7.8.2007 | 23:10
Bláu varðliðarnir
Í síðustu Lesbók Mbl. skrifaði ég pistil um Bláu varðliðana:
Á Íslandi eru um þessar mundir starfandi tvær sveitir byltingarmanna. Annars vegar starfar hópur stjórnleysingja og andstæðinga alþjóðafyrirtækja að því að knésetja stjóriðju á Íslandi. Hins vegar starfar Samband ungra sjálfstæðismanna að því að við fáum enn meira af því sama: enn meiri launaleynd, enn meiri lækkun skattprósentu og enn minni upplýsingar úr álagningarskrám skattstjóra.
Báðir hóparnir nýta sér fjölmiðla markvisst í baráttunni. Uppákomur á borð við Kringlumessuna" og skattklukkuna" hafa mikið áróðursgildi en leiða líka óhjákvæmilega til ágengra skoðanaskipta við þá sem eru ósammála byltingarmönnum. Eins og jafnan með framvarðarsveitir málstaðsins er að baki þeim fylking samúðarfólks sem þó hrýs hugur við öfgum aðgerðarsinna. Það kann að virðast mótsagnakennt, en er þó röklegt, að málflutningur byltingarhópanna miðast alla jafna við þetta samúðarfólk fremur en óvinina: Barátta ykkar skilaði okkur umbótum, hún skilaði okkur mikilvægum vegvísum á leiðinni til sigurs, en hún var ekki sigurinn sjálfur ... osfrv." Framvarðasveitin ætlar sér að starfa í fremsta vegavinnuflokkinum á hraðbraut sögunnar. Hún hefði hins vegar ekki fengið verkið hefði brautin ekki þegar verið lögð af fyrirennurum. Því þarf hún nú að sýna fram á að enn séu lönd að vinna. Báðar fyrrgreindar byltingarsveitir hafa þannig að markmiði að auka frelsi öllum til handa, en telja um leið að almenningur hafi ekki enn skilið inntak frelsisins. Fámennur hópur verður því að leggja allt í sölurnar fyrir málstaðinn.
Stjórnleysingjarnir töluðu raunar lengi vel ekki sannfærandi íslenskri röddu. Forvígismaður þeirra kom fram í fréttum og í Kastljósi þar sem hann hikstaði á frösunum, sletti ótæpilega og minnti á mann sem festist í unglingastælum og komst ekki þaðan út, eitthvað sem hendir oft gamla töffara. En nú bregður svo við að fleiri hafa fengið málið í þessum hópi og þeir eru einbeittari í sinni tjáningu. Nú hljóma í fjölmiðlum ógnvænlegir og um leið alþjóðlega viðurkenndir frasar með tilgerðarlausum íslenskum framburði. Maður þenur hljóðhimnur þegar rætt er um pólitískar handtökur" sem beinast jafnt gegn þeim sem taka þátt í aðgerðunum" og þeim sem styðja þær á vettvangi þrátt fyrir að vera ekki beinir gerendur sjálfur". Og svo stóra bomban: Til að stöðva stóriðjustefnuna verður að beita jafnt löglegum sem ólöglegum aðgerðum." Hér talar stefnufestan sjálf. Grónir náttúruverndarsinnar og þeir sem óttast að við lendum öll á launaskrá Rio Tinto áður en við getum talið upp að tveimur standa hjá og drepa tittlinga. Þetta fólk getur ekki hugsað sér að klifra upp í krana eða hlaupa öskrandi um götur Reykjavíkur til að bjarga Þjórsárverum en er fyrir vikið orðið að endurskoðunarsinnum" eins og það hét hjá kommunum. Í augum byltingarmannsins eru málamiðlanir dauðinn.
Á hinum vængnum heldur byltingarsambandið Samband ungra sjálfstæðismanna áfram ódeigri baráttu sinni fyrir framgangi borgaralegra stefnumiða. Stundum hvarflar að manni að sambandið þjáist af ímyndunarveiki eða kunni ekki á klukku því málflutningurinn tekur jafnan mið af þjóðfélagsástandinu árið 1979. Tryllt ríkisafskiptafólk virðist vaða uppi, algerlega blindað í villu sinni. En eftir því sem hin breiða samúðarfylking miðstéttarinnar umfaðmar fleiri markmið aðgerðahópsins og eftir því sem þeirra menn" eru lengur við völd digna baráttumálin, orðið fáfengilegur kemur æ oftar upp í hugann þegar aðgerðir SUS ber á góma. Hinir bláu varðliðar fá að vísu hvert ár nýtt tækifæri til að sýna í verki andstöðu sína við birtingu álagningarskráa hjá skattstjóranum í Reykjavík; stundum með líkamlegri (og þá ólöglegri) andspyrnu, stundum með gagnskráningu" eins og þeir beita í ár. Ódýr minnisbók hefur verið lögð fram á skattstofunni og á henni stendur Gestabók fyrir snuðrara" um leið og byltingarverðirnir voma á göngum eins og soltnir úlfar og mæna djöfullegu augnaráði á hverja aðvífandi hræðu. Ætlar þessi virkilega að láta undir höfuð leggjast að skrá sig í snuðrarabókina?
Mótsögnin er hins vegar að sjálfsagt hafa engir jafn mikinn áhuga á birtingu þessara upplýsinga og einmitt samflokksmenn SUS-ara af eldri kynslóð sem stytta sér stundirnar með því að rannsaka skrána og líta á það sem sjálfsagða afþreyingu. Sú hugsun að ég rjúki nú af stað, skoði álagningu nágranna minna í Skerjafirðinum og klagi svo í Hr. Skatt er mér og öllum þeim sem ég hef haft kynni af um dagana svo undurfurðuleg að hún stappar nærri sturlun. Þess vegna hefur bakland SUS þrátt fyrir valdasetu á annan áratug líka ekki haft minnsta áhuga á að koma til móts við þetta mikla baráttumál frelsisliðanna. Það myndi nú aldeilis heyrast kurr í félagskaffinu í Valhöll. Slagur Mannlífs og Frjálsrar verslunar á tekjublaðamarkaðinum sýnir líka að þessar upplýsingar eru verðmæt vara. Vilja bláu varðliðarnir skerða frelsi útgáfufyrirtækjanna Heims og Birtíngs til að auka tekjur sínar?
Og þannig heldur baráttan áfram. Varðliðar stjórnleysisins berjast áfram vonlítilli baráttu við Vélina miklu. Bláu varðliðarnir halda áfram að færa okkur frjálsar útvarpsstöðvar, sölu fleiri ríkisfyrirtækja og lægri skatta. Fylgist ekki lögreglan áreiðanlega með þessu fólki?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.