Bækur vikunnar

Bækur vikunnar eru án efa tvö eðlisólík rit sem óvænt voru spyrt saman á vefsíðunni Múrinn: Stelpan frá Stokkseyri - Saga Margrétar Frímannsdóttur eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur (Hólar 2006) og Myndin af pabba - Saga Thelmu eftir Gerði Kristnýju (Vaka-Helgafell/Edda 2005).

Undarlegt samband þessara bóka fór raunar leynt þangað til að Björn Ingi Hrafnsson, höfundur bókanna Barist fyrir frelsinu (Vaka-Helgafell/Edda 2002) og Fram í sviðsljósið - Endurminningar Halldórs G. Björnssonar (Mál og menning/Edda 2001), dró það fram í sviðsljósið og benti á hve skrítið það væri að heimfæra æviminningar stjórnmálamanns upp á frásögn konu sem alla sína bernsku þoldi kerfisbundna kynferðislega misnotkun og raunar einnig vændissölu af hálfu föður síns.

Þetta er pólitískt mál að sjálfsögðu. Það var hjólað í Múrverjana á flokkspólitískum forsendum og þannig spinnst umræðan áfram. Málið er þó líklegast fyrst og fremst kynjapólítískt, og umræðuhefð okkar virðist vanbúin til að takast á við slíkt.  Annars vegar er eins og fólk sé ekki í stakk búið til að átta sig á að frásögn Thelmu af lífshlaupi sínu og systra sinna er saga af valdmisbeitingu og blindu umhverfisins á hefðargildi þess valds, vanburði þess til að draga vald fjölskylduföðursins í efa. Hins vegar er frásögn Margrétar af klassískum kynjaátökum með sínum illhöndlanlegu eineltisstrúktúrum, mismunandi átakamenningu og erfiðleikum við að umkringja og einangra deiluefni eftir hvar í kyni er staðið afgreidd sem væl eða þá glaðhlakkalega sem réttlátur dómur yfir óvininum. Pólitíkin utan flokksmyndarinnar hverfur.

Ég hef áður viðrað það hér á síðunni að bækur séu firnasterkur fjölmiðill sem brjóti mót hefðbundinnar framsetningar á umfjöllunarefnum dægurmiðla. Bók þar sem reifuð væri stjórnmálasaga síðustu áratuga sem barátta um fjölskyldugerðir, kynjavald og sjálsákvörðunarrétt einstaklingsins andspænis hefðum og fordómum: Er ekki kominn tími á þannig rit?


Bloggfærslur 10. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband