Áróðursverðlaunin?

Þegar Íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt 2. febrúar síðastliðinn mátti vera ljóst að ekki yrðu allir á eitt sáttir um niðurstöðu dómnefndar. Þegar við verðlaunaafhendinguna varð ýmsum heitt í hamsi, einna heitust var þó Kolbrún Bergþórsdóttir sem lýsti því yfir við hvern sem heyra vildi, og þar með verðlaunahafana sjálfa, að hvorugur væri þess verðugur að hljóta verðlaunin. Þetta endurtók hún í viðtali við Ísland í dag. Til upprifjunar skal þess getið að verðlaunahafarnir voru þeir Andri Snær Magnason sem hlaut verðlaunin í flokki rita almenns efnis fyrir Draumalandið - sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð og Ólafur Jóhann Ólafsson sem hlaut verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir sagnasafn sitt Aldingarðurinn.

Morgunblaðið birtir svo þann 13. febrúar grein eftir Tryggva Gíslason, fyrrum skólameistara MA og magister í íslensku, þar sem svipuð sjónarmið koma fram. Hann telur hvorugan verðlaunahafann vera þess verðugan að hljóta viðurkenninguna. Einkum er hann ósáttur við að Andri Snær Magnason hljóti verðlaunin fyrir Draumalandið, enda sé þar ekki um að ræða fræðibók, verkið innihaldi ekki annað en áróður (þetta hétu deilurit á öldum áður)  og sé því ekki tækt skv. reglugerð um verðlaunin sem finna má á heimasíðu Félags íslenskra bókaútgefenda www.bokautgafa.is. Hvað varði verk Ólaf Jóhanns Ólafssonar efast hann um að það jafnist á við bók Hannesar Péturssonar Fyrir kvölddyrum.

Sjónarmið Tryggva hafa oft komið fram í umræðunni á undanförnum árum. Raunar verður Tryggvi óvænt að bandamanni "póstmódernistanna" svonefndu sem á stundum hafa látið verðlaunin hafa það óþvegið. Þegar gagnrýnin er skoðuð nánar sér maður hins vegar að fólk er einfaldlega ósátt við hverjir fengu þau og hverjir voru tilnefndir. Tilhneigingin er hins vegar til að setja þá gagnrýni fram á almennari forsendum: Dómnefndir eru óhæfar sökum menntunarskorts , bókaútgefendur vilja bara nota verðlaunin í áróðursskyni osfrv.

Félag íslenskra bókaútgefenda hefur langt í frá bara látið þessa gagnrýni eins og vind um eyru þjóta, heldur rætt hana á sínum vettvangi. Ég gerði þetta meira að segja að umtalsefni í ræðu sem ég hélt við verðlaunaafhendinguna á Bessastöðum. Hér eru tvær glefsur úr þeirri ræðu þar sem reynt er að skýra sjónarmið okkar sem að verðlaununum stöndum:

Ítalski fagurfræðingurinn Benedetto Croce hélt því fram að rétt mat á gæðum listaverka væri öllum í lófa lagið. Raunar væri það svo að þess fremur að vænta að „einfeldningar og alþýðufólk“ – eins og hann orðaði það af umburðarlyndi aðalsmannsins –  væru þess fremur umkomnir að fella dóma um gott og vont á kjarnyrtan hátt en lærdómsmennirnir. Að vísu hefðu lærdómsmennirnir vinninginn þegar kæmi að hinu stærra samhengi, en hann hélt alla tíð fram óbrigðulli þekkingu allra mannsbarna á listrænu gildi. Við vissum innst inni hvað væri góð list. Við einfaldlega sæjum heiminn þeim augum. Einhvern veginn svona held ég að við hugsum líka um um samveru íslenskra bókmennta og íslenskra lesenda. Allir hafi óbrigðula þekkingu á listrænu gildi. Þegar Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót fyrir einum 16 árum var það raunar gert í trausti þess að tilnefningar dómnefnda væru hvatning fyrir aðra til að leggja sitt mat á verkin. Ætlun verðlaunanna var að vekja umræður, að spyrja: Hvað finnst þér? Alltaf í trausti þess að hver sem er geti svarað.

Og niðurstaðan var svo þessi eftir að reifuð hafði veirð gagnrýni á verðlaunin og hugsanlegar breytingar á þeim:

Ekkert af þessu breytir því þó að það er bjargföst skoðun okkar sem að verðlaununum stöndum að þau hafi sannað gildi sitt. Með þeim hafi tekist að koma á fót grunnstofnun til að heiðra íslenskar bókmenntir og fræðastörf, peningaverðlaunum sem standa styrkum fótum, verðlaunum sem ætlað er að lyfta höfundum og verkum þeirra ár hvert og sýna þeim þann sóma og virðingu sem starf þeirra krefst. Um leið eru verðlaunin okkur „alþýðumönnum“ hvatning til að reyna á innsæi okkar og mat á listrænu og fræðilegu gildi. Að treysta okkar eigin sýn á gæði og erindi verkanna. Hvað sem líður öllum stundlegum ávinningi sem útgefendum hlotnast af tilnefningum og verðlaunum eru höfundarnir og verk þeirra í öndvegi. Við erum að heiðra djúprættustu menningararfleið okkar Íslendinga: Bókmenntir og ritmenningu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband