Menningarblað Fréttablaðsins

Á sunnudaginn hóf Fréttablaðið að senda sérstakt menningarblað með helgarútgáfunni. Sunnudagsblaðið hafði stundum verið fremur þunnur þrettándi svo þetta lyfti blaðinu algerlega upp á nýjan stall. Þetta var skemmtilegt blað, og gaman að sjá til að mynda kafla úr nýrri jólabók þarna, úr Himinn og helvíti eftir Jón Kalmann Stefánsson sem hefur alla burði til að verða ein af stóru bókunum þessi jólin. Ítarlegir dómar og gott yfirlit yfir það sem er að gerast. Ég klóraði mér aðeins í hausnum yfir malbikun blaðamanns Fréttablaðsins á Aldingarði Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Þetta er ákveðin aðferð við að meta texta sem þarna kemur fram, en sum dæmin voru einfaldlega ósannfærandi og því varð pistillinn eiginlega bara nöldur. Ég sé svo að Páll Valsson, fyrrum kollega, skýtur föstum skotum í Fréttablaðinu í dag ÓJÓ til varnar.

En raunar er dómur á svipuðum nótum, og þó betur unninn, í nýjasta hefti TMM. Þar fer Sigrún Davíðsdóttir fremur ómjúkum höndum um bókina. Þar finnst manni hins vegar eilítið skrítið að sjá höfund "í samkeppni" við ÓJÓ vera svo harðorðan um bók sem naut velgengni.

Báðar þessar umfjallanir nota sama punktinn til að hamra á: Þetta eru þeir svo að verðlauna! Bókin fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin! Félag íslenskra bókaútgefenda hefur nú í 17 ár staðið fyrir þessum verðlaunum og mun gera það nú í 18. sinn. Þessar greinar segja manni að mark er tekið á verðlaununum og að þeir sem hugsa um bækur og bókmenntir hafa ákveðnar væntingar til þeirra. Það er gott til þess að vita að staða þeirra er svona sterk. Að það sé ekki óumdeilt hverjir eiga að hjóta þau og að menn ætlist til mikils af dómnefndunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband