Keppt í hugleiðslu á landsmóti UMFÍ

Renndi við á landsmóti UMFÍ í morgun, rétt til að sjá hvernig þetta liti út, en það var dauft yfir mannskapnum og hrollur í fólki. Enginn vissi heldur klukkan hvað atriðin byrjuðu eða yfirleitt hvað væri næst á dagskrá. Í fréttaskeyti á forsíðu landsmótshluta heimasíðu UMFÍ er sagt að glíman hafi verið flutt upp í Lindarskóla en síðan verður maður að spóla fram og aftur í dagskránni til að finna klukkan hvað glíman byrjar og endar. Ég er ekki alveg viss um að þetta mót sé fyrir almenning.

Raunar skemmti ég mér ágætlega á síðasta landsmóti á Króknum. Til dæmis fór ég á skotfimikeppni í reiðhöllinni Svaðastöðum. Það var eins og að fara á myndlistarsýningu. Mér fannst ég vera á Documenta í Kassel. Risastór höllin var galtóm utan hvað tveir einbeittir eldri menn og þrjár feitlagnar unglingsstúlkur stóðu með heyrnarskjól og litlar byssur og skutu ótrúlega vegalengd á litla og ómerkilega hringi dregna á þunn pappírsblöð sem maður rétt grillti í. Ein stúlka sat svo með fartölvu á borði og starði á hana með svipuðu augnaráði og múmía af 18 konungsættinni. Steinhljóð var í salnum nema litlir smellir heyrðust í sífellu og svo einhverskonar suð þegar blöðin sem skotið var á gengu fram og aftur á þráðum sem strengdir voru milli veggja. Ég settist niður og reyndi að skilja það sem fram fór. Það var ómögulegt. Enginn sagði mér hvað gekk á og engar upplýsingar var að hafa auk þess sem ég var eini áhorfandinn. Þetta var í raun alls ekki íþróttakeppni fyrir almenning heldur verkefni til að túlka, aðstæður sem maður gekk inn í og lét orka á sig.

Eftir því sem maður sat lengur urðu smellirnir þekkilegri og fjarlæg einbeiting skotmannanna færði yfir mig höfgi, þeir létu líka eins og ekkert skipti máli nema þeir einir. Ég fann að hugurinn róaðist, mér gekk betur að einbeita honum að því að vera bara til en hugsa ekki um það sem á eftir kom eða allt það ókláraða sem alla jafna bíður manns. Það var fagmennska í uppsetningu skotpallana sem ég hafði ekki tekið eftir strax. Fallegt til dæmis hvernig ómeðhöndlaður krossviður var notaður og svo var yfirborð malarinnar á hallarbotninum með sterka efnislega tilvísun auk þess sem sagi hafði verið stráð hér og þar til að undirstrka hana. Ég sá að þetta fólk var greinilega að vinna með tilvísun til hugleiðsluhefðar zen-búddismans, með áherslu á abstrakt form sem endurgerðu ímyndað landslag í mölinni. Einbeiting skotmannanna minnti á hefðir japanskra bogmanna sem einnig spretta úr zenhefðinni. Marksæknin, ein helsta þráhyggja samtímans, og inntak móts á borð við landsmóts UMFÍ, var því endurgerð sem gjörningur fimm einstaklinga, tveggja karla og þriggja stúlkna og varð um leið hlaðin innri spennu. Segja mátti að hér væri hin óþekkta miðja sjálfs landsmótsins sem þó stóð á jaðri þess. Hér var sjálf orkumiðstöð íþróttanna, en þó handan keppninnar, þar sem íþróttamaðurinn og hugur hans stendur einn andspænis efninu sem hann verður að sigrast á til að hljóta verðlaun. Þetta hafði djúp áhrif á mig. Skotkeppnin sagði mér að það væri jákvætt ef hópur listamanna myndi vinna með UMFÍ á næsta móti við að rannsaka andlega innviði íþróttanna. Það myndi vera jafnmikið ef ekki meira við alþýðuskap og aðrar keppnisgreinar á þessum landsmótum sem maður verður hvort eð er að giska á í hverju felast, hvar þær fara fram og klukkan hvað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband