Hver er leyndardómurinn á bak við Leyndarmálið?

Mest selda bókin á Íslandi undanfarnar vikur er Leyndarmálið eftir Ástralann Rhondu Byrne. Hún verður mest selda bókin á Íslandi næstu vikur í viðbót, raunar eru yfirgnæfandi líkur á að hún verði í kringum topp sölulista Eymundssonar fram að fyrstu viku nóvember eða svo þegar jólaskriðann veltur inn úr prentsmiðjunum. Ástæðan er einföld: Það kemst enginn hænufet án þess að minnst sé á Leyndarmálið. Síðast í dag sagði umboðsmaður Íslands nr. 2, hann Ísi, að rétturinn á mynd Rhondu lægi hjá sér og hann byggist við metsölu, DVD diskurinn gengi hér á hátt í fimmþúsundkallinn á svörtum. Þá eru ekki þeir meðtaldir sem horfa á þetta á netinu. Það er einhver svartigaldur í þessu sem tryllir. Sjálfsagt ástæðan fyrir því að Time valdi hana Byrne sem eina af 100 áhrifamestu einstaklingum heims.

Bókin hefur verið í kringum topp þýska "Sachbuch" listans nú undanfarnar vikur og á toppi "Advice"-lista New York Times. Enn á eftir að gefa hana út í nokkrum menningarlöndum og því mun lögmál aðdráttaraflsins enn eiga eftir að veiða fleiri sálir í net sín. Þetta er allt hið magnaðasta mál og raunar verður maður stundum smá smeykur þegar maður heyrir fólk tala um þetta. Þetta hljómar eins og ný trú, leyndarmálskirkjan, og fólk vitnar, líf þess hefur breyst, það sá nýja merkingu, það varð heilt og sama sér maður ef skoðaðar eru erlendar bloggsíður og ýmsar spjallrásir. Leyndarmálið hrifsar til sín sálirnar. Larry King fjallaði endalaust um Leyndarmálið, Ellen DeGeneres fjallaði endalaust um Leyndarmálið og síðan Ophra, sem hefur séð ljósið í Leyndarmálinu. Rhonda Byrne er í augum milljóna nánast heilög manneskja. Hvað er þetta eiginlega?

Skemmtilegust er þó umræðan sem sumir brydda uppá þar sem borin eru saman lögmál adráttaraflsins hjá Rhondu og önnur lögmál sjálfshjálpargúrúa. Er nóg að trúa eða verður maður líka að gera? Er nóg að hugsa um það sem maður vill, eða verður maður að trúa á það sem maður vill? Það sem slær mig mest í þessu er að skv. frásögn ástralskra vefmiðla fékk Byrne hugmyndina úr eldgamalli sjálfshjálparbók þar sem vísindahugsun, nútímatrú og kalvinískri dugnaðarhyggju var blandað saman til að búa til nýjar sálir fyrir sölu- og iðnaðarsamfélag Ameríku. Þetta var bókin The Science of Getting Rich eftir Wallace Wattles sem kom út árið 1910. Þar er á ferð myndhverfing. Aðdráttaraflið, það sem stjórnar hreyfingum agna í kringum segul t.d., virkar líka í mannheimum. Það sem fer út, fer aftur inn. Betra að þetta sem fer út og inn sé gott. Byrne kynntist um leið því nú er kallað NLP - taugaforritun - og hvers konar hugarþjálfun sem skiptir orðið mjög miklu til að mynda við þjálfun íþróttamanna. Allt kom þetta saman í myndinni Leyndarmálið. Síðan kom bókin. Nú er Rhonda orðin ein af stóru nöfnunum.

Það sem við köllum nú sjálfshjálp var frá því í fornöld ein af uppistöðum siðfræði og klassískrar heimspeki: Hvernig rækta ég sjálfan mig? Sjálfshjálp, "Erbauung" var ein af grundvallarstoðum mótmælendaboðunar. Sjálfshjálparbækur voru þýddar á íslensku strax á 16. öld og prentaðar á Hólum og seinna í Skálholti, Hrappsey, Leirárgörðum og Viðey. Prentmenningin og ráðgjöf við að lifa lífinu og takast á við erfiðleika þess eru samferðarmenn. Mér finnst magnað að sjá þetta virkar enn í dag. Að orðin skuli hafa þennan mátt að þúsundir sjá líf sitt umhverfast.


Bloggfærslur 23. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband