16.1.2007 | 23:03
Rafrænn pappír á leiðinni
Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem fylgst hefur með bókaútgáfu á síðustu árum að ýmiss konar tækninýjungar knýja nú á dyr hefðbundinnar útgáfu, prentunar og framleiðslu bóka. Margskonar tæki hafa komið fram á síðustu 10 árum sem hugsuð hafa verið sem rafræn lestrartól en ekkert þeirra hefur náð fótfestu. Sala rafrænna texta hefur því ekki vaxið nándarnærri eins hratt og haldið var fyrir áratug síðan, en það er ljóst af tíðum fréttum úr herbúðum rafeindafyrirtækja að brátt verða útgáfufyrirtæki að bjóða upp á rafrænar vörur í miklu úrvali.
Sony Reader kom á markað vestanhafs og í Japan á síðasta ári. Það er samdóma álit að þar sé á ferð besta tækið til þessa. Skjárinn er af nýrri kynslóð rafræns pappírs sem lesa má jafnt í dagsbirtu sem myrkri. Rafhleðslan er þannig gerð að tækið eyðir einungis straumi við flettingar, þess vegna er afkastageta þess mæld í flettingum, og það má hlaða allmiklu textamagni inn á það, eða sem samsvarar hundruðum hefðbundinna textatitla. Gagnrýnendur eru hins vegar á þeirri skoðun að gagnvirkir notkunarmöguleikar séu alltof takmarkaðir til þess að tækið nái verulegri fótfestu. Þessi skoðun endurspeglar vel væntingar neytenda til slíkra tækja. Einfaldur lestur er í raun ekki það sem við höfum vanist af lestrartækjum, heldur viljum við "vinna með textana". Fræðikenningar millitextafræðinga síðustu áratuga virðast einfaldlega vera réttar. Um leið og við hættum að skynja texta sem lokaða einingu á milli bókarspjalda missum við "virðinguna" fyrir þeim. Þeir breytast í gangvirka upplýsingaveitu sem á að vera okkur til framdráttar við "vinnu" okkar. Þeir "framleiða aðra texta" og framleiða um leið okkur sjálf, sem er í anda þeirrar menntunarhugsunar sem er efst á baugi í upphafi þessarar aldar og gengur út á samþættingu sköpunar og rannsókna við framleiðslukerfi markaðssamfélagsins. Það er í senn heillandi og óhugnanlegt að sjá fram á þetta, ekki síst vegna þeirrar tilhneigingar allra sem umgangast rafræna texta að líta svo á að enginn eigi að fá greitt fyrir að hafa búið þá til.
Nú berast fréttir af því að þessar spírur sem vitað hefur verið af undanfarin ár, til dæmis hugmyndin um rafpappír sem ekki er studdur af tæki, en getur einn og óstuddur birt lesmál, eru að vaxa og verða að alvöru iðnframleiðslu. Þann 3. janúar tilkynnti fyrirtækið Plastic Logic að það hyggist byggja fyrstu rafpappírsverksmiðju sína í Dresden. Fyrirtækið er dæmigert þekkingarþorpsfyrirtæki, sprottið úr samþættingu háskólarannsókna og praktískra lausna, stofnað í Cambridge árið 2000 af fólki sem vann við Cavendish-rannsóknarstöðina í eðlisfræði. Þar á bæ þróuðu menn þunn blöð, jafn þunn og meðfærileg sem alvöru gamaldags pappír, sem tengd eru við rafhlaðna smágræju og getur geymt þúsundir og milljónir blaðsíðna. Plastic Logic mun ekki framleiða fyrir neytendamarkað, en verða birgir fyrir stóra iðnframleiðendur sem geta notað rafpappírinn í vörur sínar, t.d. Sony, en einnig mun Amazon vera áhugasamt um málið.
Með stórvirkri fjöldaframleiðslu á rafpappír mun kostnaðurinn við rafræn lestrartæki snarlækka á næstu árum og fyrir vikið auka á þörfina á að hafa rafbækur á boðstólum. Fyrirtækið hefur aflað yfir 100 milljóna bandaríkjadala í hlutafé og er í eign fyrirtækja á borð við Intel, BASF og Bank of America. Þetta er því ekkert grín. Saxland og höfuðborgin Dresden hafa á undanförnum árum þróast yfir í að verða öflug miðstöð fyrir hátækniðnað, enda rík hefð fyrir fíniðnað á þeim slóðum og þar var hjarta iðnframleiðslu gamla A-Þýskalands. Gott skattaumhverfi og sterkur þekkingariðnaður hafa skapað það sem kallað er í gamni "sílikon-Saxland" í þýskum fjölmiðlum. Áætluð framleiðslugeta verksmiðjunnar er 1 milljón stykki rafskjáa á ári. Framleiðsla hefst árið 2008. Plastic Logic gerir ráð fyrir að 40 milljón einingar af rafpappírsskjám verði í umferð árið 2010.
Það eru þrjú ár þangað til.
Bækur | Breytt 17.1.2007 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2007 | 00:37
Staða skáldsögunnar?
Í sveitinni er ekkert Fréttablað og helgarmogginn kemur ekki fyrr en með póstinum seinnipartinn á mánudögum svo ég sá ekki helgarblöðin fyrr en ég kom í saltslabbið og heiðríkjuna í höfuðborginni. Það vakti strax athygli mína að á útsíðu sunnudagsblaðs Fréttablaðsins stóð að þar væri að finna fyrstu grein af þremur um stöðu íslensku skáldsögunnar. Það vakti líka athygli mína að uppistaðan í fyrstu lotu var opnuviðtal við rithöfund sem ég held að komi fæstum í hug þegar minnst er á "skáldsöguna", jafnvel ekki "íslensku skáldsöguna", en tel að hér sé um að ræða bragð að hálfu blaðsins. Það á að fá okkur til að hugsa um möguleika og þanþol formsins: ekkert er sjálfgefið.
Umfjöllunarflokkurinn hófst því á viðtali við rithöfundinn og leikskáldið Jón Atla Jónasson og smáspjalli við gagnrýnandann Þórdísi Gísladóttur sem einnig er ritstjóri tímaritsins Barna og menningar. Bæði vel gefin til munns og handa, en hvað höfðu þau nýstárlegt fram að færa um "stöðu skáldsögunnar"?
Jón Atli Jónasson setti sig í "jaðarstöðu", ef svo má að orði komast, og varði með orðum sínum, en kannski frekast með lestrarlistanum sem hann rétti okkur (Eiríkur Guðmundsson, Steinar Bragi, Oddný Eir Ævarsdóttir - Bjartur rules!) hugmyndina um skáldsöguna sem form rannsóknar og leitar handan við "hefðbundin" og "gefin" frásagnarlögmál. Sem dæmi um slíkt steinrunnið form nefndi hann blessaða glæpasöguna og kom reyndar með einn ágætis punkt sem snýst um réttlætingu formsins gagnvart mögulegri ákæru um gagnsleysi, nokkuð sem er nánast innbyggt í samtímaumfjöllun listamanna um sjálfa sig og sín verk og er rannsóknarefni í sjálfu sér: Ef glæpasagan er merkileg vegna þess að hún fjallar um kjör útlendinga á Íslandi, af hverju skrifa menn þá ekki bara um Pólverja og sleppa morðinu, eltingarleiknum og "Fundinn!" í lokin? Hér hitti Jón Atli á veikan blett.
Hvort hér sé hins vegar um að ræða mjög nýstárlegan fréttaflutning af stöðu skáldsögunnar er annað mál. Ríkuleg og flókin hefð hins opna verks sem bregst oft ofsafengið við kröfunni um endurvarpsstöðu listarinnar er orðin löng, vörðurnar á leiðinni eru margar. Ef við skrælum allt af ummælum Jóns Atla (þegar höfundar fara að tala um upplagstölur og rómantísera starfsgrundvöll sinn, þá er staða skáldsögunnar komin út á hálan ís) þá stendur þetta eftir: Jón Atli heldur fast við módernískan listskilning eins og hann birtist okkur í samanlagðri sögu þeirrar fagurfræði, allt frá rómantík yfir Adorno til póststrúktúralistanna "and beyond": Listaverkið verður ekki umritað á annað snið, það skreppur undan "hugtakinu". Innihald er ekki óbundið "efni" sem finna má form eftir hentugleikum, heldur verður skáldverkið til "í forminu". Skáldverkið er leit að formgerð tungumáls og er gagnrýnið á hefðbundnar framsetningarleiðir og hugmyndafræði þess að hægt sé að heimfæra veruleikann í 1+1 formi upp á listaverkið. Thor hefði getað sagt okkur þetta. Hannes Sigfússon hefði getað sagt okkur þetta. Og báðir hefðu getað sagt okkur þetta árið 1953.
Ég held nefnilega að þetta sé aðeins snúnara nú á nýrri öld. Ef sjálfvirk svör standardíseruðu skáldsögunnar (þ.e. glæpasögunnar) hafa ekkert gagnrýnið gildi, af hverju ætti okkur ekki bara að standa á sama, ef það er ekki ljóst hvert hið gagnrýna gildi hinnar tegundarinnar af bókmenntum yfirleitt er? Eða á mannamáli: Sögugerðin sem Jón Atli teflir fram á sér enga réttlætingu nema í "heiðarleikanum", eins og hann kallar það, en hvaða siðferðiskerfi verður Jón Atli fyrst að selja lesendum sínum til að þeir kaupi þennan "heiðarleika"? Hættan við framlengingu hinnar módernísku listar er einmitt að "heiðarleikinn" fer að virka fóní. Tilgerð og heiðarleiki geta nefnilega alltof oft verið samnefnarar. Hvenær veit ég að heiðarleiki er sannur? Hver sannar hann fyrir mér? Við erum stödd andspænis samfélagslegum samkomulagsatriðum, "leikjum" eins og það hét í póstmódernistafræðunum. Um leið erum við komin á svið þar sem ekki er hægt að fella fagurfræðilega dóma. Ég er að minnsta kosti ekki á því að þeir eigi að byggjast á siðfræði, en þar eru svo sem ekki allir sammála mér.
Ég er nefnilega aðeins skúffaður með þetta framtak Fréttablaðsins. Mér finnst það því miður hálf klúðurslegt. Blaðið ætlar ekki sjálft að segja neitt, en etur "viðmælendum" á foraðið nánast athugasemdalaust og aðrir, eins og ég, verðum að reyna að átta okkur á hvernig viðtölin ganga í samband við "stöðu skáldsögunnar". Við verðum að lesa viðtölin eins og rabbínar að túlka Talmúd, því "staða skáldsögunnar" er aðeins lausleg hugmynd sem kastað er fram. Staða íslensku skáldsögunnar kemur áreiðanlega jólavertíðinni, sölutölum og "heiðarleika" við, en mig grunar að henni sé betur lýst ef þessu er sleppt, eða horft í gegnum það, og það er hlutverk blaðsins og blaðamanna þess. Þeir halda sig hins vegar í myrkrinu. Og þarna í myrkrinu er líka einhvers staðar staða íslensku skáldsögunnar.
Bækur | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)