9.12.2008 | 22:47
Að redda öxi fyrir aftöku
Við Sölvi Sveinsson stóðum fyrir kynningu á bókinni Einbúinn á amtmannssetrinu eftir Kristmund Bjarnason á Sjávarborg í Þjóðmenningarhúsi í dag. Við skiptum með okkur verkum, Sölvi sagði frá Kristmundi en ég frá bókinni, sem er ævisaga Gríms Jónssonar amtmanns. Síðan lásum við hvor sinn bútinn.
Þarna var sæmileg mæting og góð stemmning. Sölvi gerði grein fyrir ferli Kristmundar sem er nú níræður og ætti ásamt Villa á Brekku að vera seníór þessa jólabókaflóðs. Hann gerði grein fyrir stíl Kristmundar, starfsævi og sagði jafnframt sögur af honum sem fengu marga til að brosa í kampinn, ekki síst sögunni um að Kristmundur hafi gert út Björn á Sveinsstöðum til að afla skjala fyrir Héraðsskjalasafn Skagafjarðar, en því veitti Kristmundur lengi forstöðu. Björn settist þá nánast upp á bændur, át og spjallaði og tafði menn frá verkum þangað til þeir gátu ekki meir og afhentu honum gögnin sem hann var á höttunum eftir. Með þessu móti varð Héraðsskjalasafn Skagafjarðar að stærsta skjalasafni utan Reykjavíkur.
Bókin um einbúann á amtmannssetrinu hefur ekki verið ein þeirra sem mest hefur verið látið með þetta árið. Raunar sýnist mér ekki létt að komast að í fjölmiðlum með kynningar á bókum þessa dagana sökum plássleysis og bækur á borð við þessa líða fyrir það. Hún hefur hins vegar fengið ágætis dóma hér og þar og "ratað til sinna" eins og sagt er.
Allir sem hafa gaman af því að lesa kjarnyrt og safaríkt íslenskt mál ættu að hafa nokkra ánægju af því að lesa þessa bók, auk þess sem hún er mikil heimild um sögu 19. aldarinnar, þótt hún sé kannski ekki endilega stórnýstárleg í framsetningu. Hins vegar er höfundur á engan hátt ógagnrýninn á heimildir sínar. Þvert á móti. Hann er í líflegri samræðu við 19. aldarmenn um hvernig skilja beri þennan konungholla og vandvirka embættismann sem sagt var að Skagfirðingar hefðu drepið með Norðurreiðinni vorið 1848. Grímur verður í frásögn Kristmundar að næstum tragískri fígúru. Örlög hans eru okkur nú á dögum skiljanlegri en þau voru Norðlendingum á fyrstu áratugum 19. aldar. "Fjölmenningarfjölskylda" hans verður honum erfið í skauti uns hann að endingu verður að halda heimili í tveimur löndum. Hann deilir því með nútímafólki að vera í senn staurblankur og geta ekki slegið af kröfum um lúxus og gott líf og deyr skuldugur þrátt fyrir að vera einn hæstlaunaðasti maður landsins.
En það sem er svo magnað við þessa bók og sker hana frá flestu því sem maður les þessa dagana er að Kristmundur skrifar eins og hinn innbyggði lesandi bókarinnar sé algerlega verseraður í 19. öldinni og skilji illrekjanlegar tilvitnanir, vísanir til smáatvika, manna og jafnvel slúðurs á fyrri hluta aldarinnar. Það er þessi sterki 19. aldar andi í bókinni, þessi fullkomni skilningur á samfélaginu sem skapaði heimildirnar sem hrífur mann mest. Fyrir vikið verður bókin krefjandi, hún krefst innsæis, nánast algerrar einbeitingar svo maður nái utan um þráhyggjur fólksins, skapferli einstakra manna, lausavísur, orðaskak, hneykslismál og vandkvæði jafnt embættismanna sem smábænda. Að maður komi sér í algjöran 19. aldar gír.
Ég las í dag upp smá bút sem mér fannst birta þetta ljóslega. Þar er fjallað um aftöku Friðriks og Agnesar og um þau fjallað þannig að allir viti hvað átt er við, en sjónarhornið dvelur við praktísk úrlausnarefni amtmannsins. Til að mynda verður hann að útvega öxi og höggstokk. Kristmundur rekur í smáatriðum hvað varð svo um öxina, vandkvæði við að flytja vopnið frá aftökustað í Vatnsdalshólum norður að Möðruvöllum og vitnar í bréf amtmanns þar sem hann lýsir aðstæðum á aftökustað 12. janúar 1830. Ég helda að yngri sagnfræðingur hefði horft á annað, reynt að draga okkur inn í dramatík aftökunnar eða stefnt að því að setja refsinguna í samhengi við valdaformgerðir samfélagsins. Hjá Kristmundi er ekkert slíkt. Fyrir vikið verður frásögnin sjálf sérkennilega nakin og hrífandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.