Þorskar

Ég skrifaði pistil í Lesbók Morgunblaðsins í dag um þorskkvótann og úthlutun hans þar sem ég reyni að skilja af hverju þorskurinn hverfur í hvert skipti sem kratar komast í ríkisstjórn. Hér má lesa pistilinn í sinni rafrænu mynd:

 

Þorskurinn hefur greinilega ofnæmi fyrir samsteypustjórnum krata og sjalla. Vart var Viðeyjarstjórnin sest í sína stóla 1991 en þorskurinn flúði undan rannsóknarskipum Hafrannsóknarstofnunar, faldi sig í gjótum og álum og beið á meðan óvinurinn slæddi djúpin svo enn ein „svört skýrslan“ leit dagsins ljós með tillögum um „stórfellda skerðingu aflaheimilda“. Á þeim tíma átti að skrúfa þorskkvótann niður í 190.000 tonn fyrir árið 92/93 og svo enn neðar árið eftir, alveg niður í 175.000 tonn, erlendir sérfræðingar vildu sjá 150.000 tonn. Þessar tillögur voru uppistaðan í pólitískum gúrkuslag sumarsins 1992. Núverandi ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson, barðist eins og ljón við að fá því framgengt að allir hagsmunaaðilar fiskveiðiflotans yrðu hunsaðir og loksins látið á það reyna að hlusta á Hafró og ekkert múður. Davíð Oddsson, nú seðlabankastjóri, Friðrik Sophusson, nú forstjóri Landsvirkjunar, og Jón Baldin Hannibalsson, nú fríþenkjari, voru hins vegar á andstæðri skoðun og rifust við Þorstein bæði opinberlega og innan stjórnar. Davíð og Friðrik sögðu að það yrðu engar „sértækar aðgerðir“ til að hjálpa þeim sem ættu um sárt að binda vegna kvótaskerðingar, ríkissjóður ætti ekki borð fyrir báru, Jón Baldvin sagði, líkt og talsmenn Fjálslynda flokksins nú, að engin vísindaleg rök styddu að vöxtur í framtíðinni yrði vegna skerðingar í nútíðinni, sambandið þarna á milli væri ósannað.

Hinn fælni þorskur hafði um þessar mundir ýmis ráð við að hræða útvegsbændur við Norður-Atlantshaf. Hann gufaði til dæmis algerlega upp á Miklabanka svo Kanadamenn lokuðu sjoppunni og hafa ekki opnað hana síðan nema rétt á stórhátíðum. Því var haldið fram um þetta leyti að þorskveiðistofn Færeyinga væri hruninn, meira að segja skitin 100.000 tonn þóttu of mikið þar. Hvergi var þorsk að sjá nema náttúrlega í hinni merkilegu Smugu. Guðbergur Bergsson ritaði á þessum tíma að þar ætti sér stað „útrás“ (og hann notaði þetta hugtak í fullnægingarlegum skilningi en ekki efnahags-hernaðarlegum) íslenska sjómannsins. Ráðagóðir skipverjar skiptu á viskíflöskum og sjókortum við rússneska sjómenn sem um þetta leyti fjölmenntu hér á hafnir á ryðkláfum sínum og keyptu gamlar Lödur í gríð og erg. Síðan héldu menn af stað norður í myrkvað Ballarhaf kvótalausir með öllu og lágu úti eins og víkingar mánuðum saman í djögulganginum og ránortu sem mest þeir máttu í fullkomnu ósætti við alþjóðasamfélagið. Íslendingar fóru í alvöru samkeppni um yfirráðin yfir Norður-Íshafi við Norðmenn og Rússa, samkeppni sem þeir standa í enn í dag og virðist opinber utanríkisstefna okkar ef marka má yfirlýsingar ISG í kjölfar Noregsheimsóknar nýverið. Við þurftum hráefni fyrir sjávarútveginn og tókum þann kostinn líkt og aðrar þjóðir sem þarfnast auðlinda að taka slaginn við aðrar auðlindaþjóðir.

Á meðan þorskurinn faldi sig á Miklabanka og duldist Færeyingum náði Hafró því í gegn að minnka þorskveiðikvótann enn fiskveiðiárið 93/94. Í skjálftanum nú yfir lækkun kvótans niður í 130.000 tonn gleymist að í þrjú ár samfleytt um miðjan tíunda áratuginn voru aflaheimildir þorsks ekki nema 155.000 tonn. Þetta var jafnframt erfiður tími. Lausafé var mjög af skornum skammti í samfélaginu sem leiddi til þess að margur athafnasamur maðurinn missti allt sitt og atvinnuskorturinn var tilfinnanlegur, ég man eftir að hafa í ársbyrjun 1993 sótt um eitt aumt lagerstarf hjá ávaxtaheildsölu ásamt 400 öðrum. Í fjölmiðlum var atvinnuleysið framreiknað: Ef 4000 manns fóru árlega út á vinnumarkaðinn og ef 4000 manns til viðbótar vantaði starf, þá vantaði 24.000 störf eftir þrjú ár og engin ný störf voru í augnsýn. Þetta leit ekki vel út.

Vestfirðingar heimtuðu að sleppa við kvótaskerðingu því þeir væru sérstakir um leið og þeir kröfðust þess á fá frjálsar hendur við fjöldaslátrun á hvölum, þeim ógurlegu ófreskjum sem sífellt sitja á því lúabragði að borða lífverur hafsins. Þeir mótmæltu því líka að það vantaði fisk á miðin, það væri allt vaðandi í þorski – „maður skilur bara ekki hvað þessir háu herrar suður í henni Reykjavík eru að hugsa“. Helst ætti að veiða 280.000 tonn, ef ekki 300.000. Svo var talað um „sértækar aðgerðir“. „Hrun blasir við á Vestfjörðum“ – hljóðar ein fyrirsögn þessa tíma. „Stóráfall fyrir byggðarlögin við sjávarsíðuna“ – hljóðar önnur. Það mætti birta allar fréttir sumarsins 1992 óbreyttar nú nema hvað skipta þyrfti út nöfnum ritstjóra Fréttablaðsins, seðlabankastjóra, forstjóra Landsvirkjunar og fríþenkjarans fyrir nýtt og ferskt fólk.

En lærðum við eitthvað á þessu? Jú, við lærðum að sjávarútvegurinn er ótraustur, óáreiðanlegur og hverfull atvinnuvegur. Verið getur að hann gufi upp einn daginn og beri aldrei aftur sitt barr. Það varð viðhorfsbreyting í íslensku þjóðfélagi. Við áttuðum okkur á að ef þetta samfélag á að verða eitthvað á næstum öldum verðum við að kveðja sjávarútveginn og horfa annað. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband