Skáldsaga um Halldór Laxness

Sat úti á svölum í Atlantshafsblámanum í dag og las ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson, skautaði eiginlega yfir hana með hraðlestrarprógrammi þegar hún kom út. Miklu skemmtilegra að lesa hana núna. Á milli þess sem ég horfði suður á Keili og Hálsana tvo, sólina "gylla voga" og þökin á Bessastöðum og svaraði ágengum spurningum sonarins um hvað þetta og hitt héti, eða hvað það væri eða þá (eitthvað sem byrjaði fyrir nokkrum dögum) hver ætti það, þutu þriðji og fjórði áratugurinn framhjá.

Eitt stakk mig nú sem ég hafði ekki mikið höggvið eftir fyrr. Einn vetur, frá hausti 1931 til vors 1932, er Halldór í launaðri vinnu í eina skiptið á sínum fullorðinsárum. Hann var "móttökustjóri", eins og það heitir nú, hjá Ríkisútvarpinu. Mér fannst skyndilega þarna komin frábær hugmynd að stuttri skáldsögu. HKL er dyravörður og eins og nafni hans Guðmundsson lýsir er hann alltaf frábærlega kurteis og stímamjúkur en er þess á milli kjaftfor í blöðum. Meira að segja Guðmundur frá Sandi þakkar honum fyrir að vera sér svo vænn í útvarpinu þrátt fyrir að þeir væru einsog hundur og köttur á prenti. Sagan gæti heitið upp á kafkaísku "Frammi fyrir útvarpinu" eða "Dyravörðurinn". Þetta gæti verið "pastiche"-saga. Samin með sömu aðferð og HKL ritaði Gerplu. Að sagan hefði hugsanlega getað verið skrifuð af manni sem hefði verið uppi á fjórða áratugnum. En hver skrifar þessa bók?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband