13.12.2007 | 10:40
Af hverju kaupir fólk svona mikið af bókum?
Það er sama við hvern er talað. Hvort sem það eru smásalar eða útgefendur. Allir staðfesta að bóksala ársins 2007 sé það sem af er umtalsvert meiri en hin fyrri ár svo nemur í sumum tilvikum um 20% aukningu. Auðvitað ber að taka slíkum tölum frá útgefendum með fyrirvara þar sem vertíðin er ekki enn á enda runnin og hinir víðáttumiklu bókalagerar eru nú dreifðir um allar koppa grundir, allt frá Strax á Skagaströnd til Office 1 í Vestmannaeyjum, Bónuss á Seltjarnarnesi til Nettóstórveldisins á Akureyri, en söluaukning endursöluaðila segir sitt.
Og þá byrja menn að spá. Af hverju kaupir fólkið svona mikið af bókum?
Í fyrsta lagi hefur framboð aukist. Í Bókatíðindum eru 120 fleiri titlar í ár en í fyrra (prentaðir og hljóð), alls 800 titlar. Eymundsson, sem tekur nær allar bækur inn, hefur 1000 ný vörunúmer í flokknum íslenskar bækur á skrá fyrir árið í ár. Mikið vöruúrval hefur jákvæð áhrif á viðhorf neytenda, það er sannað mál. Í öðru lagi fer það ekki framhjá neinum sem horfir á sjónvarp eina kvöldstund að auglýsingar bókútgefenda eru gríðarlegar. Birtingakostnaður í sjónvarpi hlýtur að hlaupa á tugum milljóna, jafnvel fara yfir hundrað milljónirnar því það er búið að vera auglýsa stíft frá því í endaðan október. Mér var sagt að Forlagið (JPV/Mál og menning/Vaka-Helgafell) hefði verið stærsti einstaki auglýsandinn í sjónvarpi í nóvember síðastliðnum, sem segir sína sögu. Sá sem ekki tekur eftir því að bækur koma út núna fyrir jólin les ekki blöð, hlustar ekki á útvarp og hefur tekið sjónvarpið úr sambandi. En eigi hann leið í Hagkaup, Nettó, Krónuna, Bónus, Office eða ótrúlega margar Samkaupabúðir að ógleymdum sjálfum Eymundsson blessuðum auk ótal annarra verslana hlýtur hann að sjá bækur einhvers staðar á bekk. Varan er vel sýnileg.
Í þriðja lagi sýnast spámönnum ýmis teikn á lofti um að til sé að verða nýr markaður fyrir bækur sem ekki var hluti af jólamarkaðnum hér áður fyrr. Það mætti kalla þennan markað "aðventumarkaðinn". Fólk kaupir bækur handa sjálfu sér að lesa, nýjar bækur sem eru í umræðunni og fólki finnst spennandi að lesa. Æ oftar verður maður var við í samtölum við fólk og af ýmsum ummælum í fjölmiðlum og á bloggsíðum að fólk les bækur á aðventunni. Ég heyrði til dæmis í mér nákominni konu um daginn sem sagði mér að á sínum vinnustað læsi fólk skipulega flestar meiriháttar bækur þessarar vertíðar strax og þær kæmu út, og þarf kannski ekki að taka fram að menntaðar konur á fimmtugs og sextugsaldri eru í meirihluta á þessum vinnustað. Sumir segja mér að bóklesturinn sé orðinn óaðskiljanlegur hluti af aðventustemmningunni. Menn eru ekkert að bíða fram á jólanótt og að "sofna seint þessi jól", heldur demba sér strax í lesturinn. Grundvöllurinn er náttúrlega að fólki finnst verðið viðráðanlegt. Því jafnmikilvægt og hátt bókaverð er fyrir afkomu höfunda er það hemill á bókakaup. Frjáls verðlagning á bækur hefur búið til samkeppnismarkað, knúið bókaútgefendur til að leita leiða til kostnaðarlækkunar og stýrt mönnum í þann farveg að bæta upp tekjutap af fáum og dýrum seldum eintökum í að hala tekjurnar inn á magni. Oft er fussað og sveiað yfir þessum "afsláttum", en hjaðningavígin á bókaborðunum hafa áreiðanlega ekki haft það í för með sér að fólk kaupir síður bækur. Þvert á móti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.