Hverjir eru að selja?

Listi Félagsvísindastofnunar um bóksölu síðustu viku var birtur í Morgunblaðinu í morgun, síðasti listi fyrir lokun markaða á sunnudagskvöld. Hann er því ráðgefandi um þessa síðustu daga jólasölunnar.

Að venju eru 50 sæti í boði, raunar 51 sæti að þessu sinni, því tvær bækur skipta með sér 10 sæti barnabókalistans, hafa verið hnífjafnar. Flokkarnir eru: Íslensk og þýdd skáldverk, Ljóð, Íslenskar og þýddar barnabækur, Almenn rit og Ævisögur.

Samkvæmt listanum er Forlagið, hin sameinuðu JPV útgáfa og Eddu útgáfa, með 7 titlum færra á listnum nú miðað við samanlagðan titlafjölda fyrirtækjanna í fyrra. Í fyrra voru þessi tvö fyrirtæki með samtals 32 sæti á listanum. Nú er Forlagið með 25 titla, eða helming allra mest seldu bókanna. Miðað við umfang fyrirtækisins er það fullkomlega eðlilegt og í samræmi við samlegðaráhrifin sem vænta mátti. Óhætt er að fullyrða að ekkert íslenskt forlag hafi nokkurn tíma haft svo sterka stöðu. Næst á eftir er hitt sameina fyrirtækið Bjartur/Veröld með 7 titla en var með 5 í fyrra samanlagt. Frá báðum þessum forlögum koma þær fréttir að salan sé með eindæmum góð í ár og öll strik beina leiðina upp. "Hástökkvari ársins" er svo án efa Salka, sem nú er með 3 bækur á topp 50 en var með enga í fyrra. Leyndarmálið eftir Rhondu er til að mynda ein mest selda bók ársins og Salka hefur náð góðum árangri með Postulín Freyju Haraldsdóttur og Ölmu Guðmundsdóttur auk þess sem Skáld Rósu saga séra Gísla Kolbeins mælist á lista.

En ef sameinað Forlag er með 7 færri titla á listum í ár og ef B/V er með 7, s.s. tveimur fleiri en í fyrra, þýðir það að 5 sæti eru fyrir aðra. Fyrir vikið má sjá fleiri útgefendur á topp 50 nú en í ár, eða þremur fleiri, 16 nú en voru 13 í fyrra. Annars er niðurröðunin á þennan veg:

  • Forlagið 25
  • Bjartur/Veröld 7
  • Salka 3
  • Hagkaup 2
  • Hólar 2
  • Uppheimar 2
  • Andi 1
  • Friðarsetur Holti 1
  • Helgi og Hjálmar 1
  • Setberg 1
  • Skálholtsútgáfan 1
  • Skjaldborg 1
  • Skuggi 1
  • Sögur 1
  • Tindur 1
  • Útkall 1

Fyrir ári síðan leit niðurröðun forlaganna á lokalistanum fyrir jól þannig út:

  • Edda útgáfa - 17 sæti
  • JPV útgáfa - 15 sæti
  • Bjartur - 4 sæti
  • Útkall - 3 sæti
  • Hólar - 2 sæti
  • Nýhil - 2 sæti
  • Hagkaup - 1 sæti
  • Setberg - 1 sæti
  • Skjaldborg - 1 sæti
  • Skrudda - 1 sæti
  • Tindur - 1 sæti
  • Uppheimar - 1 sæti
  • Veröld - 1 sæti

Staða Hagkaupa á þessum listum hefur alltaf vakið spurningar. Hagkaup eru að sjálfsögðu ekki eiginlegur bókaútgefandi sem hefur aðalstarf af bókaútgáfu og selur bækurnar langt undir því verði sem eiginleg forlög geta treyst sér til að bjóða bækur á. Hagar djöfluðust sem þeir gátu fyrir tveimur árum til að komast inn á þessa lista en þá hélt Félag íslenskra bókaútgefenda sig fast við þá meginreglu að bækur yrðu að vera í almennri sölu til að komast þar inn. Hagar svörðu með því að koma Hagkaupsbókunum inn í Pennann/Eymundsson. Þeim hefur verið mikið í mun að sanna að Hagkaupsbókin sé alltaf mest selda bókin. Nú bregður svo við að Hagkaupsbókin endar í þriðja sæti á aðallista en Hagkaup er raunar með tvær bækur inni á honum, jafnmargar og B/V, þannig að Hagar (Baugur Group) blandar sér þar með í slaginn. Eignarhald Baugs á Skugga forlagi gerir það svo að verkum að segja má að Baugur sé með þrjár bækur á aðallista þetta árið. Niðurröðun forlaga á aðallista er annars þannig nú:

  • Forlagið 4
  • B/V 2
  • Hagkaup 2
  • Skuggi forlag 1
  • Útkall 1

Það sem vekur kannski mesta furðu er að Harry Potter kemst ekki inn á aðallista og þar er engin barnabók í ár. Áhyggjurnar af verðstríði á leikfangamarkaði myndi hafa áhrif á barnabókasölu hafa því kannski átt rétt á sér, eða þá að sala á fullorðinsbókum hefur einfaldlega aukist. Enginn treystir sér til að fullyrða nokkuð um það á þessari stundu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband