Enginn er spámaður ...

Sigurður Gylfi Magnússon, ofursagnfræðingur, skrifar mjög skemmtilegan og ítarlegan ritdóm um bókina Skuggamyndir úr ferðalagi eftir Óskar Árna Óskarsson á kistan.is.

Þar segir hann:

"Ég get fullyrt að það [Skuggamyndir úr ferðalagi] verður hvorki tilnefnt né vinni til bókmenntaverðlaunanna í ár. Til þess er það alltof áhugavert og – það sem mest er um vert – hnitmiðað."

Nú þegar búið er að tilnefna bókina til Íslensku bókmenntaverðlaunanna hlýtur næsta skrefið í hinum öfuga spádómi að vera að Óskar Árni fái bókmenntaverðlaunin, eða hvað?


Bjart er yfir bóksölum

Í morgun var skemmtilegt viðtal við Bryndísi Loftsdóttur, vörustjóra íslenskra bóka hjá Eymundsson, í morgunfréttum RÚV. Þar staðfesti hún það sem hefur verið að teiknast upp að undanförnu: Bóksala er góð, en allra best er hún í íslenskum skáldskap.

Það er sum sé bjart yfir bóksölunni.

En hverjir eru það þá sem njóta einkum ávaxtanna af góðri bóksölu? Ef marka má Bryndísi eru það útgefendur íslenskra skáldsagna og glæpasagna fyrir börn og fullorðna. Það er breiður hópur útgefenda sem gefur út slíkt, en þar ber langmest á hinu stóra Forlagi, síðan á Bjarti/Veröld og síðan hafa ákveðnir titlar annarra útgefenda verið sterkir í umræðunni: Taka má sem dæmi Land tækifæranna eftir Ævar Örn Jósefsson, Fluga á vegg eftir Ólaf Hauk Símonarson, Sólkross eftir Óttar Martin Norðfjörð og Hvar er systir mín? eftir Eyrúnu Ýr Tryggvadóttur. Mest ber á titlum eins og Myrká Arnaldar, Auðn Yrsu, Ofsa Einars Kárasonar, Vetrarsól Auðar Jónsdóttur, Ódáðahrauni Stefáns Mána og 10 ráðum til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp eftir Hallgrím Helgason, Skaparanum eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Rökkurbýsnum Sjóns.

En hvernig er ástandið í öðrum deildum?

Það kemur síst minna út af ævisögum fyrir þessi jól en áður. Af þeim virðist hafa fjórar hafi markað sér sérstöðu hvað varðar sölu og umtal: Saga af forseta eftir Guðjón Friðriksson, Magnea eftir Sigmund Erni Rúnarsson, Ég skal vera Grýla eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur og Ég hef nú sjaldan verið algild - saga Önnu á Hesteyri eftir Rannveigu Þórhallsdóttur, en ég held að ekki sé á neinn hallað þegar því er haldið fram að hún sé óvenjulegasta og frumlegasta metsölubók jólanna. Hins vegar er "stemmningin" í kringum ævisögurnar ekki sú sama og í kringum skáldsögurnar. Um þær er minna talað og þær ná ekki sömu hæðum á almenna sölulista Mbl. og skáldsögur og barnabækur.

Langstærsti flokkur útgefinna bóka á Íslandi er "almenn nonfiksjón", "bækur almenns efnis". Þar er mikil gróska í matreiðslubókum. Raunar er sá flokkur athyglisverðastur frá sjónarmiði vöruþróunar bókarinnar. Mest hugkvæmnin í framsetningu í bókarformi er lögð í þessar bækur sem og vinna við útfærslu og frágang. Ákaflega margar frambærilegar bækur koma út í ár og það er að skila sér í umtali og viðhorfum fólks. Hvort sem það eru risabækur eins og Silfurskeiðin eða standardar eins og Af bestu lyst 3 eða þá persónulegar bækur á borð við Náttúran sér um sína eftir Rúnar Marvinsson, þetta eru allt mjög athyglisverðir titlar. Hins vegar eru best seldu bækurnar í þessum flokki enn sem fyrr Útkallsbækur Óttars Sveinssonar, það virðist vera viss passi hver jól.

Almennt staðfesta útgefendur það sem bóksalinn Bryndís sagði í morgun. Salan er góð, en best er hún í ákveðnum flokkum, og þar er raunar mikil aukning. Nú er ein og hálf vika eftir af vertíðinni og síðasti stóri sölulistinn verður birtur nú á miðvikudag. Þar með er vertíðin teiknuð upp. Í augnablikinu lítur út fyrir að þetta verði ár íslensks skáldskapar, einkum íslensks lausamáls, ár skáldsögunnar.


Bloggfærslur 15. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband