2.8.2007 | 11:52
Í Draugadölum
Hver einasti blettur á Snæfellsnesi virðist hafa orðið fyrir barðinu á yfirskilvitlegum öflum. Svo yfirskilvitleg eru þau að á þessu þurrasta sumri allra sumra sáldruðu þau yfir okkur Magnús Viðar slíkum endemis feiknum af regni og stormi að við hröktumst neðan úr fjallgarðinum og enduðum í borgara á Vegamótum, ekki þurr þráður á okkur. Hugsunin var að ganga endilangt nesið, frá Oddastaðavatni í Hnappadal að Beruvík undir Jökli, en eftir tvo óveðursdaga ákváðum við að láta nótt sem nemur.
Kominn heim í hlýjuna fór ég að fletta upp í bókasafninu og lesa mér til, opnaði meira að segja Eyrbyggju. Um leið gengur að manni samfelld draugahjörð þar sem nykrar, skrímsli og ókunn öfl raða sér í fylkinguna svona til bragðbætis. Fúsi sem tók sér far með bílum um Kerlingaskarð var án efa ekki fjarri okkur þegar við skröngluðumst niður á gamla veginn ofan úr lágskýjunum. En því miður virðast skrímslin á Vatnaheiði hafa nú breyst í stíflugerðarmenn eða þá að þeir í Miklaholtshreppi vilja í eitt skipti fyrir öll girða fyrir nykra og skrímsli með nógu háum stíflugarði.
En sá sem hefur heyrt vindinn hvína í fjöllunum á Snæfellsnesi veit að það er ekki einleikið hvað býr í þeim. Þungar drunur sem bylja hátt upp í skýjunum þar sem dularfullar klettamyndir brjótast annað slagið gegnum þykknið. Við sváfum fyrstu nóttina í Draugadölum upp af Álftafirði. Það fór vel um okkur en ég hef draugana grunaða um að hafa fengið lánaðan vasahnífinn minn. Um nóttina skullu byljir á tjaldinu svo það lagðist nánast saman og ofan í andlitið á manni en réttist aftur um leið og kyrrði. Lognið virtist hættulegt, grunsamlegt og gott ef eitthvað bærðist ekki úti í þokunni.
Svo risum við úr rekkju og héldum af stað. Enn slotaði ekki regninu og nú bættist við þokan. Skyggni um 30 metrar. Það er hægt að ganga eftir gps tæki en það er ekki beinlínis skemmtilegt og þegar maður gengur þannig tímunum saman er líkt og maður sé staddur utan þessa heims og viti í raun ekkert um það lengur hvort raunveruleikinn sé til. Allt er grátt, vindurinn hvín og regnið bylur og dularfullir sandar sem við vissum ekki að væru í vesturhlíðum Ljósufjalla virtust óendanlegir en um leið nánast eilífir, einskonar frumspekilegur staður þar sem enginn gróður eða kennileiti eru. Bara svört jörð, grár himinn, vindur og regn. Frumheimur.
Þórður á Dagverðará segist í Jöklarabókum sínum hafa skotið brimil sem vóg hálft tonn. Fullorðinn maður gat ekki tyllt niður tám ef hann sat á honum. Ég trúi þessu alveg eftir villudaga á Snæfellsnesi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.