldaframleiða texta sem er bundinn í spjöld og settur á markað. Það er eitthvað dásamlega fallegt við þá sögulegu samfellu.
Þegar gengið er framhjá brunarústunum í miðbænum þar sem heimili, forlag og verslun Sigfúsar Eymunssonar, fyrsta formanns Félags bókaútgefenda stóð, er gott að hugsa til frumherjans og félaga hans. Stofnendur félagsins voru nefnilega allir einbeittir í útgáfustarfi sínu, gallharðir og óþreytandi í að koma bókum til almennings með öllum ráðum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.