Nóttin var sú ágæt ein

Það er langt síðan fólk hætti að gefa mér bækur í jólagjöf. Ég tók eina bók upp úr bréfi vegna þess að ég hafði keypt hana sjálfur fyrir fé frá ömmu minni. Sonur minn fær heldur engar bækur. Huguð góðvinkona hans gaf honum þó Einar Áskel og sem betur fer vantaði hana í safnið. Fólk gerir ráð fyrir að maður eigi allar bækur sem er náttúrlega ekki satt. Mig langar enn í fullt af bókum en það eru yfirleitt fræðibækur sem maður rekst á þegar blaðað er í Bókatíðindum og aldrei eru auglýstar. Þá hefur maður sterklega á tilfinningunni að maður sé að uppgötva eitthvað nýtt.

Það var því ekkert "þú sofnar seint um þessi jól!" hjá mér en um miðja jólanótt vaknaði ég við að tunglið skein framan í mig. Það stóð hátt á vesturhimni, lýsti upp Faxaflóann svo björt röst náði frá glerveggnum í stofunni út að Garðskagavita og nokkrar skýjalufsur sem rak úr suðri gerðu birtuna síst minni, juku aðeins á dularáhrifin. Reykjaneskaginn og fjallaröðin frá Vífilfelli út að Keili var uppljómuð nema hvað kólgubakki teygði sig yfir Sveifluháls eins og grá krumla. Þetta var veður eins og þau sem búa í rómantískum kvæðum eftir Uhland eða Goethe á hans dulmagnaðasta skeiði. Kastali stendur á hamri hátt en helsærður riddari æðir á fáki gegnum skóginn í tunglsbirtunni í kappi við vættir og ógnir. Hann nær fundi sinnar elskuðu en dreyrinn drýpur úr brynju og kastalafrúin reikar æ síðan um skógana og vei þeim sem á vegi hennar verða. Þetta er nótt eins og í sögu eftir Tieck, eins og í Rúnabergi, þar sem óendanlegir villiskógar og hrikalegir hamrar bergja tælandi dísir og eðalsteina sem kasta ævilangri bölvun á hver þann sem villist inn í þeirra seiðhjúp. Að baki öllu þessu ólgar eitthvað heitt og dimmt: Hræðilegt ósegjanlegt leyndarmál sem vafið er í hjúp ævintýris og næturljóða. Eckbert der Blonde, Eggert Glói, geymir skelfingu sifjaspells og svika í blóðinu. Álfareið Goethes fjallar í grunninn um óttann við skelfingar barnamisnotkunar og hina óútskýranlegu illsku níðingsins sem reikar um skóginn í leit að barnungum drengjum.

Þessi ægifagra og ógnblíða sjón fékk mig þó að endingu til að vinda mér nokkrar aldrir aftur fyrir rómantík, að jólabókinni minni. Hún er nýútkomin og geymir safn ljóða Einars Sigurðssonar frá Eydölum í Breiðdal (1539-1626), sem raunar var norðlenskur, alinn upp í Aðaldal og eyfirskrar ættar. Hún er að sönnu ekki ein af hinum miklu jólabókum ársins og kannski svolítið hörð undir tönn, því flest kvæðin geyma óblandaða lúterska kenningu eins og hún var kennd af siðbreytingarfrömuðum. En Einar á raunar eitt "hitt", Nóttin var sú ágæt ein, sem að sönnu er enn sungið og á allra vörum, svo að hann er áreiðanlega fjörugri sem skáld en margur annar. En mörg kvæða hans eru hrein áróðurskvæði, til að mynda lofgjörð hans um gæði Íslands, sem hljómar eins og nýársávarp forseta Íslands, til að mynda telur Einar Ísland standa Indíalöndum miklu framar um öll heimsins hnoss. Erindi kvæðisins er að steypa saman vegferð Íslands og vegferð lútersks siðar, þetta tvennt haldist hönd í hönd báðum til hagsbóta. Ég mæli hins vegar óhikað með bókinni, eins og ritdómararnir segja. Hún er til fyrirmyndar hvað varðar frágang á kvæðum fyrri alda vegna þess að útgefandinn, sveitungi minn og nafni, Kristján Eiríksson, heldur í senn í talsverða textafræðilega nákvæmni, um leið og hann ofgerir henni ekki í framsetningu, kvæðin eru stafsett upp á nútíma vísu, en mikið apparat í bókarlok sýnir hvaðan þau koma og þar geta menn kafað ofan í bókstafinn. Stuttur og snarpur inngangur segir svo það sem segja þarf um Einar og hans ævi. Miklar útleggingar á textunum er hér hins vegar ekki að finna og það ætlar Kristján öðrum. Þrátt fyrir að við teljum okkur flest trúuð erum við hins vegar börn í guðfræði. Við skiljum ekki upp né niður í því sem fram fer í þessum textum, og samt er það okkur í raun alls ekki framandi, heldur einmitt mjög nálægt, ef við tækjum lúterska trú okkar alvarlega og settum okkur inn í þær forsendur sem liggja lútersk-evangelísku þjóðkirkjunni okkar til grundvallar. En þar með er ekki sagt að það breyti neinu, ekki líður fólk fyrir þennan skilningsskort svo sem. 

Á síðustu áratugum 19. aldar og í upphafi 20. aldar snerist útgáfa á Íslandi og á íslensku í Kaupmannahöfn að talsverðu leyti um að koma handritaforða þjóðarinnar á þrykk. Síðan hrakaði þessu aftur og útgefendur sem voru í sviðsljósinu voru þeir sem töluðu til hins almenna markaðar. En áhugi þeirra sem voru á snærum hins opinbera á því að umporta handritum virtist líka dofna og textaútgáfur voru fáar og langt á milli þeirra. Prentkostnðar- og menntabylting samtímans hefur síðan snaraukið þessa útgáfu að nýju og síðasta áratuginn eða svo hafa komið út nokkrar bækur á ári sem geyma áður ótútgefna texta á íslensku. Þetta hefði einhvern tíma þótt merkilegt en nú finnst okkur þetta sjálfsagt. Það er veruleiki útgáfunnar í dag. Menningarverðmæti eru afstætt hugtak og útgáfan ein sog sér breytir ekki mynd okkar af fortíðinni. Það þarf meiriháttar markaðsátak til þess, áróður eins og þann sem siðbreytingarmennirnir höfðu uppi og náðu fyrir vikið að setja mark sitt á íslenska menningu fram til þessa dags. Trúarumræða dagsins í dag stendur í skugganum af siðbreytingunni: Sá sem er á móti kirkjunni er jafnframt á móti ríkinu og grunnskipan veraldarinnar. Þannig hefðu Einar Sigurðsson, Guðbrandur, Ólafur frá Sauðanesi, Arngrímur lærði og hinir Hólamennirnir séð það. Það er því hressandi fyrir alla þá mörgu sem finnst nú "vegið að grunngildum þjóðarinnar" að taka sér þessa bók í hönd og lesa um náðarverk heilags anda, þakklætisvísur fyrir stórvirki endurlausnarans og erfðasyndina sem blóð Kristí þvær okkur af sem og fórnardauða frelsarans sem gerir okkur hólpin ef aðeins samviskan er nógu mjúk og móttækileg á iðranina. Allt þetta og miklu fleira í næstu bókabúð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband