5.7.2007 | 10:20
Jólabækurnar 2007
Þótt sumarvertíðin í bókaútgáfu sé nú í raun fyrst að fara almennilega í gang og enn séu væntanlegir nýir titlar á markað eru flestir á bókaforlögunum með hugann við haustið og jólin. Á næstu vikum verður hulunni svipt af heitustu titlunum. Óvæntir höfundar verða blásnir upp og almenningi gerð grein fyrir hvað hann á í vændum á haustdögum. Enn eina ferðina mun jólabókaflóðið fara af stað og ef straumar síðustu ára renna enn sinn veg munu um 700 titlar keppa á markaði þar sem eitthvað um 700 milljónir eru í pottinum.
Frá sjónarhóli menningarinnar, þjóðmenningarinnar, er þessi gríðarlega útgáfa, sem að langstærstu leyti er kostuð af einkaaðilum, tákn um trú okkar á bókmiðlinum sem slíkum og raunar líka trú okkar á möguleika tungumálsins því samfara þessari útgáfu má sjá að ýmsir nýir efnisflokkar sem áður hafði ekki verið fjallað um á íslensku eru brotnir undir málplóginn. Frá sjónarhóli þeirra sem um menninguna fjalla í fjölmiðlum, sem eru í raun ekki nema um tugur manns eða svo, er þetta annað hvort hálfgerð vitleysa (hvað er maður búinn að heyra oft kveinstafina um að dreifa nú útgáfunni, líkt og fyrirtækin starfi eftir kröfum nokkurra menningarblaðamanna en ekki viðskiptavina sinna) eða tækifæri til að spyrja: "Hver verður aðalbókin í ár?" "Hvað verður hittið núna?" (Ég hef ekki tölu á hve oft ég hef heyrt þessa spurningu.) Frá sjónarhóli eiginlegra bókaútgefenda er ýmislegt við þessa miklu útgáfu að athuga. Aukningin í útgáfunni er mest hjá litlum aðilum, fólki sem ætlar sér ekki prímert að græða á útgáfu en vildi gjarnan sjá rit sitt útgefið. Vegna þess hve línan hér á landi er þunn milli vel útgefinnar alvöru bókar og þess sem á útlendum málum er nefnt "vanity publishing" skirrast menn alla jafna við að fordæma þessa þróun. Hún lýsir miklum krafti, hún sýnir hve lýðræðislegur þessi bransi er í raun, en um leið gerir hún þeim sem ætla sér að hafa atvinnu af útgáfu erfitt fyrir. Þetta er í raun ekki ósvipað og ef 200 aðilar hérlendis myndu hver um sig bjóða fram sína fatalínu og ætlast til að Hagkaup, Svövuveldið og Rúmfatalagerinn seldu þær allar.
Þessi lýðræðislega opnun (allir geta gefið út það sem þeim sýnist, það er ekkert mál og kostar ekki mikið) er nokkuð sem t.d. stjórnmálamenn í Evrópusambandinu og ýmsir þrýstihópar um afnám höfundarréttar og opnun á rafrænum skjölum til almennings setja á oddinn. Samtök evrópskra útgefenda, FEP, hafa hins vegar miklar efasemdir um að þessi leið sé vænleg til að tryggja fjölbreytni og gæði bókaútgáfu álfunnar. Þau hafa einmitt haldið "vanity publishing" hugtakinu á lofti, enda hefur það holan og hlægilegan hljóm úti í stóru löndunum. Í bestu skáldsögu Umberto Ecos, Pendúll Foucaults, lýsir hann einmitt á mjög kómískan hátt starfsemi "vanity publishing" forlags í Mílanó sem gengur út á að búa til bækur á kostnað höfundanna sem allt eru vellauðug skúffuskáld sem eiga sér þann draum heitastan að sjá eftir sig útgefið verk. Forseti FEP, Svíinn Jonas Modig, hefur til að mynda ritað að útópía Evrópusambandsins um að allir gefi út það sem þeim sýnist á netinu, hafi ekkert annað en dauða alvöru upplýsingamiðlunar í för með sér. Gæðaaðhald forlaga, strangt val á útgáfubókum, mikil og virk ritstjórn, virðing og hár standard á frágangi tryggi að yfirleitt sé hægt að verðleggja upplýsingarnar. Með því sé höfundum tryggð réttlát afkoma af starfi sínu. Um leið og höfundarréttarhugtakinu sé varpað fyrir róða sé efnahagslegum grundvelli hundruð þúsunda Evrópubúa svipt burtu. Annars verður allt höfundarstarf unnið sem sjálfboðavinna, kostað af fyrirtækjum eða borið uppi af opinberum stofnunum. Í markaðshagkerfi þýðir það í raun hrun samfélagslegar innistæðu þessarar starfsemi, hún er orðin að marklausu föndri.
Útgefendur hérlendis hafa sjaldan gagnrýnt þróun undanfarinna ára þar sem sífellt fleiri bækur eru gefnar út af "ekki"-útgefendum. Um leið hefur heldur engin umræða farið fram um það hvernig útgáfulandslag við viljum sjá. Við erum að sönnu með markað sem heldur uppi nokkrum fyrirtækjum, en þau standa öll í miklu stappi við að halda sér á floti og þurfa nú ekki aðeins að keppa sín í milli, heldur í æ meira mæli við yfirfullar bókabúðir af bókum sem margar hverjar eru einfaldlega "vanity publishing". Er það gott eða vont?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.