22.12.2006 | 22:24
Áramót bókaútgáfunnar
Á miðnætti á Þorláksmessu lýkur bókaflóðinu. Þá er rennslið komið úr 700 rúmtitlum á sekúndu niður í eðlilega bókabunu og fólk getur gengið þurrum fótum yfir lækinn. Það má líkja þessu við vínuppskeru. Búið að tína þrúgurnar, pressa og gerja og setja á flöskur og nú má taka tappann úr. Vínsmakkarar hafa ferðast um sveitir með skrifblokkir og bragðlaukana vafða inn í loftbólupappír til að halda þeim frá hroðanum á meðan bragðað var á því helsta úr þessum árgangi: næturfrost snemma í september skemmdu krimmauppskeruna en fræðabókaekrunar nutu þess að borið var á þær snemma.
Sjálfur hef ég verið að stelast í ungvínin og fundið hitt og þetta til að smjatta á þótt ég sé raunar alltaf spenntastur fyrir óvæntum uppákomum í smakkmálum. Í ár er mikið framboð af bókum í flokknum "almenn rit", sumt af því gefið út í litlu upplagi fyrir fámennan hóp og algerlega án markaðsvinnslu og þessi skortur á kynningu dregur mig að þessu efni fremur en hitt. Til dæmis greinasafn um Brynjólf Skáholtsbiskup Sveinsson. Sérlega áhugverðar eru líka útgáfur Söguspekingastiftisins sem eru endurútgáfur gamalla prentaðara bóka (oftast reyndar) og fallegur vitnisburður um útgáfusögu okkar en innan fárra áratuga stendur íslensk prentsaga á hálfu árþúsundi.
Línur á markaðnum skýrðust nú í vikunni þegar Morgunblaðið birti sölulista Félagsvísindastofnunar. Ekki eru reyndar allar bókabúðir þar í hópi og sjálfsögðu hvorki bókaklúbbar né forlagssala, sem getur verið gríðarleg á þessum árstíma. En þarna eru allir stóru útsölustaðirnir og í raun öll almenn bóksala í landinu representeruð. Það er forvitnilegt að skoða þessa lista og mynstrið sem teiknast þar upp og nauðsynlegt fyrir þá vilja átta sig á útgáfulandslagi samtímans, smekk almennings og straumum og stefnum. Hér er smá bókhald yfir fyrirferð einstakra útgefenda á listanum. Tekið skal fram að það eru 50 sæti í boði í flokkunum: Íslensk og þýdd skáldverk, Íslensk og þýdd ljóð, Íslenskar og þýddar barna- og unglingabækur, Almennt efni og handbækur og Ævisögur og endurminningar:
- Edda útgáfa - 17 sæti
- JPV útgáfa - 15 sæti
- Bjartur - 4 sæti
- Útkall - 3 sæti
- Hólar - 2 sæti
- Nýhil - 2 sæti
- Hagkaup - 1 sæti
- Setberg - 1 sæti
- Skjaldborg - 1 sæti
- Skrudda - 1 sæti
- Tindur - 1 sæti
- Uppheimar - 1 sæti
- Veröld - 1 sæti
Séu listarnir skoðaðir á þennan hátt sést að Edda og JPV bera höfuð og herðar yfir önnur útgáfufyrirtæki landsins á þessum vettvangi, og raunar er komið upp einskonar tvegga turna tal á jólamarkaði. Sé Bjartur undanskilinn nær samanlagður titlafjöldi allra hinna útgáfanna samt ekki að komast upp fyrir titlafjölda JPV. Sé aðallistinn skoðaður er hlutfallið í raun það sama. Þar er Edda með 5 titla, JPV með 3, Hagkaup 1 og Útkall 1. Þess ber náttúrlega að geta að Hagkaup er með mest seldu bókina þessi jólin, en Hagar lögðu gríðarlega áherslu á það að vera jafnfætis öðrum útgáfum í slagnum, þ.e. hvað varðar aðgengi allra neytenda að vörunni, og komu bókinni í sölu hjá Pennanum. Hef hins vegar ekki séð Eftirréttina í Bónus eða Krónunni. Sjálfsagt er árangur Útkalls á jólamarkaði merkilegastur. Mér telst til að þeir hafi gefið út þrjár bækur og þær er allar að finna á listunum. 100% árangur! Veröld getur líka verið tölfræðilega kát, útgáfan gaf út þrjár bækur í haust og er því samkvæmt þessu viðmiði með 33% árangur!
Mér sýnist að til að bók mælist á topp tíu á þessum lista verði hún að vera komin að minnsta kosti yfir 5000 eintök í dreifingu og "vera á skriði" eins og sagt er. Ég býst við að Hagar hafi prentað Eftirréttina í um 15.000 eintökum, kannski meira. Arnaldur var prentaður í 20.000 eintökum ef talin er með trade paperback útgáfa fyrir Leifsstöð. Ljósið í Djúpinu eftir Reyni Trausta var prentuð í 12.000 eintökum og er búin á lager útgáfunnar, sem er raunar með því mesta sem ævisaga hefur selst á seinni árum. Útkallið er á svipuðu róli, þetta 10-12.000 eintök; ferill þeirrar útgáfu er orðinn sérkafli í íslenskri útgáfusögu, stórmerkileg röð og ótrúlegar viðtökur, Óttar hlýtur að fara að fá orðu bráðum. Skipið eftir minn gamla góðvin Stefán Mána er eitthvað í kringum 10.000 eintökin að mér skilst sem er meiriháttar árangur hjá honum og skilar honum í nýtt tíðnisvið í stjörnukerfi íslenskra rithöfunda og Eragon lika, aðrir minna eins og sagt var í spurningakeppnunum hér í gamla daga. Þetta minna er á bilinu 8000-5000 eintök. Svo má náttúrlega ekki gleyma því að Draumaland Andra Snæs var uppselt þegar vertíðin byrjaði og þá voru búin 17.000 eintök. Hátíðarútgáfan er 1.000 eintök og mér skilst að hún hafi tekið vel við sér og klárast af lager. Það þýðir náttúrlega að Draumalandið er næst mestselda bók ársins 2006.
Þetta er massasala "by any standards" eins og útlendingurinn segir. Íslensk bókaútgáfa er í rokna gír þessi jólin.
Bækur | Breytt 23.12.2006 kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2006 | 00:09
Stórbrotinn útgefandi í stappi við fjármagnseigendur
Eitt helsta mál útgáfubransans í hinum enskumælandi heimi um þessar mundir eru átök forlagsstýrunnar Judith Regan og yfirmanna hennar í fjölmiðlaveldi Roberts Murdochs; hinn misþokkaði útgáfukóngur þar með talinn. Þótt Regan sé ekki þekktur persónuleiki í hérlendum fjölmiðlakreðs hefur hún að mati jafnt hatursmanna og viðhlæjenda verið einn aðsópsmesti útgefandi Bandaríkjanna mörg undangengin ár og þokað þeim bransa enn lengra upp í kjöltuna á sjóbissnessinum og skandalpressunni en áður var talið gerlegt.
Fyrir tveimur árum innsiglaði hún tengsl þessa tveggja stólpa menningariðnaðarins með því að færa útgáfu sína, Regan Books, til Los Angeles frá New York, en þar er eins og kunnugt er miðstöð bókaútgáfu í Bandaríkjunum. Þetta imprint hefur verið sterk tekjueining innan HarperCollins útgáfunnar og hún hefur notið sérstakrar náðar í News Corp.-veldinu sem góðvinur Róberts sjálfs og fengið að valsa um allar hunda og katta grundir með tékkheftið. Hún er heilinn á bak við bækur á borð við How To Make Love Like A Porn Star, æviminningar Jennu Jameson, og hún kom auga á útgáfupótensíal Michaels Moores áður en hann trylltist yfir ritskoðun Regan Books (forlagið gerði ítrekað kröfur um endurritun á viðkvæmum post 9/11 köflum eins og MM reifar í formála sínum að breskri útg. Karlanna) á Heimskum, hvítum körlum og fór yfir á Time Warner (sem nú er reyndar orðið franskt fyrirtæki, þannig að Moore er nú gefinn út af Evrópumönnum; hefnd heimsvæðingarinnar). Hún gerði líka útgáfusamninga við útvarpsmanninn Rush Limbaugh sem skrifaði tvær bækur um ævi sína og skoðanir snemma á 10. áratug 20. aldar, The Way Things Ought To Be, og I Told You So sem báðar komust í efsta sæti metsölulista NYT. Frá Regan Books hefur komið mikill straumur metseldra frægðarmennabóka og útgáfukatalóginn er í senn furðulegur og frumlegur, kaffiborðsbækur eftir fræga innanhússhönnuði innan um dramatískar skandalsögur og afhjúpanir, íþróttabækur eins og Kanar eru svo hrifnir af og svo patríótískar stríðsbækur í bland við hreinræktaða trylla.
En nú "skeit hún upp á bak" eins og Gillzenegger hefði orðað það. Bókin How I Did It, sem O.J. Simpson ritaði í félagi við draughöfund og fjallaði um hvernig hann hefði hugsanlega ráðið sáluga eiginkonu sína og ástmann hennar af dögum, þótti fara yfir mörk velsæmisins auk þess sem málsóknir af hálfu ættingja hinna látnu blöstu við. Murdoch þvoði hendur sínar, stöðvaði útgáfuna, rifti samningum og rak síðan frú Regan í lok vinnudags föstudaginn 16. des. Nú hefur lögfræðingur Regans boðað málsókn á hendur HarperCollins og News Corp. fyrir meiðyrði, en að sögn talsmanna HarperCollins á Regan að hafa sagt útgáfustjóra HarperCollins, Jane Friedmann, og fleiri gyðingættaða starfsmenn útgáfunnar hafa blásið til "júðsks samsæris" gegn sér. Judith blessunin á sér fáa fylgismenn á þessum erfiðu tímum því ekki hefur vantað á henni kjaftinn og hún látið flest flakka um kollegana og hina ölluráðandi agenta í áranna rás.
Án efa er það einhver snarbilaðasta útgáfuhugmynd allra tíma að fá mann sem sýknaður var í réttarhöldum af morðákæru til að skrifa bók um það hvernig hann hefði getað framið morðin. Og ekki nóg með það: Hún kom líka tveggja þátta sjónvarpsprógrammi um sama mál á koppin og var víst búin að landa kvikmyndaréttinum líka. Ég sæi íslenska útgefendur vera búna að blása í flesta sína herlúðra til að tilkynna slíka alslemmu í afleiddri réttindasölu. En þetta var of mikið fyrir fólk og nú veit enginn hvað verður um Regan Books. Kannski er það líka áminning um að fara varlega í nefna fyrirtæki í höfuðið á sjálfum sér. Enginn ræður jú sínum næturstað.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)