Enginn er óhultur

Á annan í jólum fór ég í gönguferð upp á Hengil, nánar tiltekið á Skeggja, þar sem Hengillinn kemst lengst frá sjávarmáli. Það gekk á með éljum þarna uppi og þoka svo fín ísskán lagðist á grjót og menn. Ekki mikill snjór en hjarn og ís undir og dásamlegt broddafæri.

Þegar upp var komið leituðum við að gestabókarhylkinu sem er þarna í grjóthrúgaldi. Þetta er vel gerður hólkur úr ryðfríu stáli en nú brá svo við að engin gestabók var í hylkinu. Aðeins eitt nafnspjald. Raunar ekkert venjulegt nafnspjald, heldur nafnspjald manns sem titlar sig "Economist" og það var plastað. Því var ætlað að þola vind og veðurbreytingar. Þessi maður kynnti sig á ensku og íslensku og sagðist starfsmaður Askar Capital, fjármálaundurs og síðasta stórvirkis útrásarinnar sem Tryggvi Þór Herbertsson, maðurinn sem hvíslaði góðum ráðum að Geir Haarde á síðustu andartökum góðærisins, kom á koppinn með peningum Wernersystkina. Þótt fátt heyrist af þessu fyrirtæki opinberlega mun það að sögn kunnugra ramba á barmi hrunsins.

Óneitanlega þótti þetta undarlegt og einhverjum varð á orði: "Stálu þeir meira að segja gestabókinni?!"

Við ætlum að komast að því hvort nafnspjöld leynist í fleiri hylkjum á fjöllum í nágrenni Reykjavíkur og hafi komið í staðinn fyrir gestabækur sem nú  brenna vísast í eignasöfnum fallítt fyrirtækja. Eða eru kannski grafnar í kistu á strönd Tortuga.


Bloggfærslur 27. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband