Bókmenntasjóður

Um kvöldmatarleytið á laugardaginn samþykkti Alþingi ný bókmenntalög. Þar með er langþráðum áfanga í endurskipulagningu opinbers stuðnings við bókaútgáfuna náð. Með lögunum er þremur sjóðum steypt saman í einn: menningarsjóði, þýðingarsjóði og bókmenntakynningarsjóði. Í stað þess að ákvarðanir um útdeilingu á opinberum fjármunum séu í höndum ólíkra sjóðsstjórna, sem illmögulegt var á stundum að skilja á hvaða forsendum deildu út fénu, á að taka til starfa ein öflug stjórn bókmenntasjóðs. Hennar hlutverk verður að marka stefnu í stuðningi við bókmenningu og bókaútgáfu til þriggja ára í senn.

Að vísu er heimanmundurinn rýr. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir neinni stórbrotinni hækkun á fjármunum til sjóðsins umfram það sem rann í sjóðina þrjá áður. En fögur loforð fylgja nefndaráliti mennamálanefndar auk þess sem því eru gerðir skórnir í athugasemdum með frumvarpinu að vel megi sjá fyrir sér að það fé sem nú rennur til styrktar bókaútgáfu í ýmsum ráðuneytum geti átt þarna heima.

Þess ber líka að gæta að opnað er fyrir þátttöku einkaaðila í stuðningi við þennan málaflokk sem er mikilvægt.

Okkar bíða margvísleg verkefni sem von er til að bókmenntasjóður geti stutt við bakið á. Nóg að nefna hér eitt: útflutning íslenskra bókmennta og íslenskra rita almennt.

Bókmenntakynningarsjóður er algjörlega vanburða eins og hann er nú. Takmarkaðir fjármunir hans hrökkva rétt til reksturs á skrifstofu sem á sér svo ekki einu sinni heimasíðu. Hann einfaldlega virkar ekki sem bakland fyrir sölu á réttindum íslenskra bóka erlendis og hefur ekki tekist að sinna nógu vel hlutverki sínu sem kynningarmiðstöðvar fyrir íslenskar samtímabókmenntir og samtímabókmenningu. Á meðan erum við í blússandi samkeppni við gríðaröflugar bókmenntakynningamiðstöðvar nágrannalandanna sem hafa dælt styrkjum og stuðningi út um allar jarðir. Hér verða nýju bókmenntalögin vonandi til þess að hleypa nýju lífi og styrk í þennan mikilvæga málaflokk. Fyrst ímynd Íslands tengist menningu og bókmenntum jafn lítið og haldið er fram þá er kominn tími til að taka af sér vettlingana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband