Kommúnistar í Reykjavík

Í gærkvöldi var hægt að hlusta á fyrirlestur við Háskóla Íslands um hvernig kommúnismi ætti að takast á við kapítalisma og ríkisvald og greiningu á stöðu kapítalismans á 21. öldinni og hlusta á harða gagnrýni á sósíalisma sem hækju kaptíalískra framleiðsluhátta og kúgunartæki mergðarinnar. Salurinn var fullur og allir kinkuðu kolli. Fyrir ári hefði slíkt verið óhugsandi.

Ég hafði hlakkað mjög til fyrirlestrar þeirra Michaels Hardt og Antonios Negri sem fram fór á Háskólatorgi í gærkvöldi. Ég er sjálfsagt ekki einn um að hafa á undanförnum árum sótt andlega næringu í ritið Empire þar sem innri mótsagnir þeirrar þjóðfélagsgerðar og skipulags myndaðist eftir "sigur nýfrálshyggjunnar" voru útlistaðar. Á góðærisárunum leið manni stundum eins og þetta væri eihvers konar forboðið rit, að það sem þarna stæði, sem og seinni bók þeirra, Multitude, væri eins og fjarlægur ómur, en nú virðist móttökutæki flestra vera betri fyrir boðskap þeirra félaga. Allir vilja heyra gagnrýni á kapítalismann og ríkisvaldið sem studdi hann með ráðum og dáð.

Salurinn var að sjálfsögðu fullur, en þó ekki eins smekkfullur og ég hafði ímyndað mér að hann yrði. Erindin voru ekki neitt popp svo sem heldur. Hardt fjallaði um mjög áhugavert efni sem brennur í raun sem eldur á öllum sem fást við "óefnislega framleiðslu" þessi misserin, sem er að óefnisleg framleiðsla hefur tekið stöðu iðnaðarins sem inntak kapítalískra framleiðsluhátta. Hann skýrði út hvernig mótstaða gegn þessum framleiðsluháttum á borð við sjóræningaútgáfur og rán á höfundarréttarvörðu efni birtir hina raunverulegu dýnamík framleiðslunnar, en að vörnin hefti flæðið. Í þessu ferli reyni kapítalisminn að slá eign sinni á sameiginleg verðmæti líkt og félagstengsl, lífverur, hugverk og svo framvegis. Framleiðslan byggi hins vegar ekki á eign, heldur á sameign. Án sameignar væri engin framleiðsla. Það var auðvelt að byggja hér brú yfir í kvótakerfið, sameign sem hefur verið eigngerð af kapítalismanum og hann minntist meira að segja á það, en enginn spurði um það eftir á.

Um Negri heyrði ég fyrst talað í Siena sumarið 1994 þegar ég fór á fyrirlestur þar sem fyrrverandi RAF menn töluðu um ríkiskúgun, en Negri var dæmdur til fangelsisvistar fyrir aðild sína að og stuðning við RAF á áttunda áratugnum. Ég held meira að segja að hann hafi verið ennþá inni á þeim tíma, sat líka lengi í einangrun. Ég man eftir því þá hvað þetta lið var gallhart en um leið mjög yfirvegað og málefnalegt. Ítalir búa alltaf að því að hafa átt Gramsci. Með hans hugmyndir um yfirráð og mergð að vopni tóku RAF mennirnir í sundur gangvirki ríkisins sem þjónustustofnun fyrir kapítalismann. Negri var á sömu buxunum í gærkvöldi. Einn punktur, sem ekki er ókunnur þeim sem hafa lesið Empire og Multitude, var athyglisverður. Sú hugsun að frelsunin, frelsun fjöldans og mergðarinnar frá firringunni og kúguninni gæti ekki farið fram með hliðsjón af draumsýninni um afturhvarf til upprunalegs ástand frelsisins. Það væri einfaldlega ekki til vegna þess að kapítalisminn framleiðir ekki vörur, heldur framleiðir hann félagsleg vensl og sjálfsverur. Framleiðsla hans á sjálfsverum hafi eyðilagt alla von um endurfundi við draumsýnina en í staðinn búi hún líka til ný tækifæri til andstöðu og nýs skipulags.

Spurningatíminn var frekar brokkgengur. Einhver hamraði á klassískum hugmyndum um hlutverk einstaklingsins í breytingum, að "athafnamaðurinn" yrði að taka áhættu, annars kæmist sagan ekki úr sporunum, sem var skrítinn málflutningur miðað við að bæði Negri og Hardt líta ekki á einstaklinga sem gerendur í sögunni og Hardt sagði einfaldlega: "Áhætta sem slík er heimskuleg." Jón Baldvin Hannibalsson kom með fína spurningu sem varð Negri tilefni til að undirstrika að hugmyndin um þjóðríkið er löngu fallin, öll söguleg ferli 21. aldar eru hnattræn ferli. Einn spurði um valdbeitingu og Negri tók góða og gegna Gramci-íska og Foucaultíska afstöðu til málsins og ýtti hugmyndinni um átakalausa baráttu út af borðinu. Jafnvel svokallaðir friðarsinnar beittu valdi og oft með mjög áhrifamiklum hætti, það væri fáránlegt að láta sér detta í hug að umbyltingar í stjórnmálum færu fram án valdbeitingar. Maðurinn sat jú í fangelsi þannig að þetta var ekki alveg óvænt. Í lokin náðu þeir að fjalla aðeins betur um kommúnismann sem Negri talaði jú um í sínu erindi.

Ég hélt í það minnsta ekki að ég myndi framar á ævinni sitja fyrirlestur í Reykjavík þar sem maður fjallaði um hvernig kommúnisminn getur tekið völdin af kapítalisma og ríkisvaldi. En í gærkvöldi var það hægt. Svona langt erum við komin. Mér vitanlega var enginn alþingismaður eða áhrifamaður í efnahagslífinu staddur þarna. Allir voru að búa sig undir næsta morgunverðarfund um "Sigur í samkeppni", "Leiðtogahæfni" eða "Stjórnunarstíl sprotafyrirtækja". Sagan heldur áfram.


Bókastefna, er hún að verða til?

Í ítarlegum stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar má sjá að mikill metnaður er til að efla íslenska menningu. Ekki á aðeins að vinna í því að innleiða tillögur þingsályktunar um íslenska málstefnu sem samþykktar voru á síðasta Alþingi, heldur á nú hvorki meira né minna að móta "menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn og aðra þá sem starfa að menningarmálum".

Þetta er ný sýn á hlutina því það tilheyrði í raun hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins (en hann hafði forræði menntamála á sinni könnu um nærri tveggja áratuga skeið) að það væri ekki hlutverk hins opinbera að móta sérstaka stefnu í menningarmálum. Meginlínur ætti að draga upp og síðan væri það annarra að fylla út í myndina. Þetta er stundum mjög sniðugt, en líka stundum uppspretta mótsagna. Hvað bókaútgáfuna varðar var mótsögnin sú að ríkisvaldið stóð sjálft í stórfelldri útgáfu og útdeilingu styrkja til bókaútgáfu án þess að hafa gagnsæjar reglur um hvernig slíku fé skyldi ráðstafað eða bauð ekki út samninga um útgáfu stórvirkja á borð við Stjórnarráðsöguna, Sögu kristni á Íslandi, Tónlistarsögu Íslands eða Listasögu 20. aldar. Á bak við þessar ákvarðanir var að sönnu "menningarstefna", en hún miðaðist við þarfir valdamanna eða áhrifafólks innan stofnana hins opinbera, ekki við að hlúa að bókaútgáfu sem atvinnugrein. Hins vegar þótti og þykir enn gott að grípa til einkarekinnar bókaútgáfu þegar þörf er á, t.d. þegar "íslenska bókaþjóðin" er nefnd á nafn.

Ég veit ekki til þess að menn hafi þorað að setja fram verkefnalista um hvað íslenskt málsamfélag eigi að ráðast í að gera, en ef það væri gert, og ef það yrði "menningarstefna" að ráðast í þessi verkefni og þau síðan boðin út, gæti það orðið mjög athyglisverð tilraun til að ráðstafa fjármagni sem áður hefur þótt sjálfsagt og handan allra umræðu að ráðstafa í að styrkja bókaútgáfuna og það fagstarf sem þar er unnið og um leið að tryggja að þessi verkefni fái sem besta útbreiðslu. Verkefni sem maður hefur séð ráðist í hér og þar í heiminum á borð við að þýða "100 bestu bækur allra tíma" (Noregur) eða jafnvel "1000 bestu bækur allra tíma" (Dubai) eða að búa til "þjóðarbókasafn" þar sem samanlagður bókmennaarfur heils málsvæðis er gefinn út eru dæmi um þannig "draumaverkefni" sem þurfa þó í raun ekki að kosta svo óskaplega mikið ef rétt er á málum haldið. Aðalmálið er að atvinnugreinin eflist við þetta starf.

Því eins og góður og margreyndur sænskur bókaútgefandi sem ég þekki segir alltaf: "Það er ekkert mál að gefa út bækur, það hins vegar mál að selja þær." Sambland menningarstefnu og markaðsvinnu er ekki sérgrein ríkisins og á heldur ekki að vera það. Þetta er hins vegar það sem bókaútgáfan gerir alla daga, auðvitað með misjöfnum árangri, en íslenska bókaþjóðin er bókaþjóð vegna þess fyrst og fremst að einkareknar bókaútgáfur djöflast árið um kring við að koma vöru sinni í hendur á lesendum. Bókaútgáfa er fyrsta dæmið í sögunni um slíkan atvinnurekstur: fjöldaframleiðslu á staðlaðri vöru sem seld er á markaði. Inni í þessu grundvallarmódeli má hins vegar sprikla á margvíslegan hátt, enda kjósa um 150 lögalðilar og einstaklingar árlega að gefa út þær rétt rúmlega 1500 bækur sem hér koma út. Þetta kerfi skapar ekki aðeins virðisauka í langri keðju sem nær frá höfundum, hönnuðum, umbrotsmönnum, prenturum, myndvinnslufólki, lagerfólki, bílstjórum, bóksölufólki, dreifingaraðilum, auglýsingastofum að skattinum sjálfum (bókaútgáfan leggur meira til sameiginlegra sjóða en hún fær úr þeim á móti, jafnvel þótt starfslaun rithöfunda sé reiknuð með), heldur tryggir það einnig vettvang til að tjá sig og koma skoðunum sínum á framfæri.

Til að kerfið virki þarf innra stoðkerfi: Það þurfa að vera til góðar dreifileiðir - verslanir þar sem almenningur gentur gengið að bókum - , öflug og sterk bókasöfn sem tryggja að almenningur hafi aðgang að bókum og fræðslu hvenær sem er til framtíðar, það þarf að vera til stoðkerfi sem sér um að búa bækurnar til prentunar og miðla þeim til almennings, slíkt er ekki sjálfgefið, og það þarf að vera pólitísk sátt um að þetta starf sé mikilvægt fyrir málsamfélagið og hið opinbera styðji með ráðum og dáð við að gera málsamfélaginu kleift að starfa eðlilega með það einfalda og lýðræðislega sjónarmið að leiðarljósi að allir geti gengið að upplýsingum og allt sem nöfnum tjáir að nefna á móðurmáli sínu.

Það kom berlega í ljós þegar þingsályktun um íslenska málstefnu var lögð fram að jafnt fræðimenn, skólar, rithöfundar, orðabókasmiðir og aðrir gera ráð fyrir að þessi grunnstoð menningarmiðlunar á Íslandi virki einfaldlega og um það þurfi ekkert frekar að ræða. Þetta kom mjög flatt upp á okkur bókaútgefendur, því við höfum nánast engar spurnir af vinnunni við gerð þessarar málefnu nema óbeint í gegnum rithöfunda. Samt byggist stór hluti af þeirri "innleiðingu" íslenskrar málstefnu sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanumm á að láta að gefa út hitt og þetta, allt frá orðabókum, fræðibókum og barnabókum til nýrra kennslubóka í íslensku osfrv. Þetta er verkefni sem verður aðeins leyst af þeim sem hafa þekkingu, getu og bolmagn til að gera það, en þá verður stuðningurinn við þessi verkefni líka að vera ljós og skýr og innleiddur á faglegri máta en hingað til.

En stærsta verkefnið er hvernig hægt er að horfa út fyrir bókina og skapa hér grundvöll fyrir atvinnurekstri í rafrænni útgáfu, sem og að hvernig á að móta sýn á mikilvæg mál dagsins í dag, svo sem stafræna endurgerð menningararfsins, aðkomu stórfyrirtækja á borð við Google sem og þær aðstæður sem munu skapast þegar ný lestrartæki flykkjast inn á markaðinn en íslenskir lesendur og útgefendur verða útilokaðir frá helstu veitum þeirra á borð við Sony búðina fyrir Sony Reader eða Amazon.com. Við höfum í þessum efnum verið sofandi og slöpp en á næstu árum þarf að taka afdrifaríkar ákvarðanir sem munu geta haft stefnumarkandi gildi fyrir framtíðina og ekki síst framtíð íslenskunnar sem tungumáls í hópi lifandi tungumála.

Nýrri ríkisstjórn er óskað velfarnaðar. Það verður spennandi að sjá hvernig ný menningarstefna, já, ný bókastefna, artar sig.


Hárbeitt ádeila á heimsmælikvarða

Kreppa-a3Það voru gríðarleg viðbrögð við umfjöllun Fréttablaðsins á laugardaginn um Kreppuplagat Halldórs Baldurssonar sem Crymogea gefur út. Þetta var upphaflega lítil hugmynd sem Halldór fékk því honum fannst að hægt yrði að bjóða til sölu plagat sem hann bjó til í tilefni af árlegri samkeppni FÍT 2009 um bestu grafísku hönnun dagsns í dag. Þegar hann síðan fékk aðalverðlaun keppninnar var farið af stað. Plagatið "Kreppan 7.10.2008 o.s.frv..." er sería þar sem sögð er í 40 myndum saga kreppunnar frá 7. október til gamlársdags 2008 þegar íslenskur almenningur horfir skelfingu lostinn fyrir hornið á dimmu breiðstræti ársins 2009. Þar eru margar klassískar myndir sem lýsa vel þessum haust- og vetrardögum sem eru einstakir í sögu þjóðarinnar. Plagatið er aðeins til sölu hjá Crymogeu á Barónsstíg 27 og það kostar 3.500 kr. Hægt er að panta það á crymogea@crymogea.is og því er ekið heim til þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu ef þeir panta og eiga ekki heimangengt. Sumir hafa líka spurt um frummyndirnar og nokkrar þeirra hafa selst í kjölfarið. Þær má líka kaupa hjá Crymogeu á Barónsstíg 27. Dómnefnd FÍT sagði plagatið vera "grafískt meistaraverk sem sýnir mátt myndmálsins. Sköpunargleði, teiknináttúra, kímnigáfa og síðast en ekki síst persónuleg og einstök sýn höfundarins á viðfangsefnið. Hárbeitt ádeila á heimsmælikvarða."

Opið hús í dag og á morgun

flora_bod

Blómin spretta á veggjum

Crymogea er loksins komin í eigið húsnæði eftir tvö húsmennskuár. Á Barónsstíg 27 þar sem síðast var til húsa hönnunarbúðin Herðubreið er kominn forlagskontór sem fyrst og fremst er þó sýningaraðstaða. Þar verður hægt að skoða meiriháttar innsetningu á blómahafi Eggerts Péturssonar og hina fögru bók Flora Islandica næstu daga og raunar fram yfir helgi. Allt útspegúlerað af verðlaunahönnuðinum Snæfríð Þorsteins sem hafði líka veg og vanda af hönnun Flora Islandica.

Sýningin er hluti af HönnunarMarsinum 2009. Það er kjörið að þramma á Barónsstíginn þegar hönnunarvegurinn er genginn á laugardaginn og kíkja á flórur og sækja snemmbúinn voranda í norðanáttinni.


Stjórnin sem rústaði bókaútgáfu á Íslandi?

Ríkisvæðing Pennans undir merkjum Nýja Kaupþings er nýi veruleiki íslenskrar bókaútgáfu. Í ljósi nýsamþykktrar málstefnu sem Alþingi lagði blessun sína yfir á dögunum er ástandið í ríkisvæddu bóksölumálunum ekki bara kómískt, það er harmrænt. Hvergi nokkurs staðar í því plaggi er gaumur gefinn sérstaklega að bókaútgáfu. Hún er hins vegar kvödd til í nánast öllu liðum þess sem sérstkur inngripsaðili til styrkingar íslensku máli. Það á að efla orðabókaútgáfu, gefa út kennslubækur, auka útgáfu frumsaminna barnabóka, styrkja útgáfu fræðibóka á íslensku, efla útgáfu stuðningsrita og ýta undir útgáfu fagurbókmennta. Allt þetta á að afreka án þess að styrkja útgáfu bóka eða gefa gaum að innviðum dreifingar bóka hérlendis.

Þetta hefur einfaldlega farið fram á að mestu frjálsum markaði sem hið opinbera er að vísu sterkt á með í það minnsta tvö útgáfufyriræki og mikla útgáfu á vegum ýmissa stofnana. Bóksala hefur heldur ekki mikið kássast upp á ríkiskassann um langt skeið. Fyrir vikið hefur dreifing bóka og prentefnis, útgáfa þess og markaðssetning farið fram undir sínum lögmálum sem Samkeppniseftirlitið hefur verið helsti opinberi aðilinn til að skipta sér af.

En nú er allt breytt. Nokkrir bóksalar á borð við Bóksölu Stúdenta, Iðu og Úlfarsfell, já, Kaupfélag Skagfirðinga, svo ég nefni nærtækt dæmi, eru í samkeppni við stóra ríkisbóksölu. Fyrstu fréttirnar sem berast innan úr henni er að hún borgi ekki. Birgjar fá ekki umsamdar greiðslur nú í vikunni sem sendir að sjálfsögðu vantraustsbylgjur út í allan bransann. Maður heyrir fólk tala um að hætt að afgreiða bækur til Pennans.

Því staðan er þessi: Bóksala á Íslandi er í fanginu á ríkisstjórninni. Svo einfalt er það. Það er pólitísk ákvörðun um hvernig staðið verður að bóksölu hér næstu mánuði. Bókaútgefendur, rithöfundar, prentsmiðjur, starfsfólk við bókaútgáfu, bóklesendur: Sjálf bókaþjóðin veit ekkert um hvernig skipan verður á bóksölu á næstunni.

Það verður frábært að sjá nýja málstefnu virka á slíkum stundum. Fögur fyrirheit um að styðja við bakið á móðurmálinu með öflugasta dreifimiðil þekkingar og skáldskapar lamaðan í fangi ríkisvaldsins. Sjálfur hornsteinn, sjálf undirstaða málsamfélagsins, útgáfa bóka á íslensku, er í raunverulegri hættu. Og það undir stjórn sem vildi svo gjarnan láta minnast sín af öðru en því að hafa rústað íslenskri bókaútgáfu.


Bóksala á krossgötum

Á föstudaginn var það loks innsiglað sem vitað hafði verið í nokkrar vikur að myndi gerast: Penninn, langstærsti bóksali landins, varð tæknilega gjaldþrota og var tekinn yfir af Nýja Kaupþingi. Með þessu tapa eigendur Pennans öllu hlutafé sínu og bankinn leggur hér eftir fyrirtækinu til rekstrarfé. Alls kyns gróusögur eru uppi um hvernig Penninn verði hlutaður í sundur en þar sem bankinn hefur enn sem komið er ekkert gefið út um hvernig að því verður staðið er allt á huldu um nánari útfærslu þess.

Útgefendur hafa óttast þetta allt frá því um mitt síðasta sumar. Þótt það væri mismunandi eftir fyrirtækjum varð tregða á greiðslum frá Pennanum strax í sumar og ekki var um annað talað milli útgefenda hvort Penninn myndi hafa þetta af. Það sem einkum skelfir eru að bækur eru ekki höndlaðar af bóksölum eins og flestar aðrar vörur. Bækur eru sendar inn með staðgreiðslunótu en á þeim er engu að síður fullur skilaréttur. Þegar stórsöluvertíðir eru á borð við jólavertíðina, vill brenna við að greiðslur berist ekki frá endursöluaðila fyrr en nokkuð er um liðið frá sölunni og eru greiðslur oft bundnar skilum á óseldum bókum. Ótti útgefenda var að bækurnar yrðu eftir í þrotabúinu og yrðu seldar þar en þeir töpuðu öllu. Þegar komið var fram í september 2008 var panikkin orðin svo mikil að búin var til einhvers konar áætlun um hvernig standa mætti að bóksölu færi allt á versta veg.

Sem betur fer fór jólasalan þannig að Penninn stóð fyllilega í skilum og greiddi útgefendum. Þrátt fyrir erfiðleika hafa bókaútgefendur áfram fengið flestir greiðslur reglulega frá Pennanum. Hins vegar hefur það langt í frá slegið á taugaveiklunina því auðsæilegt hefur verið að fyrirtækið berst í bökkum og það má víða sjá hvernig útgáfurnar eru að reyna að skapa sér tekjur í gegnum sölu á eigin netslóðum eða með öðrum hætti.

Yfirtaka bankans mun ekki eyða þessum áhyggjum. Þótt ljóst sé að með henni hefur í bili að minnsta kosti verið tryggt að dreifing bóka á Íslandi heldur áfram með eðlilegum hætti er það nánast skelfilegt fyrir íslenska bókmenningu að vita ekki hvað bíður handan hornsins. Bækur hafa á undanförnum mánuðum ekkert gefið eftir sem vara á neytendamarkaði, raunar þvert á móti. Að baki eru góðir sölumánuðir og ákaflega vel heppnaður Bókamarkaður í Perlunni. Penninn er helsti söluaðili íslenskra bóka utan jólavertíðar. Þótt hafa beri í heiðri bjartsýnisregluna um að það sem kemur þurfi ekki að vera verra en það sem er, verður samt að horfast í augu við að dreifing bóka til íslenskra neytenda er á krossgötum. Ríkisbóksala Nýja Kaupþings er aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Svo gæti farið að næstu jól, já, þegar í sumar, verði allt annað landslag í bóksölu á Íslandi. Enn og aftur gildir þá þar mestu að það séu aðilar sem geti staðið í skilum en dragi ekki hálfan bransann með sér á hnén ef þeim mistekst.

Bóksala er ekkert einkamál nokkurra kaupmanna. Hún er menningarleg lífæð, dreifileið upplýsinga og íslensks máls til venjulegs fólks. Það er vonandi að þeir sem véla um þetta fyrirtæki hjá Nýja Kaupþingi gleymi ekki að þeir eru ekki bara að selja kaffi og te í búðum Pennans.


Hin ótrúlega aðsókn að Bókamarkaðinum

er eiginlega ráðgáta. Við sem stöndum að þessum markaði erum virkilega hlessa því enginn bjóst við svona rosalegri aðsókn, svona mikilli sölu. Í hádeginu í dag, mánudaginn 2. mars, var ekki séns að fá bílastæði við Perluna. Það voru biðraðir við kassana nánast samfleytt frá því um hádegi og fram eftir degi. Við skynjum gríðarlega velvild, ótrúlegan áhuga og sjáum að breidd gesta er meiri en okkur óraði fyrir. Hvað er að gerast á Nýja Íslandi? Eru allir að fara að lesa sig til nýs og betra lífs?

Flóra Íslands aftur fáanleg

"Girndargrip", kallaði Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun bókina Flora Islandica í Kiljunni í gærkvöldi. Þetta heildarsafn teikninga Eggerts Péturssonar af íslenskum háplöntunum hefur vakið mikla athygli og það má skilja ástæðurnar fyrir því eins og glöggt sást í Kiljunni í gær.

Fyrir jól komu aðeins 100 eintök af 500 eintaka upplagi til landsins. Þau gjörseldust upp og urðu þeir sem ekki fengu að panta sérstök gjafabréf fyrir þeim eintökum sem seinna kæmu. Nú er afgangurinn að upplaginu kominn úr langferð frá Kína og búið að fá öllum kaupendum sín eintök í hendur. Fyrir vikið eru nú 300 eintök fáanleg.

Sem fyrr er bókin aðeins til sölu hjá útgáfunni því haldinn er kaupendalisti. Hvert eintak er tölusett og áritað af Eggerti Péturssyni. Bókin kostar 75.000 kr. Hana er hægt að panta á netfanginu crymogea@crymogea.is eða í síma 8997839 og hún er send heim að kostnaðarlausu.

FLORA ISLANDS


Lesarinn

Kvikmyndin Lesarinn (The Reader) er ein af þeim fágætu kvikmyndum sem byggðar eru á bókum sem bæta við nýrri vídd í skilninginn á því sem bókin fjallar um og gera bókina í raun betri en maður hélt að hún væri.

Bókin er eitt vinsælasta bókmenntaverk síðustu áratuga í Þýskalandi og ein örfárra þýskra bóka á síðari árum sem hafa náð heimsathylgi, þrátt fyrir að bókmenntalíf Þjóðverja standi nú með talsverðum blóma. Höfundurinn, Bernhard Schlink, náði að fanga nýja hugsun í uppgjöri Þjóðverja á fortíðinni með sögunni af ólæsa fangaverðinum úr Auschwitz sem naut þess að láta fangana lesa fyrir sig. Frægt er hvernig Ophra Winfrey tók þessa bók upp á arma sína og beindi að henni kastljósinu í Bandaríkjunum. Lesarinn er ein þeirra örfáu þýðinga úr erlendum málum sem hafa náð hylli á bandarískum bókamarkaði á undanförnum árum.

Kvikmyndin er aðlögun Davids Hare og þar er svo sem enginn aukvisi á ferð. Hare skerpir á undirtexta bókarinnar sem manni var stundum aðeins mátulega ljós þegar maður las hana, því bókin er knöpp og raunar ekki stíllega mjög hárísandi . Hins vegar er sagan sjálf gríðarlega sterk, eins og best sést í aðlöguninni. Hún styrkist við aðlögunina og kvikmyndaformið sýnir vel hve gríðarmargir þættir í sjálfsmynd Þjóðverja koma saman í mynd ólæsa dauðabúðavarðarins sem spannar hina illskiljanlegu mótsögn að ein menntaðasta og forframaðasta þjóð Evrópu skyldi murka á skipulegan hátt lífið úr saklausum borgurum með kynþáttahugmyndafræði að vopni. Þátttaka almennings í þessum hörmungum, samsektin og uppgjörið verða svo áþreifanleg andspænis þessu frumafli sem býr í Hönnu Schmitz, sem er í senn erótísk bomba, hrotti, tilfinninganæm kona og fagurkeri. Í landi "hugsuða og skálda" verður ólæsi að slíku vandræðamáli að þessi alþýðustúlka gerir hvað sem er til að komast hjá því að uppljóstra um vanmátt sinn, þar á meðal tekur hún á sig stærri sök en sem nemur gjörðum hennar. Hún verður einskonar kollektívur píslarvottur, en um leið er píslarvætti hennar merkingalaust því það er engin sátt, engin fyrirgefning eða aflausn fyrir glæpina.

Þegar lögfræðingurinn Berger hittir fórnarlambið í lúxus Upper East Side íbúðinni í lok myndar og hlustar á þessa hástéttarkonu í hinni "Nýju Jerúsalem", New York, segja að það sé tilgangslaust að fyrirgefa eða yfirleitt að hugsa um útrýminguna því "úr búðunum kemur ekkert gott", þá verða örlög Hönnu nánast hláleg. Um leið verður allt það kreppta og erfiða í umgengi Þjóðverja við fortíðina fyrst létt þegar "böðlarnir" eru horfnir af sviðinu. Hanna í fangelsinu er meinsemdin sem étur upp líf Bergers, hann getur ekki fengið af sér að heimsækja hana, en sendir henni kasettur með upplestri sínum á heimsbókmenntunum. Þegar hann loksins ætlar að "frelsa" hana, er hún dáin. Þar með frelsast hann sjálfur og opnar sig, fyrst gagnvart fórnarlömbunum, síðan gagnvart sinni eigin dóttur og sinni eigin fortíð. Hið nýja Þýskaland getur fyrst gengið á hólm við fortíðina eftir aflausn dauðans. Heimfæra má þessa sögu nánast upp á öll þau þjóðfélög þar sem saklaust fólk hefur dáið vegna hugmyndafræði og glæpaverka og sektin og glæpirnir liggja áfram sem mara á þjóðinni.

Niðurstaða myndarinnar er því í raun miskunnarlaus.  Sektin, ekki aðeins sem sekt þeirra sem tóku þátt í útrýmingu Gyðinga og frömdu þar glæpi sem standast fyrir rétti sem glæpir (en munurinn á "tæknilegri" og siðferðilegri sekt er einmitt aðalumfjöllunarefni myndarinnar, sérstaklega seinni hlutans), heldur sekt alls þjóðfélagsins, verður ekki þvegin af. Um leið er nánast ómögulegt að gera hana upp nema að böðlunum gengnum, jafnvel þótt þeir séu "bældir" (Hanna verður eftir því sem líður á myndina æ sterkara tákn þess bælda, grá og gugginn, tengslalaus við annað en vitund þess eina sem man eftir henni en vill um leið gleyma henni).  Glæpirnir segja ekkert merkilegt um manninn. Þeir eru eins og hverjir aðrir glæpir og verða aðeins metnir á grundvelli laganna. Síðan verður hver og einn að gera upp við sig hvernig hann gerir þau mál upp á grundvelli siðferðisins. Samviskubit Bergers snýst ekki um glæpi hans sjálfs, heldur að hafa orðið ástfanginn af böðlinum og komast að því að ást hans var spegilmynd sambands fangavarðarins og hinna dauðadæmdu gyðinga. Það var hlaðið sömu mótsögn hins ómenntaða og frumstæða - hvatalífsins og hins siðferðilega blinda - og þess upphafna og fágaða.

Kate Winslet er stórkostleg Hanna. Hún er afburða leikkona en það David Kross sem hinn ungi Berger er ekki síður magnaður. The Reader er sérkennilega magnað samband af bandarískri mynd eftir breskan handritshöfund með breskum og þýskum leikurum sem fjallar af óvenjulegri dýpt um þýska sögu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband