Kommúnistar í Reykjavík

Í gærkvöldi var hægt að hlusta á fyrirlestur við Háskóla Íslands um hvernig kommúnismi ætti að takast á við kapítalisma og ríkisvald og greiningu á stöðu kapítalismans á 21. öldinni og hlusta á harða gagnrýni á sósíalisma sem hækju kaptíalískra framleiðsluhátta og kúgunartæki mergðarinnar. Salurinn var fullur og allir kinkuðu kolli. Fyrir ári hefði slíkt verið óhugsandi.

Ég hafði hlakkað mjög til fyrirlestrar þeirra Michaels Hardt og Antonios Negri sem fram fór á Háskólatorgi í gærkvöldi. Ég er sjálfsagt ekki einn um að hafa á undanförnum árum sótt andlega næringu í ritið Empire þar sem innri mótsagnir þeirrar þjóðfélagsgerðar og skipulags myndaðist eftir "sigur nýfrálshyggjunnar" voru útlistaðar. Á góðærisárunum leið manni stundum eins og þetta væri eihvers konar forboðið rit, að það sem þarna stæði, sem og seinni bók þeirra, Multitude, væri eins og fjarlægur ómur, en nú virðist móttökutæki flestra vera betri fyrir boðskap þeirra félaga. Allir vilja heyra gagnrýni á kapítalismann og ríkisvaldið sem studdi hann með ráðum og dáð.

Salurinn var að sjálfsögðu fullur, en þó ekki eins smekkfullur og ég hafði ímyndað mér að hann yrði. Erindin voru ekki neitt popp svo sem heldur. Hardt fjallaði um mjög áhugavert efni sem brennur í raun sem eldur á öllum sem fást við "óefnislega framleiðslu" þessi misserin, sem er að óefnisleg framleiðsla hefur tekið stöðu iðnaðarins sem inntak kapítalískra framleiðsluhátta. Hann skýrði út hvernig mótstaða gegn þessum framleiðsluháttum á borð við sjóræningaútgáfur og rán á höfundarréttarvörðu efni birtir hina raunverulegu dýnamík framleiðslunnar, en að vörnin hefti flæðið. Í þessu ferli reyni kapítalisminn að slá eign sinni á sameiginleg verðmæti líkt og félagstengsl, lífverur, hugverk og svo framvegis. Framleiðslan byggi hins vegar ekki á eign, heldur á sameign. Án sameignar væri engin framleiðsla. Það var auðvelt að byggja hér brú yfir í kvótakerfið, sameign sem hefur verið eigngerð af kapítalismanum og hann minntist meira að segja á það, en enginn spurði um það eftir á.

Um Negri heyrði ég fyrst talað í Siena sumarið 1994 þegar ég fór á fyrirlestur þar sem fyrrverandi RAF menn töluðu um ríkiskúgun, en Negri var dæmdur til fangelsisvistar fyrir aðild sína að og stuðning við RAF á áttunda áratugnum. Ég held meira að segja að hann hafi verið ennþá inni á þeim tíma, sat líka lengi í einangrun. Ég man eftir því þá hvað þetta lið var gallhart en um leið mjög yfirvegað og málefnalegt. Ítalir búa alltaf að því að hafa átt Gramsci. Með hans hugmyndir um yfirráð og mergð að vopni tóku RAF mennirnir í sundur gangvirki ríkisins sem þjónustustofnun fyrir kapítalismann. Negri var á sömu buxunum í gærkvöldi. Einn punktur, sem ekki er ókunnur þeim sem hafa lesið Empire og Multitude, var athyglisverður. Sú hugsun að frelsunin, frelsun fjöldans og mergðarinnar frá firringunni og kúguninni gæti ekki farið fram með hliðsjón af draumsýninni um afturhvarf til upprunalegs ástand frelsisins. Það væri einfaldlega ekki til vegna þess að kapítalisminn framleiðir ekki vörur, heldur framleiðir hann félagsleg vensl og sjálfsverur. Framleiðsla hans á sjálfsverum hafi eyðilagt alla von um endurfundi við draumsýnina en í staðinn búi hún líka til ný tækifæri til andstöðu og nýs skipulags.

Spurningatíminn var frekar brokkgengur. Einhver hamraði á klassískum hugmyndum um hlutverk einstaklingsins í breytingum, að "athafnamaðurinn" yrði að taka áhættu, annars kæmist sagan ekki úr sporunum, sem var skrítinn málflutningur miðað við að bæði Negri og Hardt líta ekki á einstaklinga sem gerendur í sögunni og Hardt sagði einfaldlega: "Áhætta sem slík er heimskuleg." Jón Baldvin Hannibalsson kom með fína spurningu sem varð Negri tilefni til að undirstrika að hugmyndin um þjóðríkið er löngu fallin, öll söguleg ferli 21. aldar eru hnattræn ferli. Einn spurði um valdbeitingu og Negri tók góða og gegna Gramci-íska og Foucaultíska afstöðu til málsins og ýtti hugmyndinni um átakalausa baráttu út af borðinu. Jafnvel svokallaðir friðarsinnar beittu valdi og oft með mjög áhrifamiklum hætti, það væri fáránlegt að láta sér detta í hug að umbyltingar í stjórnmálum færu fram án valdbeitingar. Maðurinn sat jú í fangelsi þannig að þetta var ekki alveg óvænt. Í lokin náðu þeir að fjalla aðeins betur um kommúnismann sem Negri talaði jú um í sínu erindi.

Ég hélt í það minnsta ekki að ég myndi framar á ævinni sitja fyrirlestur í Reykjavík þar sem maður fjallaði um hvernig kommúnisminn getur tekið völdin af kapítalisma og ríkisvaldi. En í gærkvöldi var það hægt. Svona langt erum við komin. Mér vitanlega var enginn alþingismaður eða áhrifamaður í efnahagslífinu staddur þarna. Allir voru að búa sig undir næsta morgunverðarfund um "Sigur í samkeppni", "Leiðtogahæfni" eða "Stjórnunarstíl sprotafyrirtækja". Sagan heldur áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband