Óvinur ríkisins

Undanfarin ár, á meðan enn ríkti góðæri, heyrðist lítið um lögbundna afgreiðslu stjórnar listamannalauna annað en smávægilegar deilur um hver ætti að fá ákveðinn mánaðafjölda. Raunar var ekki farið að lögum við afgreiðslu launasjóðs rithöfunda á síðasta ári þar sem mjög litlir styrkir voru teknir upp, minni styrkir en 3 mánuða styrkir, en skýrt er kveðið á um í lögum um sjóðinn að slíkt sé ekki leyfilegt. Ég bloggaði um þetta í fyrra, því þá blöskraði mér hvernig staðið var að því að nota þetta fé og fannst það ákaflega ómarkvisst. Það gleðilega við ákvörðun nefndarinnar í ár er að aftur er fylgt lagabókstafnum í þessum efnum. Smásporslunar hætta.

Þetta er bókaútgáfunni í landinu mikið fagnaðarefni því þessi stuðningur er gríðarlega mikilvægur fyrir öflugt bókmenntalíf. Það gleymist alltof oft að síðustu 25 ár eru eitt glæsilegasta skeið í sögu íslenskra bókmennta. Fjármögnun þessa blómaskeiðs hefur ekki falist í því að höfundarnir lifðu á ölmusu auðmanna eða afgreiddu bensín og páruðu þess á milli langar skáldsögur á næturvaktinni. Hún hefur heldur ekki falist í því að bókaútgefendur auglýstu sig rænulausa hver jól í von um að trekkja almenning að söluborðunum í Bónusi. Hún hefur einfaldlega byggist á því að ákveðinn hópur fólks er á einskonar tilraunastyrk í að skrifa bækur. Sumir detta út, aðrir þrjóskast við. Það gleymist alltof oft að starfslaun listamanna eru ekkert eilífðarfyrirbæri. Enginn er á launum að eilífu. Enginn fær starfslaun aftur og aftur nema hann sé virkur höfundur.

En nú kreppir að og þá vakna gamlir draugar.

Hefðbundin hægri rök gegn stuðingi hins opinbera við listamenn eru að "sjálfstæðir listamenn" þurfi ekki "fyrirgreiðslu" ríkisins, heldur starfi sjálfir á eigin vegum, einir og óstuddir og það sé best fyrir listina og almenning, enda sé "Ríkið" óhæft til að leggja mat á "gæði", aðeins "markaðurinn", hvert mannsbarn þekkir þessi sjónarmið. Við þetta bætist einhverskonar skringileg rökhenda: Þeir sem nái árangri á markaði eigi ekki að fá starfslaun, því það sé óréttlátt, hins vegar séu þeir sem fái starfslaun sjálfkrafa varðir fyrir tekjumissi og hafi því engan hvata til þess að koma verkum sínum á framfæri. Ef seinni röksemdin er skoðuð má benda á að þetta er náttúrlega erfitt í því markaðsfyrirkomulagi sem við búum við. Útgefandi hefur engan hag af því að sjá höfund sinn í hýði en skipar honum fram að koma vörunni í lóg. Og ef menn hafa áhyggjur af því að þeir sem njóti vinsælda almennings séu einnig um of styrktir af Stjórn listamannalauna þá er það fyrst og fremst spurning um tæknilega lagabreytingu. Úthlutunarnefnd starfslaunanna getur ekki brotið lög með því að mismuna fólki á grundvelli tekna sem ekki er skilt að gefa upp við umsókn. Svo einfalt er það. Þessu væri hægt að breyta nokkuð auðveldlega með því að setja tekjuþak á listamenn og marka pólitíska stefnu sem fæli í sér að listamenn sem ekki ættu hljómgrunn á markaði fengju fremur styrki en aðrir.

Þessi sjónarmið voru reifuð í gær, föstudaginn 6. feb., í hinu borgaralega vefriti amx.is þar sem frétt birtist um starfslaunin. Raunar virðist þó ekki tilgangur fréttarinnar að fjalla sérstaklega um þessar röksemdir, heldur að tilgreina að einn ákveðinn maður hafi fengið þriggja ára starfslaun, Hallgrímur Helgason. Enginn listamaður eða rithöfundur annar er nefndur á nafn, en birt er mynd af Hallgrími og Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir utan Valhöll föstudaginn afdrifaríka þegar Geir H. Haarde tilkynnti þjóðnni um veikindi sín. Hvergi er minnst á þátttöku Hallgríms í mótmælunum að undanförnu en tengingin er skýr, auk þess sem amx.is hafði áður fjallað um mótmælin og Hallgrím og þá vikið að því sérstaklega að hann hefði þegið starfslaun.

Amx.is getur svo sem fundist hvað sem er um Hallgrím Helgason og að hann fái 3 ára starfslaun, en þessari umfjöllun fylgja fullyrðingar um bókamarkaðinn sem eru ónákvæmar og misvísandi. Besta yfirlit um bókaútgáfu 21. aldar er að finna í Íslenskri útgáfuskrá. Þar sést vel og sundurliðað hvers eðlis bækur sem koma út á Íslandi eru. Starfslaun listamanna gera ekki ráð fyrir að t.d. höfundar þýddra erlendra barnabóka eða matreiðslubóka Hagkaupa og Nóatóns geti sótt um. J.K. Rowling eða kokkalandsliðið teljast einfaldlega ekki í menginu. Amx.is segir eftirfarandi:

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hafa síðustu ár komið út á bilinu 1.000 til 1.500 íslenskar bækur árlega á Íslandi. Ef listamenn hins opinbera gefa út eina bók á ári næstu 3 árin þá eru það samtals 9 bækur eða 0,6% af heildarfjölda íslenskra titla.

Látum hið gildishlaðna og pólitíska hugtak "listamenn hins opinbera" liggja á milli hluta, en skoðum þó til gamans lista yfir þá rithöfunda sem komast líklegast næst því að vera "listamenn hins opinbera", enda á heiðurslaunum alþingis til æviloka:

  • Fríða Á. Sigurðardóttir
  • Guðbergur Bergsson
  • Hannes Pétursson
  • Jóhann Hjálmarsson
  • Matthías Johannessen
  • Thor Vilhjálmsson
  • Vigdís Grímsdóttir
  • Vilborg Dagbjartsdóttir
  • Þorsteinn frá Hamri
  • Þráinn Bertelsson  

Ef hver þessara höfunda gefur "út eina bók á ári næstu 3 árin" eru það 30 bækur. Þrír höfundar fengu úthlutað 3 starfslaunum í ár, sem gera þá 9 í viðbót, og fyrir eru 6 höfundar á 3 ára launum sem gerir þá 18 bækur í viðbót. Þannig að til að vera með raunverulega rétta tölu væri hún 57.

Næst hlýtur að þurfa að átta sig á því hve margar bækur koma út árlega. Samkvæmt Íslenskri útgáfuskrá komu t.d. út 1438 bækur árið 2005. Í skránni eru þýðingar og innlend launsamálsverk ekki brotin niður, en gefin heildartala fyrir skáldsögur sem er 333. Ef miðað er við að meðalfjöldi íslenskra skáldsagna í Bókatíðindum er um 50 og fjöldi ljóða og leikrita lögð við auk kannski 10 verka úr flokkum eins og ævisögum, sem er eðlilegt því höfundar þeirra og fræðibókahöfundar fá oft úr sjóðnum, sést að stofn til útreikingar tölunni sem amx.is setur fram er ekki "1000 til 1500", heldur 150. Af 150 væri þá ársgeta "hinna opinberu listamanna", þ.e. þeirra sem eru m. 3 ára laun eða meira: 19 bækur. Það gerir 12,6% af árlegri "framleiðslu". En auðvitað segir þessi tölfræði ekki baun um eitt né neitt. Þetta er bara réttara svona.

Talnaleikur amx varpar heldur engu ljósi á þá staðreynd að stuðningur hins opinbera við bókaútgáfu á Íslandi utan starfslaunanna er ómarkviss. Einkareknar bókaútgáfur fá ekki einu sinni að bjóða í verk sem eru á fjárlögum og engar reglur eru um hvernig ríkisstyrkt útgáfuverk eru gefin út. Ekkert gagnsæi er í ferlinu og hvað eftir annað er ráðist í stórvirki á borð við Sögu stjórnarráðsins, Tónlistarsögu Íslands, Kirkjusögu og annað af því tagi alfarið á kostnað hins opinbera en síðan er ekkert ferli til um hvernig einkareknar bókaútgáfur geti boðið í pakkann og hagrætt þannig og sparað. Amatörar í útgáfumálum, stofnanir hins opinbera, gefa út bækur og hafa engan áhuga á að miðla þeim til almennings. Af þessu hafa menn sjaldnast miklar áhyggjur.

Þessi "hægri" gagnrýni er líka merkileg þegar haft er í huga að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið menntamálaráðuneytinu samfleytt í 18 ár og verið í lófa lagið að breyta starfslaunafyrirkomulaginu eftir höfði hinna "sjálfstæðu" rithöfunda, hefði hann virkilega viljað. Hins vegar varð ég aldrei var við annað en t.d. núverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefði þroskað og djúpt viðhorf til þess hvernig stuðla bæri að menningarlegri sjálfsmynd Íslendinga, og raunverulegan inngróinn kúltúr og umburðarlyndi. Ég hef til að mynda ekki orðið var við að Þorgerður Katrín liti svo á að það væri hlutverk ríkisins að mismuna listamönnum eftir skoðunum þeirra eða að það beri að refsa þeim fyrir að mótmæla stjórnvöldum.

Raunar var það svo að síðasta ríkisstjórn og síðasti menntamálaráðherra ætluðu að bæta í starfslaunin. Fyrir lágu drög að nýju lagafrumvarpi um starfslaun listamanna þar sem stuðningur við listamenn, arkitekta og hönnuði var aukinn, allt í þeim tilgangi að styrkja enn menningarlega innviði landsins, auka á sköpun og stuðla að verðmætasköpun til heilla fyrir avinnulíf, mannlíf og stöðu landsins í alþjóðlegu samhengi. Það færi vel á því að einhver fjölmiðillinn rifjaði þær tillögur upp, svona svo hægt væri að átta sig á framfarasinnaðri menningarstefnu Sjálfstæðisflokksins undir forystu Geirs H. Haarde og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

 


18 ár og hvað nú?

Nú verða vatnaskil í menntamálaráðuneyti. 18 ára samfelldri setu Sjálfstæðismanna þar lýkur, en Ólafur G. Einarsson hóf hana 1991 og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mun setja aftan við hana endapunktinn í næstu viku. Þá er forvitnilegt að líta aðeins til baka og reyna að átta sig á stefnumörkun í málefnum bókaútgáfu og bókmennta sem og höfundarréttar.

Byrjum á byrjuninni. Bókaútgáfa er menningarstarfsemi sem byggir á markaðsstarfi. Tekjur bókaútgefenda verða til hjá endursöluaðilum. Venjulegt fólk kaupir bækur og les og gefur. Það er grundvöllur bókaútgáfunnar.

Ekkert markaðssvæði í heiminum er hins vegar nógu stórt eða nógu öflugt til að standa eitt og óstutt undir skáldskapariðkun eða fræðastarfi. Styrktarprógrömm fyrir rithöfunda eru hluti af opinberri menningastefnu flestra Evrópulanda eða svæða eða fylkja innan téðra landa, það sama á við um Bandaríkin og Japan. Norðurlöndin státa öll af mjög víðtæku og öflugu styrktarkerfi sem stendur á bak við fagurbókmenntahöfunda og fræðahöfunda og felst jafnt í starfslaunum, skyldukaupum á bókum fyrir bókasöfn, stuðningsáætlunum, styrktarsjóðum á sveitarstjórnarstigi og ótal öðrum leiðum sem nýttar eru til að þétta þjóðmenningu þessara landa, skapa kraft og örva sköpunarmátt í því skyni að styrkja menningarlega innviði og efla útgeislun þeirra á heimsvísu.  Fyrir vikið er t.d. kynning norskra bókmennta á heimsvísu hluti af utanríkispóltík og bókmenntakynningarfólk þeirra fer með í opinberum heimsóknum menntamálaráðherra og jafnvel forsætisráðherra til ýmissa landa.

Helsta stuðningsapparat á Íslandi við bókmenninguna eru starfslaun rithöfunda. Fyrir kreppu lá fyrir að þau yrðu hækkuð, þ.e. fjölgað, en fjöldi þeirra hefur staðið í stað frá því á tíunda áratugnum og hefur leitt af sér "haglabyssustefnu" með fjölda smáúthlutana til að ná til breiðari hóps, sem raunar er ólögleg ef lagabókstafnum er fylgt í hörgul. Þessi smástyrkjastefna er það versta hugsanlega sem til er og er dæmi um reikandi stefnuleysi og vingulshátt, sem á sér uppruna í að starfslaunin eru of fá til að ná utan um mengi starfandi höfunda. Mjög ólíklegt verður að teljast að þessar hugmyndir nái í gegn óbreyttar við þessi skilyrði, en það er raunar nýrrar eða nýrra ríkisstjórnar eða ríkisstjórna að ákveða. Það er svolítið undarlegt að allan "góðæristímann" skuli ekki hafa verið gerð gangskör að leiðréttingu, og að hún skuli allt í einu hafa dottið inn árið 2008.

Annað óskiljanlegt atriði í 18 ára sögunni er að þótt að Sjálfstæðismenn réðu ráðuneytinu svo lengi var það ekki fyrr en eftir að ráðuneyti Geirs Haarde var myndað að lög voru sett sem tryggðu betur möguleika allra útgefenda til að selja grunnskólum námsbækur, aðallega að virðist vegna úrskurða Samkeppniseftirlits þar sem gerðar voru athugasemdir við starfshætti Námsgagnastofnunar. Þetta er ákaflega dularfullt og raunar algjörlega á skjön við stefnu flokksins. Allt mátti opna og einkavæða, bara ekki tryggja að útgefendur sætu við sama borð og ríkið í að selja grunnskólum námsögn. Það verða mér fróðari menn að skýra hverju þetta sætti.

Annað sem ég hef lengi klórað mér í kollinum yfir, er að aldrei hefur verið sett upp einhvers konar stefnumótun um bókmenningu sem markaði hvert bæri að fara og gerði þar með öllum ljóst hvernig best væri að verja opinberu fé til að ná markmiðum sem sannarlega væru skýr og almennt viðurkennd. Ein framfarasinnaðasta aðgerð í þágu íslenskrar bókmenningar í tíð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur var að steypa saman þremur sjóðum í einn bókmenntasjóð og búa þar með til grundvöll fyrir skilvirkari nýtingu fjármuna hins opinbera til að styrkja menningarlega innviði samfélagsins og auka hróður landsins - í senn utanríkispólitísk og menningarpólitísk aðgerð. En þessi aðgerð var upphaflega ekki að undirlagi ráðuneytisins, heldur var þrýst á um þetta af félögum útgefenda og rithöfunda.

Ráðuneytinu er síðan gert að setja undir útgjaldaliði hjá sér ýmsa styrki til bókaútgáfu sem komnir eru til vegna "sérstuðnings" ýmist fjárlaganefndar eða menntamálanefndar eða jafnvel vegna þrýstings einstakra þingmanna. Samanlagt eru þetta styrkir sem hafa numið um 30 til 40 milljónum á ári. Bókmenntasjóður sem er þó sannarlega þjónustustofnun fyrir utanríkispólitík og innanlandsstuðning er hins vegar með 50 milljónir til umráða. Bókmenntasjóður útdeilir fjármunum eftir fyrirfram skilgreindum leiðum, hann greiðir aðeins út styrki eftir að viðkomandi verkefni hafa verið leidd til lykta og krefst árangurs. Engar slíkar kvaðir eru hins vegar á sérverkefnunum. Þar með er ekki sagt að þau séu góð og gild, það er einfaldlega bara ekkert eftirlit með því að þau séu kláruð. Þannig eru ýmis verkefni sem hlotið hafa milljónastyrki í gegnum fjárlaganefnd og menntamálanefnd sem finna má undirliðum menntamálaráðuneytis í fjárlögum sem enginn hefur síðan heyrt minnst á. Þetta gerist þegar ekki er vitað hvert á að stefna.

Eitt af því ánægjulegasta sem maður hefur kynnst á valdatíð Sjálfstæðisflokks í menntamálaráðuneyti er að það hefur verið pólitískur vilji til að styrkja grundvöll bókmenningar, sjálfan lesturinn. Markmiðin, eins og þau við útgefendur höfum upplifað þau, hafa verið mjög bundin þeim skilgreindu mælikvörðum sem koma fram í PISA mælingunni og beinst að því að lyfta undir Ísland þar, sem er í raun það sama og öll lönd í mælingunni eru að reyna. Það þykir sannað að lesskilningur er ein mikilvægasta leiðin að auknum árangri í PISA mælingu. Mjög margir hafa áhuga á að bæta lesskilning og raunar er þetta efni sem geysilegur meðbyr er með í samfélaginu yfirleitt. Hins vegar er eins og samstilling þessara krafta sé ráðuneytinu ofviða, sökum takmarkaðs mannafla, takmarkaðs fjármagns og kannski vilja líka. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig ýmsum af þeim góðu hugmyndum sem eru á kreiki í ráðuneytinu um þessi efni reiðir nú af.

Ný ríkisstjórn mun hafa takmarkaðan tíma til að marka spor. En ef marka má orðróm mun þó setjast í stól menntamálaráðherra kona sem sjálfsagt þekkir betur til bókmenningar og stöðu hennar en nokkur ráðherra menntamála fyrr og síðar, meistari í íslenskum bókmenntum, Katrín Jakobsdóttir. Það verður forvitnilegt að sjá yfirlýsingar og stefnumörkun hennar og ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í málefnum bókmenningar, ritmenningar og útgáfu.


Félag íslenskra bókaútgefenda 120 ára

Þann 12. janúar 1889 komu saman í miðbæ Reykjavíkur þeir þrír bóksalar bæjarins "sem helzt fást við að kosta bókaútgáfur" og stofnuðu félag til að koma dreifingu og sölu bóka á Íslandi í skipulagðan farveg. Þetta félag var þá kallað "Bóksalafélagið í Reykjavík" og stofnendurnir voru þeir Björn Jónsson (1846-1912), ritstjóri Ísafoldar, eigandi Ísafoldarprentsmiðju, bæjarfulltrúi og alþingismaður, Sigurður Kristjánsson (1854-1952) bóksali og Íslendingasagnaútgefandi og Sigfús Eymundsson (1837-1911) bóksali, bókaútgefandi, ljósmyndari og athafnamaður.

Þetta er sá félagsskapur sem nú nefnist Félag íslenskra bókaútgefenda og er því 120 ára í dag. Félagið starfaði mestmegnis að sömu markmiðunum í nærfellt hundrað ár, en á níunda áratug 20. aldar verða ýmsar breytingar í smásölu, svo sem að stórmarkaðir taka að selja bækur fyrir jólin, sem breyta forsendum þeirra viðskiptareglna sem félaginu var ætlað að vinna að. Þegar bókaverð er gefið frjálst um miðjan tíunda áratuginn gjörbreyttist eðli hinnar upphaflegu stofnskrár í einu vetfangi. Þá voru öll samtök útgefenda um skipulag bókamarkaðarins bönnuð og endanlega girt fyrir fyrirbæri á borð við "bóksöluleyfi" og samræmda verðskrá sem og samræmd viðskiptakjör og skilanefndir.

Árið 1889 skipti bókaútgefndur mestu að þeir sæju sér hag í því að gefa út bækur, að eitthvert lágmarksskipulag væri á bóksölunni til að hægt væri að starfa við útgáfu. Til þess var félagsskapur þeirra stofnaður. Nú hefur félagið miklu víðfemara hlutverk. Það er sameinaður vettvangur bókaútgefenda við að skapa bókaútgáfu, lestri og bókmenningu hagfellt umhverfi, efla lestrarmenningu og stuðla að því að útgáfa íslenskra hugverka sé arðbær atvinnuvegur þrátt fyrir smæð málsamfélagsins. Íslensk bókaútgáfa er ein af meginforsendum þess að íslensk tunga fær þrifist og sé tækur miðill fyrir hugmyndir, frásagnir og ljóð.

Menningararfur okkar er fyrst og síðast textar. Í þeim fáum við innsýn í stórt samhengi, flóknar hugmyndir, já, jafnvel fegurð, sem belgir sálirnar á okkur út svo okkur finnst við snerta hringi Satúrnusar og fylgihnetti Júpíters. Á næsta ári verða 470 ár liðin síðan fyrsta prentaða bókin kom út á Íslandi. Við sem gefum út bækur í dag erum í raun ekkert að gera neitt mikið flóknara en það sem fyrsti bókaútgefandinn, Oddur Gottskálksson fékk prentara í Hróarskeldu til að hjálpa sér við: Fjöldaframleiða texta sem er bundinn í spjöld og settur á markað. Það er eitthvað dásamlega fallegt við þá sögulegu samfellu.

Þegar gengið er framhjá brunarústunum í miðbænum þar sem heimili, forlag og verslun Sigfúsar Eymunssonar, fyrsta formanns Félags bókaútgefenda stóð, er gott að hugsa til frumherjans og félaga hans. Stofnendur félagsins voru nefnilega allir einbeittir í útgáfustarfi sínu, gallharðir og óþreytandi í að koma bókum til almennings með öllum ráðum.


Íslenskar bókmenntir í alþjóðlegu samhengi

Í Fréttablaðinu sunnudaginn 4. janúar var frétt um þann mikla fjölda réttindasölusamninga íslenskra bóka sem gerðir voru á síðasta ári. Þessar tölur eru í samræmi við þann stöðuga stíganda sem hefur verið í sölu útgáfu- og þýðingaréttinda íslenskra bóka á unanförnum árum. Í kjölfarið hafa einnig verið gerðir samningar um ýmis afleidd réttindi, svo sem hljóðbókaútgáfur, rafbókaútgáfur, kvikmyndaréttindi og sérútgáfur ýmiss konar.

Margir sjá miklum ofsjónum yfir þeim miklu fjármunum sem komi í kassann vegna þessara samninga. Ég hef oft sagt þá sögu að einn af bryndrekum útrásarinnar átti ekki orð af hneykslun yfir þeim upphæðum sem til umræðu eru þegar hann innti okkur hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda eftir þeim fyrir nokkrum árum. Nú er landslagið náttúrlega breytt, hver evra eða dollari skiptir allt í einu máli og enginn þykist lengur geta sett sig á svo háan hest að hneykslast á því hve tugir milljóna eru mikil smámynt. Staðreyndin er að íslenskt höfundasamfélag munar um þessa innkomu, einfaldlega vegna þess að tekjumöguleikar á heimavelli eru og verða alltaf takmarkaðir, jafnvel liðið góðæri breytti ekki miklu um tekjumynstur eða afkomu íslenskra rithöfunda, öfugt til dæmis við myndlistarmenn. Það er líka staðreynd að flestir ábatasömustu samningarnir eru til komnir vegna sölu á þýðingar- eða útgáfuréttindum íslenskra sakamálasagna. Sakamálasögur Íslendinga eru verðmætasta varan á alþjóðlegum réttindamarkaði og hafa verið það nánast alla þessa öld. Það sama gildir um önnur Norðurlönd.

Stærsti ávinningurinn og sá sem meira skiptir til langframa er þó ekki bundinn upphæðunum sem um ræðir. Hann er að íslensk bókmenning, íslenskar sögur, eru hluti af alþjóðlegum bókmenntamarkaði. Því miður hefur aldrei verið unnin nógu djúp rannsókn á því hvaða áhrif það hefur til að mynda haft á ímynd Íslands að milljónir eintaka íslenskra bóka í þýðingum eru þessi árin í umferð á meginlandi Evrópu, einkum á þýska málsvæðinu. Við vitum því í raun mest lítið um mikilvægi þess fyrir sértæk áhugamál okkar hér heima, svo sem "hver við erum", "ímynd Íslands" og annað sem við veltum fyrir okkur af meiri þunga nú en oft áður þegar landið hefur svo mánuðum skiptir verið útsett fyrir flóði greina og frétta sem allar fjalla á neikvæðan hátt um skipbrot íslensks fjármálakerfis og að stjórnvöldum og stofnunum mistókst að takast á við hrunið með röggsemi og festu.

Fjöldi réttindasamninga undirstrikar einnig að íslenska bókabransanum hefur auðnast að byggja upp þekkingu og hæfni til að flytja út íslensk hugverk. Slíkt er á engan hátt sjálfgefið og útheimtir langtímahugsun, úthald og elju. Þetta starf hefur verið unnið fyrst og fremst af einkafyrirtækjum, eintstaklingum með áhuga og eldmóð, sem lærðu af gagnvirki réttindasölu eins og hún hefur farið fram í hinum "siðaða" heimi síðan á 19. öld. Þessi lögfræðilegi og viðskiptalegi grundvöllur bókmenntaútbreiðslu er alltof oft hafður líkt og í sviga, rætt er um þýðingar og samskipti bókmenntakerfa eins og það séu fyrst og fremst ákvarðanir þýðenda sem ráði því hverju sinni hvernig slíkt fer fram. Það gleymist alltof oft að miðlun bókmennta hefst sem viðskiptasamningur og byggir á markaðsvinnu og sölustarfi.

Það er gríðarlega margt ógert í vinnunni við að útbreiða íslenska bókmenningu. Enn er enginn formlegur samstarfsgrundvöllur milli utanríkisráðuneytis, bókmenntasjóðs og réttindasölufólks forlaganna sem og útflutningsráðs. Stofnun og styrking bókmenntasjóðs árið 2007 var stórt skref framávið til að búa til grundvöll að útfluningsstoð fyrir íslenska bókmenningu en ekki síst sú ákvörðun stjórnvalda að sækja um að Ísland verði heiðursgestur bókamessunnar í Frankfurt 2011. Það er nú ljóst að þrátt fyrir að kreppi að um þessar mundir verður ekki hætt við það verkefni, enda sjálfsagt fátt heimskulegra í vitrænni uppbyggingu þjóðarímyndar sem stendur á raunverulegum grunni en ekki óskhyggju. Á þeim vettvangi mun verða til mikil reynsla, sambönd og starfsemi sem mun nýtast til framtíðar. Þegar eru risaverkefni komin af stað á borð við nýja þýðingu Íslendinga sagna á þýsku og framundan er mikið kynningarstarf á íslenskum höfundum og íslenskri bókmenningu.


Enginn er óhultur

Á annan í jólum fór ég í gönguferð upp á Hengil, nánar tiltekið á Skeggja, þar sem Hengillinn kemst lengst frá sjávarmáli. Það gekk á með éljum þarna uppi og þoka svo fín ísskán lagðist á grjót og menn. Ekki mikill snjór en hjarn og ís undir og dásamlegt broddafæri.

Þegar upp var komið leituðum við að gestabókarhylkinu sem er þarna í grjóthrúgaldi. Þetta er vel gerður hólkur úr ryðfríu stáli en nú brá svo við að engin gestabók var í hylkinu. Aðeins eitt nafnspjald. Raunar ekkert venjulegt nafnspjald, heldur nafnspjald manns sem titlar sig "Economist" og það var plastað. Því var ætlað að þola vind og veðurbreytingar. Þessi maður kynnti sig á ensku og íslensku og sagðist starfsmaður Askar Capital, fjármálaundurs og síðasta stórvirkis útrásarinnar sem Tryggvi Þór Herbertsson, maðurinn sem hvíslaði góðum ráðum að Geir Haarde á síðustu andartökum góðærisins, kom á koppinn með peningum Wernersystkina. Þótt fátt heyrist af þessu fyrirtæki opinberlega mun það að sögn kunnugra ramba á barmi hrunsins.

Óneitanlega þótti þetta undarlegt og einhverjum varð á orði: "Stálu þeir meira að segja gestabókinni?!"

Við ætlum að komast að því hvort nafnspjöld leynist í fleiri hylkjum á fjöllum í nágrenni Reykjavíkur og hafi komið í staðinn fyrir gestabækur sem nú  brenna vísast í eignasöfnum fallítt fyrirtækja. Eða eru kannski grafnar í kistu á strönd Tortuga.


Ekki uppseld ... bara búin

Flora Islandica, hátíðarútgáfa flóruteikninga Eggerts Péturssonar, hefur fengið afar vinsamlegar viðtökur. Bókin er gefin út í 500 tölusettum og árituðum eintökum, en því miður komu aðeins 100 eintök til landsins fyrir jólin með flugsendingu, hin 400 eintökin eru á leiðinni í skipi. Ætli þau séu ekki á slóðum sjóræningja á Adenflóa eins og stendur.

Þessi fyrstu 100 eintök hurfu á þremur dögum. Fyrsta sending er algerlega uppseld. En það verða til bækur um miðjan janúar og því erum við hjá Crymogeu búin að gefa út gjafakort sem hægt er að kaupa og eru ígildi bókar. Eigendum verða síðan afhent eintök um leið og þau berast til landsins.

Fréttablaðið sló því upp í fyrirsögn að bókin væri "uppseld", en það er sum sé ekki allskostar rétt, enda kom annað á daginn þegar maður síðan las fréttina. Þarna var hið klassíska misræmi fréttar og fyrirsagnar á ferðinni. Enn eru til um 340 eintök og hægt að panta þau, fá gjafakort og innheimta síðan, eða þá bara skrifa sig fyrir eintaki. crymogea@crymogea.is eða í síma 8997839.

Bókin verður til sýnis í Iðu í Lækjargötu fram á aðfangadag en einnig er hægt að bera hana augum, þó ekki fletta, í glerkassa í versluninni Leonard í Kringlunni, en þar er lika til sölu hjartaarfamenið sem Eggert teiknaði en Sif Jakobs smíðaði og útfærði. Að sjálfsögðu er bókin opin á hjartaarfanum og þar hangir líka málverk Eggerts af hjartaarfa, þannig að þarna í Leonard gefst í raun magnað tækifæri til að virða fyrir sér þróun mótvís hjá sama listamanni, allt frá teikningu sem gerð er árið 1982 til málverks sem unnið er á síðustu árum til teikninga sem sýna hugmyndina á bak við skartgripinn.

FLORA ISLANDS

 


Best seldu bækurnar

Á miðvikudögum birtast bóksölulistar Morgunblaðs og Eymundssonar. Listarnir í dag eru "stóru listarnir", þeir sem gefa gleggsta mynd af þróuninni og sýna um leið hvert straumurinn liggur síðustu söludagana, en nú eru 6 söludagar eftir, stór helgi og svo mjög stórir dagar á mánudag og þriðjudag næstu viku.

Fyrir viku síðan virtist markaðshlutdeild forlaganna, annarra en hins stóra Forlags, vera að þynnast út, því alls skiptu 18 forlög 25 sætum á milli sín. Þetta breytist nú nokkuð. Forlög á borð við Hóla og Æskuna koma nú inn með ákveðnari hætti, enda gefa þau saman út megnið af ævisöguflóru ársins. Það hefði einfaldlega verið undarlegt ef enginn þessara bóka hefði náð að komast inn á ævisagnalistann. Hins vegar nær engin ævisaga inn á lista 10 mest seldu bókanna, sem segir sitt um þann mikla þunga sem er á skáldverkunum þessi jólin.

Hlutdeild forlaganna í 50 bóka listum og 5 flokkum Mbl. listans er svona:

  • Forlagið 25
  • Bjartur/Veröld 4
  • Hólar 3
  • Hagkaup 2
  • Salka 2
  • Tindur 2
  • Ugla 2
  • Æskan 2
  • Dimma 1
  • Edda 1
  • EXPO 1
  • Nói-Síríus 1
  • Sjómannadagsráð 1
  • Sögur 1
  • Uppheimar 1
  • Útkall 1

Forlagið heldur sinni stöðu. Ber raunar höfuð og herðar yfir aðra á skáldsagna- og barnabókalista en á einnig sína hlutdeild í almenna listanum og ævisagnalistanum, alls 3 titla á báðum. Þar eiga önnur forlög hins vegar leik, sem og stórmarkaðirnir og fyrirtækin, en slík útgáfa er svo sem engin nýjung, en er áberandi þessi jólin. Fyrirtæki eða aðliar sem stunda annars konar starfsemi en bókaútgáfu eiga 5 titla á listunum þessi jólin.

Þessi þróun er áhugaverð. Þegar smásalinn gefur út bók sem hann selur í samkeppni við aðra vöru hlýtur að halla á "útlendingana". Það er því á mörkunum að bók Nóatúns, Veisluuppskriftir Nóatúns, uppfylli það sem stendur í haus Bóksölulistans, að hann skuli ná yfir bækur sem eru "í almennri dreifingu". Hún er nú komin í hinar Kaupássbúðirnar, en ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að salan hafi í upphafi verið einskonar "forlagssala", þ.e. öll salan var skrifuð út úr Nóatúni á Selfossi, og þótt Sunnlendingar séu bókelskir er erfitt að sjá að þeir hafi keypt mörg þúsund eintök á einni viku af Veisluuppskriftum Nóatúns. Forlög eru ekki með sína heimasölu inni á listunum, sem er þó talsverð, og því skýtur þetta skökku við.

Yfirburðir Forlagsins algerir. Það munar 21 sæti á þeim og næsta forlagi, Bjarti/Veröld. Forlagsflóra okkar er stödd á milli mjög öflugs og stórs útgefanda sem forvaltar megnið af andans auði okkar samtíma og svo Haga, Kaupáss og Nóa-Síríuss og annarra slikra sem hasla sér nú völl sem útgefendur. Spurning næstu missera er hvernig framtíð þeirra sem eru á þessu bili getur litið út, hvernig verður best að marka sér áherslur og finna sína viðskiptavini.

 


Enginn er spámaður ...

Sigurður Gylfi Magnússon, ofursagnfræðingur, skrifar mjög skemmtilegan og ítarlegan ritdóm um bókina Skuggamyndir úr ferðalagi eftir Óskar Árna Óskarsson á kistan.is.

Þar segir hann:

"Ég get fullyrt að það [Skuggamyndir úr ferðalagi] verður hvorki tilnefnt né vinni til bókmenntaverðlaunanna í ár. Til þess er það alltof áhugavert og – það sem mest er um vert – hnitmiðað."

Nú þegar búið er að tilnefna bókina til Íslensku bókmenntaverðlaunanna hlýtur næsta skrefið í hinum öfuga spádómi að vera að Óskar Árni fái bókmenntaverðlaunin, eða hvað?


Bjart er yfir bóksölum

Í morgun var skemmtilegt viðtal við Bryndísi Loftsdóttur, vörustjóra íslenskra bóka hjá Eymundsson, í morgunfréttum RÚV. Þar staðfesti hún það sem hefur verið að teiknast upp að undanförnu: Bóksala er góð, en allra best er hún í íslenskum skáldskap.

Það er sum sé bjart yfir bóksölunni.

En hverjir eru það þá sem njóta einkum ávaxtanna af góðri bóksölu? Ef marka má Bryndísi eru það útgefendur íslenskra skáldsagna og glæpasagna fyrir börn og fullorðna. Það er breiður hópur útgefenda sem gefur út slíkt, en þar ber langmest á hinu stóra Forlagi, síðan á Bjarti/Veröld og síðan hafa ákveðnir titlar annarra útgefenda verið sterkir í umræðunni: Taka má sem dæmi Land tækifæranna eftir Ævar Örn Jósefsson, Fluga á vegg eftir Ólaf Hauk Símonarson, Sólkross eftir Óttar Martin Norðfjörð og Hvar er systir mín? eftir Eyrúnu Ýr Tryggvadóttur. Mest ber á titlum eins og Myrká Arnaldar, Auðn Yrsu, Ofsa Einars Kárasonar, Vetrarsól Auðar Jónsdóttur, Ódáðahrauni Stefáns Mána og 10 ráðum til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp eftir Hallgrím Helgason, Skaparanum eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Rökkurbýsnum Sjóns.

En hvernig er ástandið í öðrum deildum?

Það kemur síst minna út af ævisögum fyrir þessi jól en áður. Af þeim virðist hafa fjórar hafi markað sér sérstöðu hvað varðar sölu og umtal: Saga af forseta eftir Guðjón Friðriksson, Magnea eftir Sigmund Erni Rúnarsson, Ég skal vera Grýla eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur og Ég hef nú sjaldan verið algild - saga Önnu á Hesteyri eftir Rannveigu Þórhallsdóttur, en ég held að ekki sé á neinn hallað þegar því er haldið fram að hún sé óvenjulegasta og frumlegasta metsölubók jólanna. Hins vegar er "stemmningin" í kringum ævisögurnar ekki sú sama og í kringum skáldsögurnar. Um þær er minna talað og þær ná ekki sömu hæðum á almenna sölulista Mbl. og skáldsögur og barnabækur.

Langstærsti flokkur útgefinna bóka á Íslandi er "almenn nonfiksjón", "bækur almenns efnis". Þar er mikil gróska í matreiðslubókum. Raunar er sá flokkur athyglisverðastur frá sjónarmiði vöruþróunar bókarinnar. Mest hugkvæmnin í framsetningu í bókarformi er lögð í þessar bækur sem og vinna við útfærslu og frágang. Ákaflega margar frambærilegar bækur koma út í ár og það er að skila sér í umtali og viðhorfum fólks. Hvort sem það eru risabækur eins og Silfurskeiðin eða standardar eins og Af bestu lyst 3 eða þá persónulegar bækur á borð við Náttúran sér um sína eftir Rúnar Marvinsson, þetta eru allt mjög athyglisverðir titlar. Hins vegar eru best seldu bækurnar í þessum flokki enn sem fyrr Útkallsbækur Óttars Sveinssonar, það virðist vera viss passi hver jól.

Almennt staðfesta útgefendur það sem bóksalinn Bryndís sagði í morgun. Salan er góð, en best er hún í ákveðnum flokkum, og þar er raunar mikil aukning. Nú er ein og hálf vika eftir af vertíðinni og síðasti stóri sölulistinn verður birtur nú á miðvikudag. Þar með er vertíðin teiknuð upp. Í augnablikinu lítur út fyrir að þetta verði ár íslensks skáldskapar, einkum íslensks lausamáls, ár skáldsögunnar.


Mest seldu bækurnar

Í dag var birtur metsölulisti Morgunblaðsins. Enn á eftir að birta mikilvægasta listann sem kemur í næstu viku, þann lista sem helst mælir bóksöluna. Niðurstaðan af listanum í dag kemur svo sem ekkert á óvart, en er samt athyglisverð fyrir margra hluta sakir.

Í fyrra var Forlagið með 25 bækur á lokalistanum. Í þessum fyrsta desemberlista eru þær einnig 25. Miðað við að Forlagið er með 7 af 10 bókum á aðallista hefði ég haldið að þetta væru fleiri bækur, en svo er ekki. Þar munar um að Forlagið er ekki sterkt á ljóðalista og lista yfir almennar bækur, en ríkir yfir skáldsögum og barnabókum. Á sama tíma í fyrra voru Bjartur/Veröld með 7 titla á listunum en eru nú með 4, Salka var með 3 en er nú með 2. Útkall heldur sínu striki því Útkallsbókin - Flóttinn frá Heimaey er í þriðja sæti aðallista. Nokkur áberandi forlög eru ekki með bók á lista: Skrudda, Uppheimar, Opna. 

Hagkaup ársins í ár er Nóatún. Hagkaupsbókin Þú getur eftir Jóhann Inga og Martein Jónsson nær ekki flugi og kemst ekki inn á aðallista. Hins vegar er Matreiðslubók Nóatúns í öðru sæti yfir mest seldu bækurnar.

Niðurstaðan er þessi: Árið 2006 voru 13 forlög á Bóksölulista Mbl., 2007 voru 16 forlög á listanum, í ár eru þau 19. Forlagið er með helminginn. Hitt dreifist á milli 18 forlaga. Í raun eru aðeins Útkall og Bjartur/Veröld með eiginlegar metsölubækur utan Forlagsins, því "Vöruþróunardeild EXPO" er vart útgáfufyrirtæki. Samþjöppun á einum stað leiðir til enn meiri sundgurgreiningar á öðrum. Millistóru forlögin detta milli skips og bryggju. Annað hvort er maður risastór eða mjög sérhæfður. Það virðist vera lexía dagsins.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband