Auðnin

Að undanförnu hef ég verið að lesa mig í gegnum sögu umhverfisstefnunnar. Það stakk mig allt í einu að þrátt fyrir mikla umræðu um umhverfismál undanfarin misseri að þá veit maður nánast ekkert um sögu þeirra hugmynda sem maður sjálfur og aðrir halda á lofti. Mér hefur komið á óvart að þessi saga er merkilegri og margbrotnari en ég hélt og að hugmyndirnar hafa tekið ótal beygjur og króka. Og að því sögðu saknar maður náttúrlega dýpri umfjöllunar um hérlendar hugmyndir en ef til vill er einhver sagfræðispíran nú að vinna að henni. 

Það sem sérstaklega hefur vakið athygli mína er að sjá hve fáar heimildir eru til um róttæka náttúruhyggju fyrir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Flestir sem vildu vernda náttúruna eða mærðu óbyggðirnar fram að því voru þeirrar skoðunar að þær væru einskonar endurhleðslustöð fyrir úrkynjaða nútímamenn sem ekki fengju raunveruleg viðfangsefni lengur að glíma við (Guðmundur Einarsson frá Miðdal er án efa svipmesti talsmaður þessa viðhorfs hér á landi, heillandi lýsingar hans í höfuðriti hans Fjallamenn og í Árbók FÍ þar sem sagt er frá suðurjökulum valda því að maður skammast sín fyrir að húka í bænum þegar sólin skín og fjöllin ljóma) eða að náttúran væri á einhvern hátt andlegs eðlis, yfirskilvitlegur veruleiki og heilagur, og því væri nútíminn og veraldarhyggja hans óvinur hennar.

Þessi viðhorf eru hins vegar mannhverf, hafa yfirleitt velferð mannsins og hamingju að leiðarljósi, og eru því náskyld þeim hófsömu viðhorfum sem við sjáum nú birtast í kolefnisjöfnun, landgræðslu, sambúð nýtingar og verndunar og þjóðgarðastofnun með "bættu aðgengi" að ýmsum náttúruperlum sem talið er ýmsum framkvæmdum á hálendinu til tekna. Það verður að segjast að slíkt er sannarlega "lýðræðislegt", kannski líka "skynsamlegt", en það er hressandi að taka upp bók sem ég þekkti ekki áður og mér skilst að hafi verið grundvallarrit á þeim miklu umbrotatímum um 1970. Þetta er bókin Desert Solitaire eftir Edward Abbey.

Hér er á ferð hrífandi rödd sem mærir auðninar sem veruleika í sjálfu sér. Náttúruna á ekki að vernda "til einhvers", heldur raunverulega "til einskis". Náttúra auðnanna, eyðimörkin, fjöllin, firnindin eru "annar veruleiki" og andmennskur. Við mennirnir verðum að kyngja því í auðnunum að þessi veruleiki er algerlega hlutlaus gagnvart okkur, hann fagnar okkur ekki, hann gerir ekkert við okkur, hann er bara. Reyndar dettur Abbey líka í hetjutal líku því sem sjá má hjá Guðmundi frá Miðdal, mennirnir þurfa þessa ómennsku veröld til að átta sig á sjálfum sér, á náttúruleika sínum. En það er hressandi að lesa ómengaðan viðbjóðinn sem Abbey hefur á skipulögðum þjóðgörðum með "góðu aðgengi", "ferðamannaiðnaðinn" sem er versta skammaryrði í hans munni. Hann ritar: "Við ökum ekki bílum inn í dómkirkjur, tónleikasali, listasöfn, dómssali, svefnherbergi eða önnur heilög vé okkar menningar, þannig eigum við líka að koma fram við þjóðgarðana okkar." Engir vegir, engin "aðstaða", ekkert "aðgengi".

Æi hvað það er upplífgandi að sjá svona alvöru málamiðlunarleysi í öllum málamiðlununum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband