Sorgarvinnan

Íslenska þjóðin þarf meira en nokkuð annað að vinna sorgarvinnu vegna hrunsins. Hins vegar hefur lítið verið gert í að ná tökum á einföldustu og áhrifaríkustu leiðinni til að vinna sig út úr sorginni: að segja sögu áfallsins. Í staðinn hafa ýmiss konar frávarpsaðferðir verið notaðar, ekki síst aðferð ofurjákvæðninnar. En það er sama hversu margir tromma fram og segja fólki frá því hve gríðarleg tækifæri leynist í rústabjörgun er sjálfsmynd þjóðarinnar löskuð og það er algengara en maður heldur að fólk sé í áfalli. Ef marka má þau ótölulegu vanstilltu ummæli sem birtast allajafna við hverja einustu frétt á Eyjunni eða þær ofsóknaæddu og hitasóttarkenndu bloggfærslur sem reka á fjörur manns á hverjum degi, hvað þá aðsendar greinar í blöðum, þá hefur stór hópur fólks greinilega óljósa mynd af andlegu ástandi sínu eftir hrun. Áfallið er stærra en fólk vill láta í veðri vaka.

Þegar ég heyrði Guðna Th. Jóhannesson rekja atburðarásina hrunsdagana 29. september til 9. október í Kastljósinu á þriðjudaginn fór um mig gamalkunn kennd: Ég fann að það var eins og þetta þokukennda tímabil með öllum sínum óljósu öngum og óljósu blórabögglum öðlaðist festu. Um leið áttaði ég mig á að hann er að vinna sorgarvinnuna sem við þörfumst svo mikið.

Í dag kemur bókin hans HRUNIÐ út. Enn og aftur sannar bókarmiðilinn að ekkert stenst honum snúning þegar kemur að því að ná heildaryfirsýn yfir málefni og setja fram yfirvegaða mynd af atburðum. Það erfiða einstigi sem Guðni fetaði í Kastljósviðtalinu á milli þess að taka eindregna afstöðu og afstöðuleysis er vonandi leiðarstjarna þessarar bókar sem ég hlakka til að lesa.

HRUNIÐ kemur út í kjölfar velgengni bókar Ólafs Arnarsonar, Sofandi að feigðarósi og bókar Þorkels Sigurlaugssonar, Ný framtíðarsýn, en þótt ólíkar séu taka þær báðar á hruninu út frá nokkuð skilgreindum sjónarhólum. Guðni ætlar sér greinilega víðara svið. Hvort heldur er þá þarfnast þjóðin þessara bóka. Eina leiðin til að vinna sig út úr sorginni er að segja söguna af hruninu aftur og aftur og ná þannig smám saman tökum á veruleikanum og skilningunum á honum. Þessar bækur eru gríðarlega mikilvægt framlag til að ná aftur áttum í þessu samfélagi sem manni finnst stundum að sé að drepa sig sjálft af áfallaraskaðri vitleysu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband