Í Ouagadougou

Það fyrsta sem mætir manni á flugvéllatröppunum er lykt af viðarkolum. Hún er ekki ágeng og bensínmettuð eins og íslensk úthverfagrilllykt. Hún er sæt og fínleg líkt og hún berist langt úr fjarskanum og hafi á leiðinni dregið í sig keim af jurtum og heitri mold. Þetta er hveralyktin þeirra. Megnið af íbúum Ouagadougu eldar matinn sinn með því að brenna viðarkolum og lurkum. Höfundur Lonely Planet leiðarbókarinnar dregur af þessu þá stórkarlalegu ályktun að „næstum engin" tré sjáist á 70 kílómetra breiðu belti um borgina, stórbrotin villa sem er kannski skiljanleg í ljósi þess að komið hefur í ljós að bók Lonely Planet um Kólumbíu var rituð án þess að höfundurinn hefði stigið þar fæti. En auðvitað blasir við að einnar og hálfrar milljón manna borg, sem auðvitað fer stækkandi eins og allar borgir heimsins, getur ekki endalaust treyst á eldivið til að sinna grunnorkuþörfum fjölskyldunnar.

Auðvitað eru þau með rafmagn, meira segja frá vatnsaflsvirkjun, en það er sparlega nýtt, því raforkuverð í Búrkína Fasó er það hæsta í Vestur-Afríku. Götuljós eru aðeins á meginleiðum, hverfin eru meira og minna hulin myrkri eftir sólsetur. En á fullu tungli eru moldartroðningarnir raunar furðu bjartir og týrur hér og þar lóðsa mann áfram, eins og blikkandi innsiglingarmerki. Bílarnir og hin óendanlegi her skellinaðra þurfa að sjálfsögðu jarðefnaeldsneyti, en það hefur margfaldast í verði á umliðnu ári og yfirmaður Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í landinu segir mér að í raun hafi ekki nema brotabrot af þeim nærri 14 milljónum sem byggja Búrkína Fasó efni á að knýja farartæki með sprengihreyfli. Ofan á það bætist að grunnfæðutegund íbúanna, hrísgrjón, kostar nú fimm sinnum meira en hún gerði fyrir ári síðan. Þótt maður sjái hrísgrjónaakra hér og þar og haldi þess vegna að ef til vill sé þjóðin sér næg um grjón, mun svo ekki vera, vart nema 4% af hrísgrjónaþörf þjóðarinnar er svarað með innlendri framleiðslu, hitt er flutt inn fyrir gjaldeyri sem þjóðin á í raun ekki til. Búrkína Fasó hefur aðeins tvennt að bjóða heiminum: baðmull og gull og hvorugt í nógu miklu magni til að það hefji þjóðartekjur upp fyrir fátæktarmörk. Þegar maður stígur á flugbrautina í Ouagadougu er maður því kominn til eins fátækasta lands heims, lands sem naut þess vafasama heiðurs um árabil að vera sá blettur jarðar þar sem fæstir kunnu að lesa. Eðlilega spyr maður: Er eitthvað hægt að gera?

Í vikunni hófst enn ein umferð Doha-viðræðanna um lækkun tolla í alþjóðaviðskiptum. Frá því að viðræðurnar hófust árið 2001 hefur margt áunnist en enn stendur hnífurinn í þróunarkúnni, „nýmarkaðslönd" og þaðan af fátækari frændur þeirra krefjast greiðari aðgangs fyrir landbúnaðarvörur á mörkuðum hinna betur stæðu hagkerfa ESB, Norður-Ameríku og Japan - en fá ekki. Þessar viðræður snerta einnig íslenska bændur og íslenska neytendur því niðurstaða úr þeim gæti haft umtalsverð áhrif til framtíðar á beingreiðslukerfi íslensks landbúnaðar og tilhögun innflutningstolla, en eins og jafnan þegar um alvöru atburði er að ræða umlykur þá móska í fjölmiðlum sem kemur í veg fyrir að vægi þeirra fyrir jarðarbúa ljúkist upp fyrir manni. Viðræðunum er ýmist fagnað á trúarlegum grunni undir kjörorðinu „áfram alþjóðaviðskipti" eða menn telja sig sjá hnattvæðingargrýluna ganga hönd í hönd með Leppalúða Evrópusambandsins til byggða að sækja vondu börnin sem spyrna fótum við lokasigri kapítalismans.

En í Ouagadougu horfir málið öðru vísi við. Þar er enginn díll versta mögulega niðurstaðan í Doha-viðræðunum vegna þess að það er einfaldlega ekkert að gerast í viðskiptamálum þjóðar sem flytur meira og minna allt inn en hefur nánast ekkert á bjóða í staðinn nema vöru sem er niðurgreidd af alríkisstjórnum og framkvæmdastjórnum USA og ESB til þess að friða 0,6%-2,5% íbúa sinna ríku landa. Þótt talsmenn Bandaríkjastjórnar og Evrópusambands haldi því stíft fram að viðræðunar strandi á þvermóðsku G20-hópsins, sem svo er nefndur, þar sem Kína, Indland og Brasilía eru í forsvari, tekur maður meira mark á fulltrúum smærri hagkerfa Afríku, Eyjaálfu og Mið-Ameríku. Þeir segja það sama: Við erum þegar búin að taka til í okkar tollagarði, það er nánast óhindraður aðgangur fyrir innfluttar vörur í okkar hagkerfum en við verðum enn sem fyrr að kljást við höft á innflutningi landbúnaðarafurða okkar til ríku landanna sem í ofanálag knýja niður heimsmarkaðsverð á vörum okkar með niðurgreiðslum.

Fyrir íbúa Búrkína Fasó er þetta algerlega augljóst mál. Baðmullin sem þeir flytja út hefur hríðfallið í verði á undanförnum árum. Baðmullarframleiðsla í Bandaríkjunum er svo stórkostlega niðurgreidd að framleiðsla frá Afríkulöndum hefur ekki í tré við hana á heimsmarkaði. Þær upphæðir sem Bandaríkjastjórn ver til niðurgreiðslna á landbúnaðarafurðum eru stjarnfræðilegar í samanburði við efnahag landa á borð við Búrkína Fasó. Nú stendur talan í 18 milljörðum dala, en Bandaríkjamenn hafa raunar gert því skóna að hún verði lækkuð í 15 milljarða í tengslum við yfirstandandi samningalotu. Samt er landbúnaðarframleiðsla í Bandaríkjunum í höndum svo fámenns hluta þjóðarinnar að hann telst vera undir einu prósenti. Mikilvægi þessara prósentubrots er hins vegar mikið á stjórnarkontórunum í Washington.

Þróunarhjálp og gjafmildi af ýmsum toga gagnvart Afríkuþjóðum sunnan Sahara hefur verið í tísku á undanförnum árum eins og við höfum glöggt séð af glæsilegum galaveislum íslenskra auðmanna til stuðnings þjáðum bræðrum og systrum. Um leið ber mönnum saman um að aðferðinar við aðstoðina hafi tekið stakkskiptum til hins betra. Þótt enn hitti maður fólk eins og unga stúlku sem ég rakst á um daginn sem var á leið til Afríku að gefa „krökkunum þar nammi" vegna þess að þau „brjálast alveg" þegar þau sjá sætindin og „klifra yfir hvert annað til að gúffa það í sig", þá leggja menn æ meiri áherslu á að þróa innviði í samfélögunum sem koma íbúunum að gagni og sem íbúarnir sjálfir taka þátt í að byggja og kalla eftir. En um leið sér maður glöggt í Afríkulöndum að einskonar sjálfstæður „þróunaratvinnuvegur" verður til sem erfitt er að skilja hvernig muni fleyta almenningi þessara landa áfram til betra lífs. Þar verður að koma til vöxtur vegna alþjóðaviðskipta, réttlátari aðgangur að mörkuðum fyrir landbúnaðarafurðir sem er það eina sem flest þessara landa hafa að bjóða. Yfirmaður Þróunarsamvinnustofnunar SÞ í Ouagadougu segir að Búrkína Fasó gæti hæglega orðið mekka jarðaberjaræktar, ef menn vildu svo, en til þess þyrfti að byggja kæligeymslur, leggja vegi, fá stærri vélar til flutninga, koma á reglulegum fraktflugsamgöngum við Evrópu og svo framvegis. Ekkert af þessu væri fyrir hendi því það borgaði sig ekki í augnablikinu.

Yrði þetta hins vegar allt að veruleika gæti Búrkína Fasó borið nafn með rentu, orðið „land hinna keiku manna". Hinn merki stjórnmálamaður og byltingarforingi Thomas Sankara gaf landinu þetta nafn og kastaði eldra nafninu Efri-Volta fyrir róða. Sankara var skotinn af fyrrverandi vopnabróður eftir að hafa tekist einstaklega vel til við að koma lagi á ríkisbúskapinn, bæta heilsufar íbúanna og taka fyrstu skrefin í átt að kenna þeim að lesa. Gröf hans er á óupplýstu bersvæði í útjaðri Ouagadougu þar sem finna má sæta lyktina af eldiviðinum í ofnum milljónaborgarinnar, blandna sætum keim af jurtum og mold.

(Lesbók Morgunblaðsins 26.07.2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband