Sonur Framþróunarinnar Miklu

 Það besta við stöðugt flakk milli borgarhluta á skólaárum mínum var að á hverju ári blasti við ný sýn á Reykjavík. Einn veturinn gekk ég hvern dag fram á hæðarbrúnina austan við Háaleitisbraut þaðan sem Elliðaárdalur, slakkarnir upp af honum og fjöllin í austri og norðri, blasa við manni í mo<rgundýrðinni eins og mikilúðleg fyrirheit um að lífið nemi ekki staðar á Grensásvegi.

Í froststillum að hausti þegar bílaraðirnar neðan úr Árbæ, Mosó, Breiðholti og hinu nýtilkomna Grafarvogshverfi strengdu sitt band eftir Miklubrautinni í morgunsólinni, sá maður gufumekki frá nýjasta orkuundri Íslendinga við sjónhring, hvítar súlur úr holum Nesjavalla sem enginn Íslendingur - að mig minnir, en minnið blekkir - sá nokkurn meinbug á að væru boraðar. Almenningur fylgdist spenntur með byggingu þessa mannvirkis og lagningu hinnar miklu hitaleiðslu frá virkjun til borgar og skynjaði þar þytinn af framskriði tímans. Þetta var líka á einu þessara blessuðu bjartsýnisskeiða sem þessu landi eru sendar við og við af forsjóninni til þess að espa óhlýðugan vinnulýðinn með fyrirheitum um stórt heljarhopp upp í betra stand, aðeins til að fá síðan aftur á sig eitt heljarstraff fyrir dreissugheitin. Hvítar gufusúlur voru þá um stundir sérlegur bendifingur þess að þjóðfélagið kæmist kannski lengra en að Grensásvegi.

Þegar ég átti leið fyrir skemmstu um Fellsmúla árla dags þótti mér sem ég lifði aftur þessa haustmorgna fyrir um tuttugu árum. Nema að nú sá ég ekki fjarlæg reykmerki handan við Hengil - sem frá þessum stað líkist einna mest stórum hundi sem liggur fram á lappir sér - heldur stóð heil breiðsíða gufustróka þráðbeint í loft upp við sjónrönd, líkast því sem tröllauknir varðmenn stæðu vakt um borgríkið. Þessi hvítu gufusverð hafa nú í rétt fimm ár klofið austurhimininn, ýmist mörg eða fá eftir hentugleikum bormanna og Orkuveitu Reykjavíkur. Manni finnst að það hafi verið í gær að borflokkur sló upp búðum neðan við Víkingsskálann í Sleggjubeinsskarði þar sem hlíðin angaði eitt sinn öll af brennisteini og gufum, en þegar ég heimsótti þær gömlu slóðir fyrir skemmstu voru umbreytingarnar meiri en mig grunaði, og það aðeins á örfáum árum.

Orkuver er nú þarna til húsa í risastórum kassa sem nýútskrifaður tæknifræðingur virðist hafa rissað upp við eldhúsborðið á laugardagssíðdegi yfir einum köldum. Horfinn er metnaðurinn sem lyftir til að mynda orkuhofinu Svartsengi yfir teknókratíska meðalmennskuna. Leiðslur liggja í krókum um landið eins og ormar sem hafa lognast útaf í turnstiga og þrátt fyrir þrábeiðni margra, meðal annars Landverndar, um að þær verði felldar betur inn í umhverfið, virðist sem tuddaleg þrákelkni sé helsti Þrándur í Götu þess að nýting hinnar grænu ofurorku sem heimurinn hrópar á sé í raunverulegri sátt við umhverfið. Hellisheiðarvirkjun er fagurfræðilegt skrímsli sem virðist beinlínis byggt til að storka öllum málamiðlunum. Hvers vegna er manni fullkomlega óljóst, því kostnaðarrökin, jafn falleg og þau virðast í bankanum, fölna fljótt þegar orkuverin eru sett í ímyndarlegt samhengi. Það er eitthvað alveg óendanlega skakkt að byggja grænt orkuver og storka í leiðinni öllum hugmyndum um sátt við umhverfið.

Fjársjóðirnir undir Hellisheiði og Hengli hafa verið á valdi ótrúlegrar atburðarásar undanfarið ár. Þeir sem bera hag heildarinnar helst fyrir brjósti, ekki hvað síst ritstjóri Fréttablaðsins, fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, kölluðu ákaft eftir því að fundin yrði pólitísk lausn á málefnum Reykjavíkurborgar hið fyrsta svo hægt verði að moka upp gullinu af heiðunum: Með almannahagsmuni að leiðarljósi. Þeir hafa nú verið bænheyrðir. Sömu kröfu gerir Þorsteinn einnig til ríkisstjórnarinnar. Hún verði með almannahagsmuni að leiðarljósi að beita sér fyrir nýtingu jarðhitans norður í Gjástykki og í Fremrinámum. Hann er samstiga norðlenskum grátkörlum í því að harma þá einföldu staðreynd að nýverið ákvað umhverfisráðherra að fylgja lögum en ekki iðnvæðingardraumum og fara fram á heildstætt mat á umhverfisáhrifum orkuvinnslu, línulagningar og byggingu stórrar verksmiðju í Suður-Þingeyjarsýslu. Líkt og fjármálalífið talar Þorsteinn um að nú sé þörf á risaskrefum í orkunýtingu hérlendis til að sporna gegn kaupmáttarrýrnun og gjaldmiðilsveiklun. Hefði þetta verið uppi fyrir tuttugu árum síðan held ég að fáir hefðu orðið til andmæla. Nú tala menn hins vegar með mælskufræðilegum þrótti um hvítagullsvinnsluna því yfir öllu hangir Demóklesarsverð almenningsálitsins: Enn hefur engin ný skoðanakönnun hrakið þá frá í vetur sem sagði að meirihluti Íslendinga vildi fara sér hægt í orkuvinnslumálum. Nú þarf að fanga sálir.

En hvorki Þorsteinn Pálsson né bankastjórar Landsbanka og Glitnis eru sérstakir ástríðuberserkir. Þeir eru menn hinnar hófsömu röksemdafærslu nauðhyggjunnar sem gefst vel á sinn rúðustrikaða hátt þegar hún segir: Þetta er eina leiðin, hana verðum við að ganga. Eldheitasti iðnvæðingar- og orkunýtingarsinni landsins er nefnilega ekki úr þessari sveit, heldur er hann samflokksmaður umhverfisráðherra. Léttsvæfi urriðadansarinn Össur Skarphéðinsson stakk á einni viku í tvígang niður penna til að rissa upp stóru drættina í draumsýn sinni um Iðnríkið Ísland. Hann hitaði upp í Morgunblaðinu miðvikudaginn 6. ágúst, eyddi að mestu púðrinu í að skamma forstjóra og fjármálamenn fyrir aumingjaskap og vælukjóahátt, sem virðist raunar vera í tísku hjá ríkisstjórninni þessar vikurnar, einhvers konar samræmdar smjörklípuaðgerðir til að beina andlitum burt frá „aðgerðarleysisstefnunni", en sýndi svo að til væru menn sem hugsuðu stórt: hann sjálfur.

Í Fréttablaðinu sunnudaginn 10. ágúst var svo hleypt af Stóru Bertu. Eftir lesturinn duldist engum að ef Össur fær einhverju að ráða verða slík stórkostleg umskipti í atvinnusögu Íslendinga á næstu misserum að líkja má við upphaf vélbátaútgerðar eða komu fyrsta togarans. Raunar hefur farið furðu hljótt um þau miklu tíðindi sem ráðherrann flytur í Fréttablaðsgrein sinni, sem virtist raunar hafa verið skrifuð í kaffiboði með Þorsteini Pálssyni, nema hvað eriftt er að sjá fyrir sér að nokkur annar en ráðherrann geti haft jafn ríkulega á tilfinningunni að hann sé handbendi sögunnar í stórstökki hennar framávið. Stundum er sagt að það sé þroskamerki á stórum stjórnmálahreyfingum að þar séu uppi mörg og margvísleg sjónarmið, en bókstafurinn talar sínu máli. Grein Össurar er á eins öndverðum meiði við málflutning hins umhverfissinnaða arms Samfylkingar og hugsast getur. Ekkert nema æsilegt ímyndunarafl getur skipað þeim Dofra Hermannssyni eða Þórunni Sveinbjarnardóttur undir sama stjórnmálahátt og rúmar þann sem brosir feimnislega til fögru dísarinnar Sögu á höfundarmyndinni í Fréttablaðinu.

Hvítagullið í heiðinni og í óbyggðum Fremrináma og Þeistareykja er slíkt verðmæti á heimsvísu að ólíðandi er að grípa ekki tækifærin undir eins. Jafnvel umdeildar framkvæmdir sem fjölmiðlar höfðu fjallað gagnrýnið um dagana á undan eins og línulagningin frá Blöndu til Akureyrar sem þeir í framsveitum Skagafjarðar eru á móti af smekkvísinni einni saman - tilfinning sem virðist hafa hlaupið undan Syni Framþróunarinnar Miklu - verða í penna ráðherra að meiriháttar snarræðisákvörðunum sem hann persónulega virðist hafa tekið til að hjálpa hinu stóra hjóli tímans. Hvarvetna, í hverjum landshluta, já í hverjum firði nánast, starfar hin styrka hönd iðnaðarráðuneytis og henni þóknanlegra stofnana að því að veita framþróuninni brautargengi og alls staðar vakir ráðherrann yfir, sífellt íhugandi hvernig börn þessa fátæka lands geti séð sér og sínum sem frekast farborða í viðsjárverðum heimi.

Kreppan er heillandi tími. Hún er tími íhugunar og endurmats, tími ímyndunaraflsins. En forsjónin forði okkur frá fimm ára áætlunum, nauðhyggjulegum neyðaráætlunum, og stjórnsömum ráðamönnum sem sjá slíka tíma sem gullið tækifæri til að skilja heiminn eftir fullan af kössum og ormum handa börnum okkar að bölva yfir.

(Birt í Lesbók Morgunblaðsins 16.08.2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband