7.8.2008 | 23:07
Til hamingju Sigurgeir!
Tilnefningar til Myndstefsverðlauna í ár voru margar og góðar. Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur fengu tilnefningar fyrir dagatölin sín og Eggert Pétursson fékk tilnefningu fyrir myndirnar sínar. Tilviljunin hagar því til að Snæfríð hannar nú hina stórkostlegu (þótt ég segi sjálfur frá) risaútgáfu á Flóruteikningum Eggerts sem útgáfan okkar Snæbjörns Arngrímssonar, Crymogea, gefur út fyrir jólin. Þessi hátíðarútgáfa verður frómt frá sagt ein glæsilegasta bók sem komið hefur út hér um slóðir, sem segir allt sem segja þarf um snilli Eggerts og Snæfríðar.
En þau fengu ekki Myndstefsverðlaunin, heldur Sigurgeir Sigurjónsson. Yfir því er ég hoppandi kátur, sem um leið er fremur sjálfhverf tilfinning því ég hef átt áralangt samstarf við Sigurgeir og samdi textann í síðustu bók hans, Hestar. Manni finnst hann sannarlega eiga viðurkenningu skilið og að raunar hafi oft verið of hljótt um þennan hægláta snilling. Um leið lyftir viðurkenningin íslenskri ljósmyndun almennt. Við eigum nokkra stórbrotna ljósmyndara sem hafa haft miklu meiri áhrif á ímynd Íslands, viðhorf okkar til lands og umhverfisins en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Sigurgeir hefur bara færst í aukana á síðustu árum, til að mynda var sýningin hans hjá Gunnar Erni sáluga í Gallerí Kambi haustið 2007 dæmi um endurnýjun hans og sköpunarkraft. Kraftmiklar myndir frá Kúbu sem sýndu veruleika ferðalangsins og súbjektíva sýn hans fremur en það sem áhorfandinn býst við þegar hann heyrir Kúbu nefnda. Háleitar loftmyndir af Íslandi sem sameinðu óhlutbunda myndsýn og vísindalega nákvæmni sem sett var fram með klassískri myndbyggingu. Í þeirri miklu bylgju loftmyndatöku sem farið hefur um ljósmyndaheiminn á undanförnum árum fannst mér Sigurgeir hafa strax hitt á persónulegan tón og náð sínum sérstöku tökum á loftmyndatökunum.
Á engan er hallað þegar sagt er að Sigurgeir er vinsælasti ljósmyndari sem þetta land hefur alið. Enginn íslenskur ljósmyndari hefur hlotið jafn gríðarlega útbreiðslu á heimsvísu og hann með bókum sínum. Í heiminum eru nú til hátt á hálfa milljón eintaka af bókum eftir hann, það er mikið "by any standards". Ég man vel þegar ég hitti hann fyrst í kjallaranum við Hverfisgötu þar sem nú er Alþjóðahúsið. Erindið var að segja honum að ég hefði tekið við útgáfustjórn Forlagsins ásamt Árna Einarssyni í ársbyrjun 2000. Hann var þá þegar orðinn einn styrkasti stólpinn í íslenskri ljósmyndaútgáfu. Stórvirkið Íslandslag hafði markað tímamót í útgáfu á landslagsljósmyndabókum var þá búin að vera á markaði í 8 ár og gengið glæsilega. Íslandslag hafði gríðarleg áhrif á ímynd Íslands erlendis. Þar teiknaði Sigurgeir í raun upp mótvífabanka Íslands fyrir metnaðarfulla áhugaljósmyndara í ferðamannastétt. Ótrúlega margir ferðuðust um landið með bókina undir handleggnum og reyndu sig við sömu staði og Sigurgeir. Litla bókin Ísland landið hlýja í norðri með texta Torfa Tuliniusar um íslenska menningu og náttúru var þá þegar orðin stöndug sölubók og búin að vera á markaði í 6 ár. Hún er enn í fullri sölu og er sú ljósmyndabók um Ísland sem nú er til á flestum tungumálum. Það er merkilegt að bók standist svo vel tímans tönn að hún sé á markaði samfleytt í 14 ár og sé allan tímann í góðri sölu.
En þegar ég hitti Sigurgeir þarna í ársbyrjun 2000 sagðist hann ekki vera með hugann við að gera bók í bráð. Hann hafði þá nýverið sent frá sér seríu af þremur litlum bókum um náttúru Íslands, fossa og Reykjavík sem nú er að mestu horfin af markaði. Rúmlega ári síðar settumst við Vicky Cribb, ferðabókaritstjóri Eddu, hins vegar niður með honum og hann sýndi okkur handritið að Lost in Iceland. Það sló okkur strax vel, en það sem gerði útslagið var kápan, hún var allt öðru vísi en maður var vanur að sjá. Svört, svolítið drungaleg og mystísk og sendi allt önnur skilaboð en vaninn hafði verið í bókum af þessu tagi. Fæðingin gekk nokkuð stirðlega vorið 2002, sem helgaðist einkum af eigendaskiptum sem þá stóðu yfir hjá Eddu útgáfu, en á endanum tókst að prenta fyrsta upplagið og það kom út í júni 2002. Tveimur vikum síðar var Lost in Iceland efst á metsölulista Pennans. Í árslok höfðu selst um 9.000 eintök af bókinni á ensku, íslensku og þýsku. Árið eftir kom svo frönsk útgáfa og síðan þá hefur árlega selst svipaður fjöldi eintaka, rétt um 9.000. Sigurgeir er margfaldur metsöluhöfundur, en árlega seljast um 15.-20.000 eintök af bókum hans. Stóran þátt í velgengninni átti Elísabet Anna Cochran, hönnuðurinn sem setti upp svo sniðuglega kápumyndina með þessum ágenga titli.
Annað ævintýri var síðan útgáfa Íslendinga sem Sigurgeir gerði með Unni Jökulsdóttur árið 2004 og sýning með myndum úr bókinni á Austurvelli. Halldór Blöndal, þá forseti Alþingis, hamaðist gegn sýningunni sem og annarri sýningu árið eftir með myndum Ragnars Axelssonar á sama stað, og megi hans skömm ævarandi vera uppi. Það virðist sem æskilegra sé að blindfullt fólk velti um grasið á Austurvelli og æli og öskri á vegfarendur en að þar séu sýnar ljósmyndir til að gleðja og prýða. Þetta voru eintóm vandræði og hefði ekki þáverandi borgarstjóri, Þórólfur Árnason og þær Höfuðborgarstofuskvísur Sif og Svanhildur bakkað þetta upp, hefði þetta líklegast aldrei orðið að veruleika. En Íslendingar slógu í gegn og sýningin varð geysivinsæl. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og varð að metsölubók, miklu vinsælli en bækur með landslagsljósmyndum almennt verða.
Síðan komu Found in Iceland, sjáfsagt glæsilegasta bók Sigurgeirs hingað til og ákveðin niðurstaða af ferli hans sem landslagsljósmyndara um leið og hún sýndi upphaf loftmyndatökunnar. Made in Iceland er nútímaleg bók um Ísland, fersk og framsækin bók sem enn og aftur nýtur þess að góður hönnuður, Lizzie, sem hannað hefur allar síðustu bækur Sigurgeirs, gerir gott efni enn betra og býr það í hendur bókakaupenda.
Ég er sjálfur ákaflega stoltur af því að hafa fengið tækifæri til að skrifa um hestamennsku í nýjustu bók Sigurgeirs, Hestar, sem kom út nú í sumar. Fyrsta stóra ljósmyndabók Sigurgeirs hét sama nafni og kom út árið 1985. Hún er löngu ófánleg en heimildagildi hennar um hestamennsku á tímamótum í upphafi níunda áratugarins og í lok þess áttunda er ómetanlegt. Ég er sérstaklega hrifinn af myndasyrpunni úr Laufskálarétt sem sýnir stóðréttir eins og þær voru hér einu sinni, ekkert nema hross og fáeinir stóðbændur. Hestamyndir eins og þær eru settar fram í fagblöðum og fagbókum eru miðaðar við að sýna hesta eins og hestamenn vilja sjá þá og þá gleymist fagurfræðin. Andi hestamennskunnar, þessi ólýsanlegi andlegi strengur sem bindur mann við skepnuna, frjálsræðið og hið draumkennda sem býr í að sjá stælt hross hreyfa sig undir knapa eða í haga, allt þetta vill hverfa þegar ráðunautamyndatæknin er í algleymi. Sigurgeir er óhræddur við að taka myndir af smáatriðum og hrossum í öllum aðstæðum, oft mjög skrítnum. Fyrir vikið nær hann líka tengslum við þá sem ekki eru hrossafólk, það skynjar hvað býr í þessum skepnum og umgengninni við þær.
Myndstefsverðlaunin eru mikil lyftistöng fyrir íslenska ljósmyndun. Til hamingju Sigurgeir!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.