20.3.2007 | 23:38
Sjáiði veisluna
Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra gladdi okkur Viðvíkursveitarmenn á laugardaginn þegar hann kvaddi Bjössa á Hofstöðum sér til stuðnings í kröppum dansi og ljáði fleygum orðum hans - "Sjáið þið ekki veisluna, drengir!" - nýjan svifkraft. Mér hefur alltaf verið sagt að Árni hafi sjálfur verið viðstaddur þegar Björn Runólfsson, hrossabóndi á Hofstöðum í Skagafirði, mælti þessi orð yfir borðum og að gikkirnir sem þeim var beint að hafi verið förunautar Árna.
Þegar gengi Bjössa var hvað hæst og hann átti enn fjör og kraft til að láta eldlegar gáfur leiftra voru Hofstaðir vinsæll samkomustaður mektarmanna úr Reykjavík. Þangað komu hrossamenn og grósserar úr höfuðstaðnum til að skemmta sér á góðum stundum og margir bundust honum tryggðarböndum og áttu þar samastað á ferðum sínum. Hæst bar þó skemmtanina þegar Björn hafði sín kunnu "paról". Þau voru ógleymanleg öllum þeim sem á hlýddu og náðu venjulega að lyftast mest þegar Bjössi settist við orgelið. En "parólin" gátu raunar einnig farið kyrrlátar fram. Þau gátu dúkkað upp utan annatíma grósseranna þegar Björn settist niður og viðhafði einskonar sókratískt samtal þar sem hann reyndi kenningar sínar um manneðið og lífið á jörðinni á áheyrendum sínum sem ýmist fussuðu eða glottu. Nágrannar voru kannski ekki jafn uppnæmir yfir stórmerkilegum hugmyndum og utansveitarfólk.
Hrossabúskapur hefur alltaf verið að því marki ólíkur öðrum bústörfum að hann felur í sér stöðuga sölumennsku. Kúabóndinn er með skilgreinda afurð á sínum snærum: mjólk. Hún er keypt af afurðastöð og svo er það komið undir skriffinnskunni og búmannshæfileikum hvernig tekst að tosa saman kvóta, erfðir, fóður og vinnu í eina afraksturstaug. Kúabóndinn þarf hins vegar aldrei að láta reyna á hæfileika sína í markaðsmálum. Það eru aðrir sem selja. En sá sem stundar hrossabúskap þarf að kunna skil á því að setja upp sjóv. Núna geta menn raunar látið tölfræði, blurp og hrossasundlaugar vinna verkin fyrir sig. En Bjössi var ekki upp á sitt besta á þeirri öld. Hann var í blóma á því skeiði þegar töfrar seldu hesta. Hann kunni að halda fallegum hryssum undir góða klára og vissi hvernig ættirnar röktu sig áfram sinn genetíska veg. En það sem gerði útslagið í sölutækninni var ekki hæfileikinn til að ryðja upp úr sér byggingardómum og ættbókarnúmerum, heldur "parólið" og orgelspilið í hinni hálfbyggðu höll á Hofstöðum þar sem hann velti stundum fyrir sér að setja upp bensínstöð "og græða ógurlega", eins og hann sagði með sinni vinalegu og djúpu rödd með langa seimnum og lyfti kannski vísifingri í leiðinni. Sá sem breytir lífi gestsins í stöðugt undur á létt með að lokka að sér fleiri og þegar gesturinn er á höttunum eftir fallegum klár eða góðri meri þá eru viðskiptin ekki viðskipti, heldur einfalt afgreiðslumál sem eiginlega er bara hluti af gríninu. Hrossabændurnir gömlu hefðu farið létt með að selja Zero kók án þess að nokkur hefði tekið eftir viðskiptunum.
Það mun hafa verið "paról" á boðstólum þegar núverandi fjármálaráðherra átti leið um Skagafjörð í góðra vina hópi. Þeir rekast á Björn sem sagði þeim að koma við á Hofstöðum "þar væri ógurleg veisla". Veisluföngin voru hins vegar ekki önnur en nokkuð ótæpilegt magn af brenndum vínum, í sumum sögugerðum var það víst bara landi, og kex og fannst sunnanmönnum þeir vera sviknir um dýrðlegan fagnað. Sveiflaði þá Hofstaðabóndinn hönd fislétt en ákveðið yfir flöskur og beinakex og sagði með þjósti: "Sjáið þið ekki veisluna, drengir!"
Frekari vitna þurfti víst ekki við.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.