Lesarinn

Kvikmyndin Lesarinn (The Reader) er ein af þeim fágætu kvikmyndum sem byggðar eru á bókum sem bæta við nýrri vídd í skilninginn á því sem bókin fjallar um og gera bókina í raun betri en maður hélt að hún væri.

Bókin er eitt vinsælasta bókmenntaverk síðustu áratuga í Þýskalandi og ein örfárra þýskra bóka á síðari árum sem hafa náð heimsathylgi, þrátt fyrir að bókmenntalíf Þjóðverja standi nú með talsverðum blóma. Höfundurinn, Bernhard Schlink, náði að fanga nýja hugsun í uppgjöri Þjóðverja á fortíðinni með sögunni af ólæsa fangaverðinum úr Auschwitz sem naut þess að láta fangana lesa fyrir sig. Frægt er hvernig Ophra Winfrey tók þessa bók upp á arma sína og beindi að henni kastljósinu í Bandaríkjunum. Lesarinn er ein þeirra örfáu þýðinga úr erlendum málum sem hafa náð hylli á bandarískum bókamarkaði á undanförnum árum.

Kvikmyndin er aðlögun Davids Hare og þar er svo sem enginn aukvisi á ferð. Hare skerpir á undirtexta bókarinnar sem manni var stundum aðeins mátulega ljós þegar maður las hana, því bókin er knöpp og raunar ekki stíllega mjög hárísandi . Hins vegar er sagan sjálf gríðarlega sterk, eins og best sést í aðlöguninni. Hún styrkist við aðlögunina og kvikmyndaformið sýnir vel hve gríðarmargir þættir í sjálfsmynd Þjóðverja koma saman í mynd ólæsa dauðabúðavarðarins sem spannar hina illskiljanlegu mótsögn að ein menntaðasta og forframaðasta þjóð Evrópu skyldi murka á skipulegan hátt lífið úr saklausum borgurum með kynþáttahugmyndafræði að vopni. Þátttaka almennings í þessum hörmungum, samsektin og uppgjörið verða svo áþreifanleg andspænis þessu frumafli sem býr í Hönnu Schmitz, sem er í senn erótísk bomba, hrotti, tilfinninganæm kona og fagurkeri. Í landi "hugsuða og skálda" verður ólæsi að slíku vandræðamáli að þessi alþýðustúlka gerir hvað sem er til að komast hjá því að uppljóstra um vanmátt sinn, þar á meðal tekur hún á sig stærri sök en sem nemur gjörðum hennar. Hún verður einskonar kollektívur píslarvottur, en um leið er píslarvætti hennar merkingalaust því það er engin sátt, engin fyrirgefning eða aflausn fyrir glæpina.

Þegar lögfræðingurinn Berger hittir fórnarlambið í lúxus Upper East Side íbúðinni í lok myndar og hlustar á þessa hástéttarkonu í hinni "Nýju Jerúsalem", New York, segja að það sé tilgangslaust að fyrirgefa eða yfirleitt að hugsa um útrýminguna því "úr búðunum kemur ekkert gott", þá verða örlög Hönnu nánast hláleg. Um leið verður allt það kreppta og erfiða í umgengi Þjóðverja við fortíðina fyrst létt þegar "böðlarnir" eru horfnir af sviðinu. Hanna í fangelsinu er meinsemdin sem étur upp líf Bergers, hann getur ekki fengið af sér að heimsækja hana, en sendir henni kasettur með upplestri sínum á heimsbókmenntunum. Þegar hann loksins ætlar að "frelsa" hana, er hún dáin. Þar með frelsast hann sjálfur og opnar sig, fyrst gagnvart fórnarlömbunum, síðan gagnvart sinni eigin dóttur og sinni eigin fortíð. Hið nýja Þýskaland getur fyrst gengið á hólm við fortíðina eftir aflausn dauðans. Heimfæra má þessa sögu nánast upp á öll þau þjóðfélög þar sem saklaust fólk hefur dáið vegna hugmyndafræði og glæpaverka og sektin og glæpirnir liggja áfram sem mara á þjóðinni.

Niðurstaða myndarinnar er því í raun miskunnarlaus.  Sektin, ekki aðeins sem sekt þeirra sem tóku þátt í útrýmingu Gyðinga og frömdu þar glæpi sem standast fyrir rétti sem glæpir (en munurinn á "tæknilegri" og siðferðilegri sekt er einmitt aðalumfjöllunarefni myndarinnar, sérstaklega seinni hlutans), heldur sekt alls þjóðfélagsins, verður ekki þvegin af. Um leið er nánast ómögulegt að gera hana upp nema að böðlunum gengnum, jafnvel þótt þeir séu "bældir" (Hanna verður eftir því sem líður á myndina æ sterkara tákn þess bælda, grá og gugginn, tengslalaus við annað en vitund þess eina sem man eftir henni en vill um leið gleyma henni).  Glæpirnir segja ekkert merkilegt um manninn. Þeir eru eins og hverjir aðrir glæpir og verða aðeins metnir á grundvelli laganna. Síðan verður hver og einn að gera upp við sig hvernig hann gerir þau mál upp á grundvelli siðferðisins. Samviskubit Bergers snýst ekki um glæpi hans sjálfs, heldur að hafa orðið ástfanginn af böðlinum og komast að því að ást hans var spegilmynd sambands fangavarðarins og hinna dauðadæmdu gyðinga. Það var hlaðið sömu mótsögn hins ómenntaða og frumstæða - hvatalífsins og hins siðferðilega blinda - og þess upphafna og fágaða.

Kate Winslet er stórkostleg Hanna. Hún er afburða leikkona en það David Kross sem hinn ungi Berger er ekki síður magnaður. The Reader er sérkennilega magnað samband af bandarískri mynd eftir breskan handritshöfund með breskum og þýskum leikurum sem fjallar af óvenjulegri dýpt um þýska sögu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband