29.1.2007 | 23:57
Lýðræði án stjórnmálaflokka
Undirbúningurinn fyrir alþingiskosningarnar í vor sýnir vel að einstaklingshagsmunir eru mál málanna í dag. Heildarstefna stjórnmálaflokks í öllum mögulegum og ómögulegum málum er á hverfanda hveli. Hvers vegna þurfum við yfirleitt stjórnmálaflokka? Gera þeir líf mitt betra? Hvernig hjálpar það mér að setja bara eitt X á seðil, þegar ég augljóslega myndi vilja raða saman mínu persónulega prógrammi líkt og ég myndi hlaða lögum inn á iPod? Er þetta kerfi ekki alveg óskaplega 20. aldarlegt, so last age?
Einmitt slíkum spurningum reynir þýski rithöfundurinn Juli Zeh að svara í verkefni sem hún vinnur að þessi misserin. Markmiðið er hvorki meira né minna en að skrifa stjórnskipunarkenningu fyrir lýðræðissamfélög 21. aldar þar sem stóru límtúburnar - fjölskyldan, föðurlandið, kirkjan, herinn - eru ekki lengur með tonnatak sitt á borgurunum. Hún hefur komið fram í nokkrum viðtölum undanfarna mánuði í þýskum fjölmiðlum og reifað lítillega þessar hugmyndir sínar um "lýðræði án flokka". Þær eru allrar athygli virði nú þegar við horfum upp á flokka vaxa og hrynja, sérhagsmunaframboð fæðast og kaffið klárast á könnunni.
Juli Zeh er ung kona, fædd árið 1974. Hún er frá Bonn en nam í Leipzig og er útskrifuð úr hinum fræga rithöfundaskóla þar í borg, Deutsches Literaturinstitut, en einnig útskrifaður lögfræðingur og er með málflutningsréttindi, varð reyndar efst í sínum árangi í Saxlandi. Hún sérhæfði sig í þjóðarrétti og kom að rannsókn á stríðsglæpum í Bosníu. Hefur reyndar skrifað mjög áhrifamikla ferðabók um ferðir sínar um Balkanskaga. Hún gaf út sína fyrstu skáldsögu, Örn og engill (Adler und Engel) árið 2001 og sló í gegn, bókin hefur verið þýdd á um 30 þjóðtungur. Hún hefur skrifað bók um rétt ríkja til að ganga í Evrópusambandið og skáldsöguna Leikþörf (Spieltrieb) sem kom út árið 2004, þar sem hún fjallar meðal annars um siðferðislegar spurningar um leikreglur nútíma lýðræðis.
Rithöfundar ættu að finna hjá sér stöðuga skyldu til að hugsa samfélagið og hætti þess algerlega upp á nýtt. Fræðimenn eru bundnir styrkjum, hagsmunum og kennslu við menntastofnanir. Rithöfundar skulda ekki neinum neitt. Þeir eru alfrjálsir, sérstaklega þeir sem núna voru að fá starfslaun. Juli Zeh tók þetta frelsi á orðinu og teiknar upp stjórnmálakerfi sem samsvarar þróun evrópskra samfélaga. Hún bendir jafnframt á að það sé engin von til þess að slíkar breytingar verði teknar til umræðu innan þess kerfis sem nú er við lýði. Það muni verjast öllum tilraunum til breytinga með kjafti og klóm, það muni spyrna við þeim fótum, gera þær hlægilegar, bola þeim burt, eyða þeim úr umræðunni. Það er eðli kerfa að hræðast breytingar og ekkert til að hafa áhyggjur af, þannig séð.
Í viðtali sem Welt am Sonntag tók við hana nú í haust segir hún þetta:
Ég er ekki á móti grundvallarreglunni um aðskilnað valdsviða ríkisins. Ég er ekki á móti grundvallarhugmyndum lýðræðisins. Hins vegar eru ótalmargar leiðir til að útfæra þær og megnið af þeim hafa aldrei verið reyndar, né hefur fólk árætt að hugsa þessar leiðir áfram. Vangaveltur mínar og tillögur snúast því um þetta: Ég sé vel fyrir mér lýðræðisríki án stjórnmálaflokka. Ég sé fyrir mér kjörseðil þar sem maður þarf ekki að kjósa stefnu, stóran stefnupakka, heldur getur tekið afstöðu til fjölbreyttra stefnumála sem hólfuð eru niður á kjörseðlinum eftir sviðum.
Og í hennar augum er lýðræðisskipulagið í evrópskum löndum statt í djúpri krísu:
Mikilvægasti samkomustaður þeirra sem hafa líka hagsmuni og vilja verja þá í lýðræðissamfélaginu hefur verið stjórnmálaflokkurinn. Þegar stéttir riðlast, þegar aldagömlum valdastofnunum á borð við kirkju og fjölskyldu hnignar og þegar fólki finnst það fjarlægjast "samkrull" stefnumála innan flokkanna vegna þess að það sem einstaklingar nær ekki að tengja sig þeim fjölmörgu og eðlisólíku stefnumiðum sem stjórnmálaflokkar eru að reyna að hýsa undir einu þaki, þá hlýtur fulltrúalýðræðið að missa gildi sitt.
Þeir sem ekki lesa þýsku geta gluggað í skáldsöguna Eagle and Angel eftir Zeh. Hún fékkst hér í Eymundsson við Laugaveg síðast þegar ég vissi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.