Undrahundurinn

Þjóðfélagið virtist um tíma ætla að fara á annan endann út af einum hundi. Það þarf ekki annað en skoða bloggsamfélagið sitt og strax verður manni ljóst að hér er ekki léttvægt mál á ferðinni. Hundurinn Lúkas er nú orðinn nánast að aukaatriði í skrítnu máli þar sem nafnleysi stórbæjarins fer saman við einelti smábæjarins - en Akureyri er einmitt hið fullkomna millistig þessa tveggja - og hefur kosið sér fórnarlamb sem ber nú hönd fyrir höfuð sér, saklaus eða sekur, og fréttin um hann er þegar þetta er ritað vinsælasta netfrétt mbl.is.

Ég verð reyndar að segja að ég lét stóra hundamálið ekki raska mikið ró minni, það voru aðrir hlutir sem sáu um það, eins og að ég uppgötvaði að það þarf vegabréfsáritun til allra Afríkulanda nema þriggja til fjögurra (fer eftir því við hvern maður talar) og ég orðinn of seinn að sækja um mína svo öll plön næstu vikna þurfti að stokka upp. En svo las ég grein í Blaðinu í morgun sem gerði mig eilítið hugsi. Þar ritar Illugi Jökulsson - en við heilsumst stundum á götu og fyrir kemur að við tökum tal saman - eilítið skrítna grein um hundinn Lúkas, en þó mest eiginlega um sjálfan sig og sína tíð sem ritstjóri DV hér um árið.

Greinin er eins og hornskökk kommóða með stífum skúffum. Tosi maður út eina skagar hún yfir hina og það er eitthvað ofan í þeim öllum sem stoppar og stíflar. Fyrir það fyrsta er Illugi - rétt eins og allir sem ég hef heyrt í - undrandi á viðbrögðunum við hundslátinu, minningarathöfnum, logandi kertum, reiðinni gagnvart kvölurum skepnunnar, fárinu. Hann er er eins og annað hugsandi fólk strax farinn að velta fyrir sér hvernig eigi eiginlega að skilja þetta, hvernig beri að túlka þessi ofsafengnu viðbrögð við skepnuskap sem er því miður langt í frá óheyrður né framandi: sögur sem þessi um meðferð dýrum heyrði maður í bernsku og fram á fullorðinsár og vissi að að heimurinn er fullur af ofbeldi og maður getur ekkert gert nema gera sitt og maður vissi líka að það er hægt að hata skepnur og að maðurinn á auðvelt með að stúta þeim og að dauðinn og miskunnarleysið er alls staðar, þannig er bara heimurinn. Um leið og maður fer að vernda og þjást með öðru þá hættir maður að geta drepið flugu, veitt síli og slitið sundur ánamaðk, og eftir því sem maður skilur meira til hálfs, samhengi lífríkisins, hina þunnu skurn vistfræðilegs jafnvægis, verður allur lífheimurinn viðkvæmur og brothættur og við verðum öll eins og börn drykkfeldra foreldra, við viljum taka á okkur ábyrgðina á heiminum þótt við ráðum ekkert við hana, við viljum halda lífi í lífinu án þess að nokkur hafi beðið okkur um það: Kannski var Illugi eitthvað að hugsa á þessa leið og ákvað að skrifa um það grein.

En óðar gleymdist hundurinn. Hann minntist daganna með Mikael á DV þegar þeir og félagar þeirra uppgötvuðu "samfélagið á bak við fágaða hulu fjölmiðlanna" og ákváðu að segja sögur af "pakkinu". Illugi viðurkennir skyndilega í þessari grein eftir að hafa vaðið hrævareld spjallþáttanna á sinni tíð við að halda uppi vörnum fyrir áhuga sinn á málum eins og dauða og minningarfári Lúkasar að þetta sé líklegast hálfgerð vitleysa allt saman, þetta sé eitthvað til að ef til vill velta fyrir sér, en eigi eiginlega takmarkað erindi við okkur. Og enn og aftur kemur röksemdafærsla sem allir sem tóku þátt í meðvirkninni á DV á sínum tíma grípa til þegar þeir minnast góðu gömlu daganna þegar Mikki gekk um með skammbyssu og sagðist vera að breyta heiminum (ég vitna hér í bloggsíðu Símons Birgissonar). DV breytti í raun heiminum: Nú stundi allir fjölmiðlar sömu fréttamennskuna og hafiðið það! Hringnum er lokað. Illugi hóf upp merki sem hann svo lagði niður, er nú undrandi og hissa á því að sjá aðra grípa það, en um leið glaður í hjarta sínu yfir að fánaburðurinn skuli þó hafa haft þessi áhrif. Hefði hann ekki átt, svona kurteisinnar vegna, að bíða eftir því að aðrir skipuðu hans verkum á sinn bás? Hvaðan kemur þessi ríka réttlætingarþörf allra sem komu nálægt gamla DV? Jú, blaðið steytti á skeri. Samskonar hystería og lúkasarmálið, sem DV hefði elskað að segja frá, hitti fyrir blaðið sjálft, og um leið varð hysterían undarleg, eitthvað sem kannski var ekki þess vert að segja frá eftir allt saman.

Ég segi þetta ekki út í bláinn. Fyrir liggur nákvæm greining á þessum uppgötvunum sem Illugi og Mikael gerðu, um hið dularfulla land alþýðuspekinnar. Guðni Elísson ritaði tvær greinar í vor- og hausthefti Skírnis árið 2006, eða öllu heldur eina grein í tveimur hlutum undir nafninu "Dauðinn á forsíðunni: DV og gotnesk heimssýn". Það fór merkilega lítið fyrir þessari grein í fjölmiðlaumræðunni. Ekki hinn silfraði ljóðaunnandi Egill, ekki hið hvassbrýnda og siðdæmda Kastljós ekki hið létta og hressa Ísland í dag sáu ástæðu til að ræða þær hugmyndir sem þarna eru settar fram. Í stuttu og mjög einfölduðu máli segir Guðni einfaldlega: Þetta voru engar uppgötvanir. Einungis yfirþjóðleg frásagnarlögmál gotneskrar frásagnarlistar þar sem stöðluð persónueinkenni, móðursýkisleg dramatík, eðlisvont og eðlisgott fólk, ótrygg aðdáun á ríkum og frægum auk duglegs skammts af hringalógík þar sem fjölmiðillinn og frásögn "fórnarlamba" hans bíta í sporð hvers annars renna saman í ósundurrekjanlega bendu. Tveir starfandi rithöfundar, Illugi og Mikael, sem báðir höfðu áður í greinum og sögum notað mjög dramatísk og krassandi meðul til að koma skoðunum sínum á framfæri voru ritstjórar. Það getur ekki verið tilviljun hve einbeittir DV menn voru í að gotneskuvæða veruleikann, það bara hlýtur að hafa haft sitt að segja að listamenn sátu í ritstjórastólunum.

Þess vegna gerðu orð Illuga um "hinn heiminn" mig lika eilítið hryggan. Ein af helstu uppgötvunum mínum á unglingsárum var þegar þessi "hinn heimur", sem ég er alinn upp í líkt og allflestir, öðlaðist skyndilega sitt mál í skáldsögum Guðbergs Bergssonar. Enn stendur höfundarverk Guðbergs eins og bautasteinn þar sem þessi gallsúra alþýðuspeki sem nú frussast um allar gáttir bloggsins (sem líklegast er ástæðan fyrir því að við þurfum ekki lengur DV, "hinn heimurinn" hefur öðlast sinn eigin miðil) var ekki tekin upp á band og spiluð svo ómenguð til að pína mann enn eina ferðina með deleringum sínum, heldur var mulin saman við Freud, Marx, Nietzsche, Dostojevskí og Platón. Mál fólksins var ekki flutt inn í fjölmiðla sem hasar, heldur fékk að standa í undarlegheitum sínum og lýsa í leiðinni menningu og veruleika sem var raunverulegur en ekki eitt Leiðarljósið enn.

Nú höfum við greinilega misst trúna á skáldskapinn. Við sækjum ekki til skáldsagna skynjun okkar af "hinum heiminum", heldur viljum við matreiða hana í fjölmiðlum. Eftir því sem erindi bókmenntanna er minna eykst erindi fjölmiðlanna. Þá fara jafnvel skáldin að hafna skáldskapnum í skáldskapnum en skálda þess í stað upp frásagnir af veruleikanum í fjölmiðlum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband