Reaksjóner iðnaðarhátíð

Bókmenntahátíðinni í Reykjavík lauk nú á laugardagskvöldið með hófstilltu hófi í Iðnó þar sem skálaræður voru fluttar og húrrahróp og arnsúgur dreginn á flugnum. Nóbelsverðlaunahafinn Coetzee var að vísu farinn en nóg af frægðarljósum til að lýsa upp myrkrið. Hátíðin var ekki bara hátíð skálda, heldur einnig þýðenda og þeir voru margir þarna í salnum. Fólkið sem við stöndum í raun og veru í mestri þakkarskuld við því án þeirra hljómaði harpa íslenskra bókmennta okkur einvörðungu og engum öðrum. Þarna voru líka útgefendur, sumir stórir menn í sinni sveit, og þótt ekkert færi fyrir þeim hér í fjölmiðlum höfðu þeir af mörgu að miðla.

Síðasta hátíð árið 2005 var algjört stjörnuregn og að tjaldabaki blönduðust frægð, snilligáfa, ást, vímuefni og hofmóður saman á ótrúlegan hátt. Það var ekki hægt að toppa það í ár. Það sem hins vegar var gaman nú var að sjá hve mikið kom af ungum höfundum og þeim fylgdi skemmtilegur andblær sem gerði braginn á hátíðinni í ár léttan og ljúfan. Ítalinn Lecca, Bosníuþjóðverjinn Stanic voru dæmi um þessi ljúfmenni.

En úti í bæ kraumaði gremjan. "Reaksjóner bókmenntahátíð" sagði Viðar Þorsteinsson, hugmyndafræðingur. "Iðnaðarþýðingar", sagði Páll Baldvin Baldvinsson, "hátíð sem ekki er fyrir almenning". Jæja, í það minnsta tveir stungu niður penna um helgina til að reka ofan í PBB ummæli hans um hvernig staðið er að útgáfu þýðinga á Íslandi (en óvenju margar þýðingar komu út nú í tenglsum við hátíðina) í Kiljunni. Frábært lítið innlegg frá Gauta Kristmanssyni í Morgunblaðinu um raunveruleika þýðinga yfir á íslensku. En þegar kemur að því að allir þurfa að tala ensku sem vinna í bönkunum, allt ofan í gjaldkera sem þá ávarpa mann á ensku og Landsbankinn hefur slóganið "We support football", þá verður þetta hvort eð er líklegast ekkert vesen og reaksjónerar bókmenntir hvort eð er horfnar af jarðarkringlunni.


Bloggfærslur 17. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband