Breytist Edda í AB?

Um fátt hefur verið meira rætt í dag á meðal þeirra sem eru í bóka- og menningarbransanum en kaup Máls og menningar á útgáfuhluta Eddu og sundurhlutun fyrirtækisins. Sitt sýnist hverjum eins og gengur. Hins vegar má segja að fyrstu fréttirnar af sölunni og það sem heyrðist handan yfir fortjaldið hafi ekki gefið alveg rétta mynd af stöðunni eins og hún er kynnt nú.

Þannig blasir það nú við að í raun hættir Edda útgáfa starfsemi frá og með 1. október næstkomandi. Jólabækur fyrirtækisins koma ekki út hjá Eddu útgáfu, heldur hjá ónefndu fyrirtæki sem mjög miklar líkur eru á að muni heita Mál og menning. Mál og menning kaupir bækurnar á lagernum og þá útgáfusamninga sem liggja þeim að baki, annað ekki. Ekki fyrirtækið sem slíkt eða heiti þess. Þetta þýðir að Edda útgáfa verður í raun lögð niður sem bókaútgáfa frá og með 1. október og er úr sögunni. Útgáfubækur Eddu útgáfu, þe. undir þeim merkjum, má telja á fingrum annarrar handar: Fyrst Íslensk orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar, síðan hinn mikli Íslandsatlas. Það mun líklegast fljótt fenna yfir Eddunafnið í íslenskri útgáfusögu.

En bíðum við. Almenna bókafélagið var skilið eftir. Þessi smáklausa í sölusamningnum þótti of smá til að menn væru að gaspra henni sérstaklega á torgum þangað til blaðamaður á Fréttablaðinu rak í þetta augun og sló því upp sem fyrirsögn. Þar sem Eddu útgáfu nafnið verður eftir hjá Ólafsfelli ehf., þ.e. í ranni Björgólfs Guðmundssonar, má í raun segja að frá og með 1. október n.k. verði Edda útgáfa að Almenna bókafélaginu, svona tæknilega séð. Hvað Ólafsfell ætlar að gera við AB/Eddu útgáfu er hins vegar ekki vitað. Almenna bókafélagið fór sem slíkt á hvínandi kúpuna um miðjan tíunda áratuginn, svanasögngurinn var um jólin 1993 þegar -- kaldhæðnislegt en satt -- aðalhöfundar forlagsins höfðu þá árin áður verið hinir feykilega hægri sinnuðu eða hitt þó heldur Einar Már Guðmundsson, Tolli og Megas. Þessa menn töldu forvígismenn hins "borgaralega" forlags mikið kappsmál að gefa út.

Þessi gjörningur sýnir hve grunnt er á pólitíkinni í þessu öllu. Að þarna er einhvers staðar enn verið að hugsa á pólitískum línum sjötta og sjöunda áratugarins. Jafn framsækið og það nú er. Hins vegar verður þessi aðskilnaður svolítið skrítinn í raun. Vaka-Helgafell eignaðist Almenna bókafélagið eftir gjaldþrot þess um miðjan tíunda áratuginn. Í nokkur ár komu engar bækur út undir merkjum þess. Árið 1999 var svo stofnuð einskonar deild í Vöku-Helgafelli undir nafni AB og Bjarni Þorsteinsson varð útgáfustjóri þess. Fyrst kom út ein bók, Þjóðsögur við þjóðveginn, eftir Jón R. Hjálmarsson. Á næstu árum sá Bjarni, sá mikli sómamaður, um AB. Hann bjó til flotta ferðabókalínu, fyrst með vegabókum Jóns R. Hjálmarssonar og seinna bækur á borð við Gengið í óbyggðum og Ekið í óbyggðum. Hann átti hitt á borð við sögu KK sem Einar Kárason skráði, en samstarf þeirra ber enn ber frjóan ávöxt í ágætum útvarpsþáttum og á sviði eins og kunnugt er.

En stóri átakapunktur í seinni og skemmri sögu þessa forlags var án efa fyrsta bindi ævisögu Halldórs Laxness eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, Halldór, sem kom út árið 2003. Atburðarásin sem leiddi af þeirri útgáfu varð svo margslungin og undarleg að einhvers staðar á leiðinni tapaði maður þræðinum. Eitt er víst að hann fór úr höndum Eddu og svo að í byrjun árs 2005 urðu einar skipulagsbreytingarnar af mörgum hjá fyrirtækinu og þar með var AB lagt niður. Árin 2005 og 2006 og fram til 1. október á þessu ári starfar og starfaði AB sem eitt af nokkrum "óvirkum" imprintum Eddu á borð við Iðunni, Forlagið og Þjóðsögu. Það er því tilfinningagildi hinnar borgaralegu útgáfu sem eitt situr eftir. En kannski átti undanskotið að koma í veg fyrir einhvers konar vúdú-hefndar athöfn fulltrúaráðs Máls menningar á síðustu eintökum "Halldórs" sem hefndarráðstöfun fyrir svívirðingu hægri klíku Hannesar á heilögum véum Laugavegs 18 þar sem hann hélt sigurreift útgáfupartí fyrir jólin 2003. Enn heyrir maður sósíalíska intellektúela frýsa af pirringi yfir þeim gjörningi.

Já, og Björgólfur fékk víst heldur ekki Rúbluna upp í andvirði útgáfunnar, að minnsta kosti ekki ennþá. Laugavegur 18 er nú til sölu. Heimskringla er í fjáröflunarherferð til geta nú sinnt sínu eina skilgreinda hlutverki samkvæmt samþykktum sínum sem er bókaútgáfa. Annan tilgang hafði það félag aldrei. Það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur að safna peningum í baukinn. Því félagið þarf fé til að byggja upp alvöru útgáfu. Svo lokar sjoppan og Edda er úr sögunni. Nú klórar bransinn, þar á meðal flestir helstu rithöfundar þjóðarinnar, sér í kollinum og hugsar með sér hver skollinn taki við.


Eddan seld og klofin

Það hefur legið í loftinu um margra mánaða skeið að Ólafsfell ehf., menningareignafélag Björgólfs Guðmundssonar, vildi selja meirihlutaeign sína í Eddu útgáfu. Nú er það gengið í gegn en um leið hefur félaginu verið skipt upp. Annars vegar í útgáfuhlutann sem Mál og menning eða Heimskringla ætlar sér nú að kaupa (ef hin dularfulla kaupfélagsstjórn sem ber nafnið "fulltrúaráð" samþykkir það - fé Máls og menningar er "án hirðis" eins og Pétur Blöndal myndi segja). Hins vegar í bókaklúbba Eddu sem Ólafsfell á áfram en hljóta að vera líka til sölu og berast þá böndin að öðrum rekstraraðilum sem notað geta áskriftar- og dreifingarkerfi þeirra, t.d. Árvakur eða 365. Dekkun Edduklúbba í ákveðnum aldurshópum er nánast skuggaleg. Eddu klúbbarnir eru eitt best geymda leyndarmál íslenskrar útgáfu.

Það eru meiriháttar tíðindi að langstærsta bókaútgáfa Íslendinga hefur ekki aðeins verið seld heldur líka klofin í tvennt í leiðinni. Nú eru sjö ár liðin nánast upp á dag frá því að Edda miðlun og útgáfa var sett á fót með sameiningu Máls og menningar og Vöku-Helgafells. Á þeim tíma var nýbúið að veita miklu fjármagni inn í íslenska bókaútgáfu með stofnun fyrirtækisins Genealogia Islandorum sem átti nokkra útskanka á borð við ættfræðiútgáfu og það sem þá hét JPV Forlag og var stýrt af Jóhanni Páli Valdimarssyni. Stutt var þá síðan Fróði hafði keypt Iðunni fyrir metfé og því virtist um mitt sumar 2000 sem íslensk bókaútgáfa stæði á þröskuldi mikillar umbyltingar. Nú, sjö árum síðar, blasir það dagljóst við að þessar ferðir voru ekki til mikils frama.  Fróði fór á hausinn með brauki og bramli og milljónir á milljónir ofan töpuðust. Tug ef ekki hundruð milljóna gjaldþrot Geneologia Islandorum var gerð upp fyrir löngu en Jóhann Páll hirti JPV nafnið og breytti Forlag í Útgáfa og kom niður standandi, eftir sat kolkrabbinn gamli með sárt ennið. "Útrás" Máls og menningar inn á lendur fjármagnsins beið skipbrot, draumurinn um allsherjar útgáfurisa reyndist hálfgerð martröð, en MM náði því þó sem "fólksmunnurinn" sagði stundum að hefði verið hin raunverulega ástæða stofnunar Eddu miðlunar og útgáfu, Halldóri Laxness. Í Eddu er hvernig sem á það er litið samankomin nánast öll útgáfusaga Íslendinga á 20. öld, allt frá Helgafelli og Heimskringlu til Ísafoldar, Forlagsins, AB, Iceland Review, Iðunnar og Þjóðsögu auk margra fleiri útgáfumerkja.  Nú hefur þessum menningarfjársjóðum verið kippt inn úr kulda fjármagnseigenda og aftur settir inn í sjálfseignarstofnunina MM. Stjórn MM er enn skipuð þeim sömu og fóru af stað fyrir sjö árum síðan og fyrirtækinu er stjórnað af gömlum MM mönnum svo búast má við að fæstir taki mikið eftir breytingunum. En um leið er eðlilegt að maður spyrji: Til hvers var þá þetta allt? 

Ég vann hjá Eddu í rúm sex ár og hugsa hlýtt til þessa furðulega tíma. Hvað sem öllu fjármálavafstri leið var fyrirtækið stútfullt af hæfileikafólki sem var hvert öðru klárara, skemmtilegra og sniðugra. Hvort sem Edda heldur áfram að heita Edda eður ei er ljóst að með sölunni til MM er settur punktur, þótt ekki væri fyrir annað en að fyrirtækinu hefur verið skipt upp.

En íslensk bókaútgáfa virðist ekki eiga gott með að laða að sér alvöru fjárfesta, þeir geta greinilega ekki fundið fé sínu ábatasaman farveg á þessu sviði. En það er svo sem heldur ekkert séríslenskt fyrirbæri. Megnið af stórum útgáfufyrirtækjum heimsins hafa þröngt eignarhald, oft fjölskyldu eða fámennan einbeittan fjárfestahóp, sem kippir sér ekki upp við lítinn vöxt, en horfir til lengri bylgjulengda. Það er hins vegar spurning hvað skuldsett og eignalaus Heimskringla verður burðug til að byggja upp framtíðar útgáfufyriræki. Það fylgdi nefnilega með í kaupunum að Björgólfur fengi Rúbluna við Laugaveg 18 upp í söluverðið (en fyrst að Alþýðuhúsið við Hverfisgötu varð að snobbbælinu 101 hótel þá er það líklegast ekkert svo voðalegt). Hvað íslenska bókaútgáfu og íslenskt höfundarsamfélag varðar yrði það hins vegar áfall ef það mistækist. Það tekur óralangan tíma að púsla svona félagi saman aftur.


Bloggfærslur 9. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband