9.8.2008 | 14:20
Steinunn Sigurðardóttir og Forlagið
Fyrir réttu ári síðan var tilkynnt að JPV útgáfa og útgáfuhluti Eddu útgáfu hf. myndu sameinast undir merkjum Forlagsins. Í ljósi þróunar efnahagsmála er ekki nokkur vafi á að þetta var giftusamleg ákvörðun sem tryggði stærstu bókaútgáfu landsins nauðsynlegan styrk á komandi óróaárum. Samruninn var að endingu samþykktur af Samkeppniseftirliti með skilyrðum eða sátt sem gerð var milli eftirlits og félags og er um margt furðulegur gjörningur en tryggir Forlaginu mikilvægan starfsfrið. Eitt af því sem þar er tíundað sem ástæða fyrir inngripi Samkeppniseftirlits er að Forlagið ráði "höfundamarkaðnum" á Íslandi, þar sem svo stór hluti íslenkra rithöfunda gefi þar út og því sé samkeppni um höfunda ekki nægilega virk. Fyrir vikið var Forlaginu meinað að gera það sem nánast aldrei er gert í íslenskri útgáfu: að gera samninga fram í tímann, að binda óskrifuð og óútkomin verk samningum við ákveðna útgáfu.
Frétt Morgunblaðsins frá í morgun um að Steinunn Sigurðardóttir sé ekki lengur meðal höfunda Forlagsins er því í raun ekki-frétt. Ekkert bindur Steinunni Sigurðardóttur, né raunar nokkurn annan höfund Forlagsins, neinum böndum við fyrirtækið, liggi ekki beinlínis fyrir samningar um næstu útgáfuverk. Það er beinlínis bannað. Einu böndin eru þau sem segja má að séu tilfinningalegs eðlis, eða að viðkomandi höfundar telja að fyrirliggjandi útgáfusamningar, þ.e. samningar sem ef til vill voru gerðir við Mál og menningu og Eddu, séu áfram vel komnir í safni Forlagsins og því sé rétt að það forvalti útgefin verk þeirra frá síðustu 7 árum og oftast raunar lengur, eins og kveðið er á um í samningsumgjörð sem Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda halda sig við og notuð er í nær öllum útgáfusamningum á Íslandi.
Þar þarf svo sem ekki að liggja fyrir neitt sérstakt "traust" milli manna, heldur einfaldur trúnaður á að báðir aðilar hagnist á sambandi sínu. Útgáfusamningasafn Forlagsins er svo gríðarlega víðtækt að gera má því skóna að mörg hundruð aðilar standi í slíku hagsmunasambandi við útgáfuna, höfundar, listamenn, ljósmyndarar og þýðendur, og uni því einfaldlega vel. Sem dæmi má taka höfund kennslubókar, til dæmis í stærðfræði eða dönsku sem samdi námsbók sem kom upphaflega út hjá Máli og menningu, Iðunni eða Vöku-Helgafelli, hefur síðan verið endurskoðuð hjá Eddu og er nú í höndum Forlagsins. Engum dettur í hug að segja þar: Á milli okkar ríkir ekkert traust, við erum skilin skiptum. Bókin er einfaldlega á markaði. Báðir aðilar hagnast og málið dautt. Síðan er gríðarlegur fjöldi útgáfusamninga sem gerðir voru fyrir bækur sem löngu eru dottnar út af markaði, hanga kannski enn inni á bókamörkuðum, en hreyfðust ekki eftir að jólavertíðinni 1998 eða 2001 lauk. Þar er heldur hvorki vantraust né traust á ferðinni, heldur einfaldur skilningur á að málum verði hvorki betur né verr komið eins og þau eru. Forlagið heldur áfram að senda yfirlit yfir seld eintök hvert ár. Stendur í skilum. Enginn getur ætlast til meiri hetjudáðar af útgáfufyrirtæki en að það haldi áfram að selja þá vöru sem það hefur í höndunum. Það er frumskilda útgáfunnar og ekkert tilfinningalegt við það.
Í raun er Steinunn Sigurðardóttir á sama báti og höfundur kennslubókar í dönsku sem kom út fyrir 10 ti 15 árum og síðan aftur endurskoðuð fyrir fimm. Enginn formlegur gjörningur liggur fyrir sem treystir bönd hennar við Forlagið til framtíðar, sérstaklega vegna þess að verk hennar áður útgefin, fylgdu með í kaupunum, enginn er skyldugur að spyrja höfunda um leyfi fyrir því að selja útgáfufyrirtækið sem gerði upphaflegan útgáfusamning við þá. Forlagið getur sagt: Við viljum selja bakklistann til þess sem hugsanlega vill gefa út verk hennar í framtíðinni, en það er ekki hægt að neyða neinn til að kaupa það sem hann ekki vill. Hér er því á ferðinni yfirlýsing frá Forlaginu og útgefenda þess um að hann vilji einfaldlega ekki gefa út verk Steinunnar Sigurðardóttur í framtíðinni. Ég minnist þess ekki að slíkt hafi áður heyrst í íslenskri bókaútgáfu, svona opinberlega. Jóhann Páll Valdimarsson er hressandi hreinskilinn í viðtalinu og teiknar mjög skýrt upp afstöðu útgefanda í þessari samningsaðstöðu. Einhver myndi jafnvel segja að hann sé hryssingslegur, því Steinunn Sigurðardóttir er að sönnu einn virtasti rithöfundar þjóðarinnar, hefur hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin og fengið mikla útbreiðslu, frábærar viðtökur og er lesin vítt og breitt. En það breytir því ekki að kannski vakna íslenskir rithöfundar nú upp við þann veruleika að forlögin eru að laga sig að kreppunni. Þau bítast ekki lengur um höfunda. Samkeppni um táknrænt kapítal þeirra er ekki sú sama og fyrir nokkrum árum. Útgefandinn hefur þær skyldur einar að reka sitt fyrirtæki sem best og standa heill með sínum ákvörðunum. Hann hefur ekki einhverjar sérstakar skyldur við íslenska rithöfunda, eins og mér heyrist stundum rithöfundar halda fram. Sú fjárhagslega og listræna áhætta sem útgefandinn tekur er alfarið hans og þá velur hann sér þá á skipið sem honum sýnist.
En hvað sem því liður mun Steinunn Sigurðardóttir halda áfram að skrifa og gleðja okkur með sínum mögnuðu verkum. Á því er enginn vafi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.