4.2.2007 | 10:53
Síðustu gusurnar
Það er farið að sjatna eftir bókaflóðið og síðustu skvettunum skilar nú á land. Menn rölta upp á næsta hól og skyggnast yfir útgáfuárið og búið er að veita Íslensku bókmenntaverðlaunin. Það var falleg athöfn í arfavitlausum útsynningi á Bessastöðum, svo stofan varð hlýlegri og vinalegri fyrir vikið, meginröksemd þess að vetrum á Íslandi er vel varið inni með bók opinberaðist manni í allri sinni dýrð. Svo hefur forseti Íslands sérstakt lag á því að horfa björtum augum á samtímann og tókst að lýsa landslagi bókaútgáfunnar þannig að það virtist baðað áður óþekktum ljóma okkar glæstu anda. Hann hafði líka rétt fyrir sér. Aldrei áður í sögu þjóðarinnar starfa jafn margir að fræða- og ritstörfum og nú.
En bókaflóðinu lýkur ekki aðeins með skálaræðum og húrrahrópum. Nú er liðinn opinber skilafrestur bóksala á jólabókum til útgefenda. Menn sjá því þessa dagana svart á hvítu hvað þeir seldu í raun og veru. Þetta getur verið erfiður tími. Óforvarindis dúkkar upp heill bókalager sem legið hefur undir bekk einhvers staðar í afskekktri búð í Samkaupa-samstæðunni. Einhver verslunarstjóri pantaði óvart 150 eintök í staðinn fyrir 50 eintök. Þetta kemur allt í hausinn á útgefandanum aftur og er oftast tapað fé. Þótt enn geymi útgefendur hérlendis bækur lengur en margur gerir í nágrannalöndum eru takmörk fyrir því hvað mörghundruð bóka lager af óseljanlegum innbundnum bókum getur beðið lengi eftir sínum tíma.
Almennt hafa þeir sem stungið hafa niður penna til að meta stöðu og horfur verið nokkuð jákvæðir. Það gildir til dæmis um rithöfundana sem ræða um heima og geima í Fréttablaðinu hvern sunnudag undir því yfirskini að þeir séu að ræða "stöðu íslensku skáldsögunnar", en því miður hafa þau annars skemmtilegu viðtöl ekki bætt miklu við þekkingu mans á henni. Því viðtölin eru nefnilega skemmtileg, Hermann Stefánsson og Steinunn Sigurðardóttir og nú síðast Guðrún Eva Mínervudóttir, eru kát og hress og fara um víðan völl. Eini rithöfundurinn sem setti upp eiginlegt prógramm og var með harðar skoðanir var Jón Atli Jónasson í fyrsta viðtalinu. Svona eftir á að hyggja komst hann líklegast næst því að ræða stöðu skáldsögunnar, hinir eru meira að spá almennt í ritun og útgáfu og sér sjálfum, hver með sínu nefi. Mest á óvart kom mér framlag Hermanns Stefánssonar sem var svo jákvæður að manni hnykkti við. En greinilega er glæpasagan orðinn svo fyrirferðarmikill póstur í íslensku bókmenntalífi að ekki er hægt að ræða skáldsagnaritun án þess að tala ýmist vel eða illa um hana. Svolítið spes miðað við samskonar umræðu í öðrum löndum, en hvað um það.
Eina gagnrýna röddin á skipan mála heyrðist í Lesbók Morgunblaðsins á laugardag. Ari Trausti Guðmundsson, hinn frjói múltítalentmaður, ritaði renning um bókamarkaðinn og bókaflóðið. Ari hefur áður ritað í blöð á svipuðum nótum og býr að því að hafa margháttaða reynslu af markaðinum. Sumt í ábendingum Ara er þó þess eðlis að til að ráða úr því þyrfti að taka upp einhvers konar miðstýrt apparat í útgáfu-, markaðs,- og kynningarmálum, sem er einfaldlega ólöglegt. Hann er líka einn þeirra sem ég held að myndi vilja skilyrða frjálst bókaverð, enda líklegast eina lausnin í bráð á því að stoppa afsláttarskriðuna. Í Danmörku gerðu bókaútgefendur og samkeppnisyfirvöld á síðasta ári með sér samkomulag um fast bókaverð í ákv. tíma eftir útkomu ákveðins fjólda útgáfubóka hvers forlags. Það þýðir í raun að Dan Brown, Harry Potter og fleiri slíkir góðir eru með föstum verðum á á útgáfuárinu og fyrstu mánuði næsta árs á eftir en ekki Peder Pedersen og nýja prósaljóðabókin hans, öllum er sama um að hún sé seld með 40% afslætti. En hver mun geta stjórnað því hve margar bækur koma út í nóvember og desember? Enginn. Það er fráleitt að láta sér detta það í hug. Enginn nema bara markaðurinn getur sagt útgefendum hvenær þeir eigi að gefa út bækur sinar. Því þótt maður geti sagt sér það sjálfur að það sé vitleysa að gefa t.d. út fræðibók um afmarkað svið eða ljóðabók í nóvember og ætlast til að þær fái góða kynningu í fjölmiðlum er þetta gert samt. Og það sem meira er, aftur og aftur. Ég býst við að það þyrfti fleiri til en ATG til að benda á hve undarlegt háttalag þetta er á stundum.
Ari Trausti er líka með mjög réttmæta ábendingu - sem ég held að komi almenningi þó ekki mikið við - en það er það furðulega lag sem er á samskiptum heildsala og smásala og lýtur að skilarétti bókabúða. Þar gilda sömu lög og reglur og ef um staðgreiðsluviðskipti væri að ræða, en hins vegar hefur smásalinn ákaflega rúmar heimildir til að skila vörunum aftur ef þær seljast ekki, nema náttúrlega um annað sé samið. Þetta veldur fólki höfuðverk því sölutíminn f. jólin er svo stuttur. Þær bækur sem seljast á lengri tíma og koma út fyrr á árinu, bækur eins og til dæmis metsölubókin Íslensk fjöll eftir Ara og Pétur Þorleifsson, eru undanþegnar þessu vandamáli þar sem dreifing vörunnar er nær eftirspurn. Ég er innilega sammála ATG um að menn hafi enn of lítið látið reyna á möguleika þess að selja bækur utan jólamarkaðarins, en til þess að það sé hægt verða menn líka að kyngja því að þetta er markaður og þar þarf að kynna vörurnar með almennatengslum, auglýsingum og framstillingum hjá smásölum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.