Nú þegar allir eru femínistar

Steingrímur J. Sigfússon segist vera"róttækur femínisti". Hallgrímur Helgason skammar kynbræður sína fyrir að "kvenelta" eina kvenmanninn sem hugsanlega gæti orðið forsætisráðherra eftir næstu kosningar. Sambloggarar á borð við minn gamla góða samstarfsfélaga Hrannar B. Arnarsson skamma huldukarlana í athugasemdakerfunum sem óskráðir jafnt sem fullskráðir marínerast í eigin fantasíulegi og sjá fyrir sér heitar pornóstjörnur rjúka í klámiðnaðinn knúðar af óseðjandi kynlífslöngun. Og rifjast þá upp að jafnvel Ingvi Hrafn sem alltaf er alveg við það að opna fyrstu sjónvarpsstöðina í heimi þar sem hrafnar sjá um dagskrágerð, telur sig álíka róttækan femínista og Steingrímur J. Svo trommar hver sómamaðurinn fram eftir annan og fordæmir klámsálirnar sem ætla að eiga náðuga stund í Bændahöllinni og nú nenni ég ekki einu sinni að setja hina skyldubundnu fyrirvara hingað inn um að ég sé að sjálfsögðu á móti þessu líka. Það er bara einfaldlega það sem menn verða að gera núna því allir vilja vera "róttækir femínistar". Nú þegar borgarstjórinn og ritstjórn Morgunblaðsins komplett eru orðin óskabörn femínismans.

Það sem er athyglisvert í þessu öllu er að enginn er þess lengur umkominn að taka ekki afstöðu til femínisma. Þarna gæti orðið ein meginlína pólitískra átaka næstu kosninga, en auðvitað hlaut að koma að því. Eftir dauða stéttastjórnmálanna er kynjapólitík eitt helsta svið pólitískrar umræðu vorra daga, gömlum kommum og bláum höndum til ómældrar mæðu. Því skammar til dæmis höfundur bókar um baráttu mæðgna við karlveldið (Barist fyrir frelsinu), Björn Ingi Hrafnsson, Steingrím J. fyrir að vera karlremba og byggir það á bókinni Stelpan frá Stokkseyri þar sem Margrét Frímannsdóttir segir nokkuð dæmigerða eineltissögu af barátunni við ósýnilegar fordómamyllur sem mala henni í mót. En það er greinilegt að þetta er þungt högg, pólitískt séð, enginn vill vera karlremba, allir vilja vera femínistar. Það sem tekur við er skilgreiningin á því hve mikill femínisti maður er og hvernig.

Það er hins vegar grunsamlega lítið til af litteratúr á íslensku um femínisma, um jafnréttissjónarmið og ýmsar meginröksemdir sem liggja að baki mörgu af því sem heyrist í umræðunni. Þegar Sóley Tómasdóttir (einn ritstjóra bókarinnar Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð, sem ætlað er að varpa ljósi á reynslu kvenna af barnsfæðingum og viðhorfum umhverfisins til þeirra) þarf til að mynda að svara nafnlausum draugaher klámfantasíumanna með því að segjast víst hafa áhuga á kynlífi (!) þá vantar líkegast gagnáætlun femínista um hvernig ríki fantasíunnar í kynferðismálum án valdbeitingar og kynjamismununar líti út. Vísi af því má sjá á bloggsíðu Elísabetar Ronaldsdóttur. En fyrst að allir eru orðnir femínistar (nema náttúrlega klámvæddi draugaherinn með pornófantasíurnar sínar um æstar kellingar sem dreymir um að komast í klámið) langar mig til að benda á bók sem er ansi góð sem inngangur að skilningi á ýmsum deilumálum samtímans. Til dæmis upplifuninni af mismunun stelpna og stráka innan fótboltafélaga, upplifuninni af því að umgangast klámvædda jafnaldra sína af strákakyni og fleiri slíkt. Þetta er sú prýðisbók Píkutorfan (Forlagið 2000) sem þær Belinda Olsson og Linda Skugge ritstýrðu á sínum tíma og var þýdd á íslensku af Bríeti, sem ég veit ekki hvort enn starfar, einkum af þeim Hugrúnu Hjaltadóttur og Kristbjörgu Konu.

Nú þegar allir eru orðnir femínistar - í það minnsta í orði kveðnu - þá er þessi bók nánast skyldulesning. Í kjölfarið þyrftum við síðan nýtt hugmyndafræðilegt grundvallarrit á íslensku sem gæti brynjað jafnt stjórnmálamenn sem almenning með rökum þegar mál á borð við klámráðstefnur og kosningar til stjórnar KSÍ ber á góma. Ef menn vilja endurheimta fantasíuna úr heilanum á klámvæddum porningum verðum við líka að fá að heyra hvernig það getur farið fram. 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband