Tími stórvirkjanna

Það vakti athygli þegar tilkynnt var að tveir reyndustu og ástsælustu bókarhöfundar okkar úr sagnfræðingastétt, þeir Guðjón Friðriksson og Jón Þ. Þór, hefðu tekist á hendur að rita sögu Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands. Á bak við útgáfuna standa miklir sjóðir athafnamanna, Maersk gamli og Jóhannes í Bónus ýta verkefninu úr vör. Útgefandi er ekki enn fundinn.

Þetta er spennandi verkefni og bætist í hóp þeirra stórvirkja sem út hafa komið á undanförnum árum. Kirkjusagan, Íslenskt mál, Íslensk bókmenntasaga, Saga biskupsstólanna, Íslensk orðabók, Saga stjórnarráðsins og svo eru í gangi verkefni á borð við Kirkjur Íslands, sem virðist ætla að verða ein viðamesta útgáfuröð sem sögur fara af hérlendis, nú þegar eru komin átta bindi og samt aðeins búið að tæpa á þremur prófastdæmum! Ef skyggnst er lengra aftur blasa við bautasteinar á borð við Saga Reykjavíkur og nú er loksins gangur í útgáfunni á Sögu Íslands á vegum Hins íslenska bókmenntafélags. Í undirbúningi er svo íslensk listasaga sem Listasafn Íslands hefur forgöngu að og Edda ætlar að gefa út.

Þetta eru gríðarlega stór verkefni þar sem oft - raunar oftast - fara fram frumrannsóknir og mörg þeirra eru myndarlega styrkt af opinberu fé. Nú koma síðan hinir nýju sterku menningarsjóðir sem orðið hafa til í kjölfar hinnar gríðarlegu fjármunamyndunar hérlendis. En stundum spyr maður sig líka: Þetta eru stór og mikil bindi sem kosta tugi þúsunda. Má ekki finna einhvern milliveg til að koma þessari þekkingu á framfæri? Minni bækur? Rafræn miðlun þar sem leita má í efninu og skoða það í bútum?

Það skal tekið fram að saga Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands á ekki að vera nema tvö bindi og höfundarnir vilja að þau verði áhugaverð og skemmtileg fyrir allan almenning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband