Það gengur fé úti í Esjunni

Neðst við mynni Gljúfurárdals var tvílemd golsótt ær, ákaflega útigengin að sjá, í tveimur reifunum og ekki vaðandi í spiki, né heldur gemlingarnir og hafði eytt morgninum í að sniglast fram með ánni í von um að komast yfir á frerabrú en þrátt fyrir mikla snjókomu í fréttunum er enginn vetur til fjalla, það er varla nokkur snjór upp í efstu brúnir og Glúfuráin hvergi allögð. Eðlilega komst styggð að rollunni þegar við komum þarna að en hún fór ekki langt, rétt upp í Búa og var enn á svipuðum slóðum þegar við komum niður af Kambshorni.

Sunnan undir Kerhólakambi, í drögunum ofan og austan við Sauðagil, var hópur af fé, einar sjö kindur, og augljóst að engin þeirra hafði komist á hús í haust, eða í það minnsta varla haft þar viðkomu ef svo er. Þarna voru eldri ær og gemlingar og merkilega lítið styggt, horfði á okkur ganga framhjá og hafði það svo sem ekki sem verst því það er ágætlega gróið þarna uppfrá eftir að skriðunum neðantil sleppir og auðvitað varla nokkur snjór.

En ætla eigendurnir þá ekki að hleypa til í ár eða sleppa þeir kannski bara hrútunum lausum líka? Í það minnsta veit ég að fyrir norðan heiðar yrði allt vitlaust ef fréttist af því að fé gengi enn úti í fjöllum og gerðir út leiðangrar til að heimta það. En það má greinilega allt í Esju. Kannski eiga einhverjir Kjalnesingar þetta, kannski bóndinn í Varmadal, sem ég rakst einu sinni utan í Búa og brá óþyrmilega við, hélt ég hefði séð huldumann. En hann var þá að reyna að fiska gemlinga úr sjálfheldu og var að reyna að síga á milli sillna en björgunarsveit á leiðinni honum til aðstoðar. Ef þetta hefði verið á Vestfjörðum hefði það komið í fréttum að björgunarsveit hefði bjargað fé í sjálfheldu en því nær sem maður er borginni, þeim mun aftar á merinni lenda málefni útigangsskepna. Helstu dýraplagaramál landsins koma upp í þjónusturadíus frá höfuðborginni.

Og ef einhver Kjalnesingur les þetta: Gáðu nú að fénu þínu í Glúfurdal. Fyrir tveimur árum hröpuðu Varmadalsgemlingarnir á ís niður í glúfrið og annar drapst. Maður sér beinin þarna enn. Kannski fáum við Esjufarar nýtt hræ fyrir vorið? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband