Arnaldur með tvær á þýska árslistanum

Þýska bókabransablaðið buchreport er frábærlega duglegt í að búa til lista yfir öll svið þýskrar bókaútgáfu. Listinn sem Der Spiegel birtir um bóksölu, eða öllu heldur listarnir - því að erlendum sið er sala almennra rita og skáldverka aldrei borin saman - er unninn af buchreport og sérstakur kiljulisti sem birtur er í sjónvarsdagskrárblaðinu Gong er einnig unnin af buchreport. Um hver árámót tekur buchreport svo saman ítarlega árslista þar sem 100 mest seldu bækur í öllum fjórum flokkum skáldverka og almennra rita jafnt innbundinna sem í kilju er birtur auk þess sem sérstakur forlagslisti er unninn sem sýnir hvaða forlög áttu flesta titla á topp 100 yfir mest seldu skáldverk.

Það er mjög forvitnilegt að skoða þessa lista og spá í hver þróunin er á þessum langstærsta útflutningsmarkaði íslenskra bókmennta, og raunar öðrum stærsta bókamarkaði heims og stærsta þýðingarmarkaði veraldar. Í skýrslu sem stofnun í fjolmiðlafræðum við háskólann í Erlangen tók saman fyrir nokkrum árum um þróun topp 100 listans í Þýskalandi frá 7. áratugnum til upphafs 21. aldar komu fram mjög athyglisverðar niðurstöður. Þar sást glögglega hve stór hluti listans eru þýðingar, um 60-70% þegar allra mest er á tíunda áratug síðustu aldar. Að sjálfsögðu var mest þýtt úr ensku en það sem var einkum athyglisvert fyrir okkur var hlutdeild norrænna bókmennta eftir miðjan tíunda áratuginn. Næst á eftir enska málsvæðinu var norræna málsvæðið stærst, með um tvo tugi titla á topp 100 þegar mest var. Norrænar bækur náðu raunar yfirhöndinni yfir bækur frá spænskumælandi löndum sem höfðu verið stærsti flokkurin á hæla enskunni á níunda áratugnum þegar suðuramerískir höfundar voru þýddir á þýsku í gríð og erg.

Eins og Halldór Guðmundsson benti á í nýlegri grein í Nordisk literatur og raunar einnig í pistli í Fréttablaðinu má að stórum hluta þakka útflutningsárangur íslenskra bókmennta á síðustu árum þessari þróun. Nú eru hins vegar blikur á lofti, hlutdeild norrænna bóka minnkar nokkuð frá því sem áður hefur verið og það sem er líka athyglisvert er að þýskir höfundar láta nú æ meira að sér kveða og ná meiri árangri, sem er grundvallarbreyting frá því sem var fyrir um áratug síðan þegar þýskar bókmenntir virtust vera í útrýmingarhættu.

Mest selda skáldsaga síðasta árs á þýska málsvæðinu var Die Vermessung der Welt eftir Daniel Kehlmann, sem raunar kom út haustið 2005, en situr sem fastast í toppsæti listans og er raunar mest selda bókin í Þýskalandi í augnablikinu. Bjartur á víst réttinn á henni og gæti vel hugsast að hún yrði neon-bók nú í sumar. Þetta er nokkuð klassísk "þekkingarskáldsaga" af evrópsku gerðinni, söguleg skáldsaga um vísindalega og menningarlega þekkingu og tilurð hennar með hefðbundnum "hvað ef?" snúningi og fjallar um æviskeið tveggja mikilmenna Alexanders von Humbolts og Carl Friedrich Gauss sem voru upp á sitt besta á fyrri hluta 19. aldar.

Magnaðasta forlag þýska málsvæðisins er hið svissneska Diogenes forlag í Zürich sem eftir að hafa hvílt sig aðeins árið 2005 kemur nú sterkt inn og á 8 titla á topp 100 yfir mest seldu skáldverkin og þar munar um að gamli góði bestsellerinn Ilmurinn eftir Süskind seldist aftur í kjölfar bíómyndarinnar sem frumsýnd verður hér í byrjun febrúar (mér var sagt hjá forlaginu að það hefðu selst 30.000 eintök á viku) sem og verk Paolo Coehlos og Donnu Leon.

Arnaldur okkar Indriðason er eina íslenska nafnið á þessum listum, og þarf kannski ekki að koma neinum á óvart. Hann á raunar enga bók á innbundna listanum yfir mest seldu skáldverkin en tvær á kiljulistanum, Engelstimme eða Röddina (44. sæti) og Menschensöhne eða Synir duftsins (62. sæti). Manni finnst þetta næstum sjálfsagt en auðvitað er þetta massaárangur hjá okkar manni. Næst er svo að taka stóra listann!

Sá norræni höfundur sem mestrar hylli nýtur er að sjálfsögðu Mankell. Á innbundna listanum er hann í 15. sæti með bókina um heila Kennedys. Næsti norræni höfundur á þeim lista er síðan Åke Edwardsson í 73. sæti. Næst kemur svo Finninn Ilkka Remes (sem sendi mér eitt sinn eitt furðulegasta kynningarbréf sem ég hef lesið) í 88. sæti og norski spútnikhöfundurinn Per Petterson með sína stolnu klára í 93. sæti. Arne Dahl, dulnefni Svíans Jan Arnalds, lokar svo listanum í 100. sæti. Oft hafa Norðurlandabúarnir verið magnaðri en þetta. Staðan á kiljulistanum er hins vegar betri.

Af 10 mest seldu skáldsögunum í innbundinni mynd er 60% þýtt og 40% þýskt. Bandaríski krimmahöfundurinn Elizabeth George, sem harðir krimmalesendur hér þekkja og hefur ritað mikla seríu um lögreglumann sinn Thomas Lynley, er í 7. sæti. Cecilia Ahern, írska stjórnmáladóttirinn og chick-lit drottningin er í 6. sæti. Donna Leon með sínar Brunetti-sögur frá Feneyjum er í 5. sæti og Frakkinn Francois Lelord er í 4. sæti með þýska þýðingu á enn einni sögunni um stressaða sálfræðinginn Hector, Le Nouveau Voyage d'Hector, ákaflega meginlandsleg skemmtisaga sem ég sæi nú ekki alveg ganga í hérlenda lesendur, fremur en þessi Hectorssería yfirleitt. Síðan er það meistari Dan Brown í 9. og 10. sæti með Engla og djöfla og Da Vinci lykilinn, en Da Vinci lykillinn er raunar mest selda kilja þýska málsvæðisins á árinu 2006 (þ.e. í Þýskalandi, Austurríki og Sviss).

Þjóðverjana á topp 10 þekkir hér ekki nokkur kjaftur en mig langar þó að minnast örfáum orðum á bókina sem er í 3. sæti, Glennkill eftir Leonie Swann. Það er án efa frumlegasti krimmi sem ég hef lesið, bráðfyndin og mögnuð bók sem fjallar um rannsókn írskrar kindahjarðar á morði á sauðamanni sínum. Bókin kom út haustið 2005 og það tók smá tíma fyrir hana að komast í umferð, enda sjálfsagt einn klikkastaði söguþráður sem sögur fara af, en hann gengur upp. Vel skrifuð, meinfyndin og sniðug útfærsla á klassísku efni. Þetta var þriðja mest selda innbundna skáldsaga ársins 2006 á þýska málsvæðinu.

Das war's!


Saga hlutanna

Í dag fengum við gesti og við það tækifæri fórum við eitthvað að tala um húsbúnað, íbúðir og húsgögn eins og oft vill verða nútildags. Sú gjörbylting hefur orðið á háttum okkar að almennt er fólk flinkt í að tala um húsgögn. Því hafði ég aldrei kynnst áður en ég fór til útlanda og hitti fólk sem hrósaði teppum eða skápum eða pennasetti í annarra manna húsum og fannst sjálfsagt að maður áttaði sig sjálfur á slíkum smáatriðum og það sem meira er: kynni að nefna alla hluti. Nú hefur þessi siðmenningarhluti sótt okkur heim. Það er til hugtak á þýsku um þessa þróun: Zivilisationsprozess. Nú heitir stóll ekki lengur stóll og borð ekki lengur borð, heldur bera hlutirnir heiti skapara sinna. Athugulir skoðendur samfélags okkar og lifnaðarhátta hafa stungið niður penna og lýst stuttlega þessari breytingu, ég nefni til að mynda frumraun Eiríks Guðmundssonar 39 þrep á leið til glötunar (bls. 92), þar sem segir:

Annar hver Íslendingur virðist standa í því að gera upp íbúð eða hús. Þegar tveir menn tóku tal saman undir húsvegg um það leyti sem ég gekk af göflunum var ekki lengur rætt um verðbréf eða fjárfestingarmöguleika, eins og gert hafði verið fáeinum misserum fyrr. Þess í stað töluðu menn fjálglega um gljástig og dúkkuhús í Skerjafirðinum, fljótandi parkett og notuðu allskyns orð sem þeir höfðu lært af Friðriki Weisshappel í sjónvarpinu.

Þessar línur voru skrifaðar árið 2004; og það sést. Frikki Weiss hefur ekki lengur neitt að segja um húsbúnað á Íslandi, hann er kominn í annað stjarnkerfi. Þannig æðir sagan áfram og okkur finnst umræða, þráhyggjur og þekktir einstaklingar sem efst voru á baugi fyrir aðeins rétt rúmum tveimur árum tilheyra furðulegri og grárri fortíð. Gummi Steingríms velti þessu fyrir sér í pistli sínum í Fréttablaðinu nú um helgina og dró að sjálfsögðu af þessu pólitíska ályktun, enda í framboði, en það sem þetta segir okkur í raun og veru, er að þótt langbylgjur sögunnar séu ekkert að kippa sér upp við þessa skammtímagleymsku og sendi áfram út á sinni tíðni, finnst okkur sem lendum í öldusveiflunum að við missum stöðugt takið á sögu okkar sjálfra. Við sem ræddum húsbúnaðinn reyndum að muna eftir hvort til væri lífstílsbiblía, húsbúnaðarsaga eða myndskreytt saga hlutanna sem okkur voru kærir, en gripum í tómt.

Hugarfars- og hversdagssagan sem reið hér húsum fyrir tveimur áratugum eða svo og var fyrir einhverju síðan allsráðandi í lokaverkefnum sagnfræðinema virðist ekki hafa skolað slíkum ritum á land. Það fer hins vegar ekki framhjá neinum sem fylgist með útgefnum bókum um allan hinn stóra heim að þessi rit koma þar út í löngum bunum. Bækur sem gætu heitið Saltstaukurinn og púrran: Líffræðibyltingin og útþensla verslunarflota N-Evrópu eða Kaffibaunin og heimsvaldastefnan eða þá Í annarra skóm - heimsviðskipti með iðnaðarvörur á 19. öld eða eitthvað þvíumlíkt. Okkar eigin hlutir eru hins vegar mállausir. Í staðinn fáum við sögur af pólitík kaldastríðsins (ekki að ég sé að sýta það svo sem) eða enn eina ævisögu kalls sem uppi var um aldamótin 1900. Saga hlutanna, sem er kannski eina sagan sem við hlutgervingarsinnar getum kallað okkar, er óskrifuð með öllu og við glutrum henni niður jafnóðum því við gleymum svo hratt og lærum svo mikið. Árið 2002 eða jafnvel árið 2004 kunnum við ekki öll þess orð yfir stóla og borð, glös og lampa. Já, var það ekki árið 2001 að við gátum borðað á Rex sem var hannaður af Conran og farið á skemmtistað hannaðan af Michael Young (hvað sem sá staður hét nú). Hvað varð um þær innréttingar? Þeim var bara hent. Bók sem sýnir veitingahús og bari árið 2001 væri hreinlega að sýna forna atvinnuhætti, horfna dýrð!

Og þar sem við sýttum þetta hvarf mundi ég eftir svolitlu. Eftir krókaleiðum áskotnuðust mér nefnilega nokkrar bækur úr dánarbúi frænda míns á Króknum fyrir stuttu. Ein þeirra er svolítið fágæti. Þessi frændi minn var sérvitur en sniðugur kall, húsasmiður sem kom undir mig fótunum sem frímerkjasafnara og bókbindara hér á bernskuárum og hafði á sínum tíma af einskærum áhuga orðið sér út um bókina Íslenzk íbúðarhús sem AB sendi frá sér árið 1959. Nokkur lífstílsblöð hafa gert þessum helsta vitnisburði módernískra lifnaðarhátta upp úr miðri 20. öld góð skil, þannig að það má vera að lesendur kannist við gripinn. En hinum skal sagt að þetta er einskonar Innlit/Útlit síns tíma, bók sem sýnir innréttingar og útlit valinna húsa í Reykjavík og nágrenni og tjá anda nútímalegra lifnaðarhátta. Þetta er sannkölluð lífstílsbiblía borgaralegs módernisma, innblástursuppspretta fyrir alla sem vilja vitna til stíls þessara ára. Það má þakka fyrir hana.

Þegar gestirnir voru farnir hélt ég áfram að blaða og fann bók sem ég keypti í Svíþjóð einhvern tíma og er skemmtileg saga af hlutum: Þetta er saga af vörumerkjum sem fóru í hundana, þrátt fyrir að hafa verið vinsæl um tíma: Betamax, töfrateningurinn ... Einstaklega líflega skrifuð bók þar sem iðnframleiðsla og spenna renna saman í eitt. Flip eller flopp? Om misslyckandets dynamik heitir hún og er eftir Lars Strannegård. Fremst í henni er tilvitunun í Bruno Latour:

NOTHING SUCCEEDS LIKE FAILURE.

 


Bloggfærslur 8. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband