8.7.2008 | 22:45
Þriðji hvítabjörninn - samsæriskenning
Norður í Skagafirði logar allt í umræðum um hvítabirni. Fólk telur ómaklega að sér vegið, það vill drepa hvítabirni og skilur ekki allt havaríið í vitleysingunum í 101 sem eru orðnir svo vankaðir í heilanum af mjólkurskúmsþambi með kaffinu sínu að þeir sjá ekki rautt, heldur hvítt. Fólkið er hrætt við þessar skepnur því þær virðast berast á land með dularfullum hætti og birtast skyndilega í þokunni. Börn sjá þeim bregða fyrir og er ekki trúað en svo skíta þeir á þjóðvegina.
Spár um að svona líti komandi ár út, full af flakkandi hvítabjörnum, leggjast ekki vel í menn. Þeir sjá fyrir sér að fólk verði almennt vopnað, ég heyrði talað um námskeið fyrir íbúa Skagafjarðar og Húnaþings um varnir gegn hvítabjörnum. En fyrst og fremst er táknfræði hvítabjarna öfug við táknfræðina í fjölmiðlum heimsins. Hér á að drepa hvítabirnina eins og skot, á forsíðum blaða hins vestræna heims á að vernda þá. Báðir aðilar eru að sjálfsögu ekki að tala um hvítabirni, heldur eigin sál.
En athyglisverðust er kenningin um þriðja björninn. Því er haldið fram að þriðji björninn sem Sævar á Hamri dreymdi fyrir hafi í raun gengið á land, hann hafi sést þegar málsmetandi borgarar Skagafjarðar gengu fram á hann á Skaga og tóku af honum mynd (sem búið er að reikna út með vísindalegum hætti að geti ekki verið af hrút) en síðan verið drepinn í kyrrþey af sérstakri dauðasveit ríkislögreglustjóra undir forystu Stefáns "lík"Vagns Stefánssonar lögreglustjóra og grafinn í skjóli þokunnar. Hvítabirnir eru nú orðnir eins og geimverur. X-skýrslur um hvítabirni og leynilegar dauðasveitir sem skjóta þá með hljóðdeyfum munu vera geymdar í öryggishvelfingum dómsmálaráðuneytisins.
Þórunni var ekki sagt neitt frá þessu. Raunar mun hún ekki einu sinni hafa gefið út dauðaskipunina á hvítabjörn númer tvö. Stórskyttan frá Nautabúi felldi hann víst með meistaraskoti þegar hann var á ferð í 300 metra fjarlægð. Það þurfti bara eitt skot til að fella dýrið og ekki meir, beint í hausinn, en Þórunn var víst ekki búinn að segja gó, hún minntist bara á að kannski væri rétt að fara að huga að því að kannski væri rétt að fella dýrið. Skyttan þurfti ekki meira. Samfylkingin og tvíl hennar kristallast í þessari sögu. Ráðvilltur ráðherra andspænis eindreginni kröfu landsbyggðarinnar um fórnarblóð og Töfraskyttan með putta á gikk en umhverfisvinirnir á hina hönd með óljósar kröfur um flutning í búri sem minnti á spýtnabrak (var búrið inni í kassanum eða var kassinn búrið?). Eftirá var víst látið líta svo út að þetta hefði verið skipulagt, en var víst ekki skipulagðara en þetta. Þessi leyniskýrsla er bæði í dómsmálaráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.