6.12.2007 | 10:52
Vandinn að tilnefna
Tilnefninganefndir Íslensku bókmenntaverðlaunanna luku störfum sínum á mánudag og niðurstaðan var tilkynnt af formönnum nefndanna í Kiljukastljósi í gærkvöldi. Kiljan hélt svo áfram með umræður um verðlaunin og bryddað var upp á þeirri nýbreytni að taka stutt viðtal við þá sem tilnefndir voru. Mér er að vísu málið tengt en fannst það koma vel út og skipta máli að heyra aðeins í þessu fólki og fá stutta kynningu á bókunum, það er ekki sjálfgefið að allir þekki innihald þeirra og umfjöllunarefni til hlýtar.
Það er orðinn leiðindasiður frá því að tekið var upp samstarf við Kastljósið og Ríkissjónvarpið um að tilkynna tilnefningarnar að kveðja til einskonar andefni við dómnefndirnar, einhvers konar "advocati diaboli" sem eru þess fullvissir um að niðurstöður þeirra séu aldeilis óásættanlegar. Í Kiljunni í gær náðu þessi skyldubundnu andmæli nýjum hæðum þegar fastagestir þáttarins, Kolbrún Bergþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson nánast rifu tilnefningarnar í sig. Það stóð fátt eftir annað en óánægjan með val dómnefnda. Eitt var þar sagt sem var á misskilningi byggt en það voru ummæli Páls um stórvirkið eða ritröðina Kirkjur Íslands sem gefið er út af Þjóðminjasafni Íslands í samstarfi við Húsafriðunarnefnd og Hið íslenska bókmenntafélag og er heildaryfirlitsverk um friðaðar kirkjur á Íslandi. Hann skildi ekki af hverju þetta verk skyldi ekki vera tilnefnt og talaði um að æ ofan í æ væri gengið fram hjá því. Það er hins vegar erfitt fyrir dómnefndir að taka til greina önnur rit en þau sem lögð eru fram til tilnefningar af útgefendum, eins og kveðið er á um í reglugerð verðlaunanna.
Þessi andmælaskylda var fremur pínleg hér áður þegar tilnefndir höfundar voru í sjónvarpssal með gagnrýnendum og hlustuðu á þá lýsa yfir óánægju sinni með tilnefningar. Nú var þeim í það minnsta hlíft við því á gleðistundu að þurfa að fá strax framan í sig að þeir væru þessarar upphefðar fullkomlega óverðugir. Þeir fengu bara að horfa á það heima í stofu í staðinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.