Inngrip við Gambíufljót

Til að komast á milli suður- og norðurhluta Senegal þarf að fara yfir Gambíufljót sem er óbrúað og hið undarlega land Gambíu sem er mjó ræma meðfram Gambíufljóti. Það hefur verið reynt að brúa fljótið en flóð hrifu mannvirkin með sér og menn hafa ákveðið að notast við ferjur. Ferjurnar voru gefnar Gambíumönnum af Japönum. Maður sér japanska fánann víða í Senegal og Gambíu og mér skilst að honum sé jafnvel flaggað í öðrum löndum Vestur-Afríku fyrir framan skóla og stofnanir. Hins vegar er vegurinn sem liggur í gegnum Gambíu nær ómalbíkaður. Hann var einu sinni með biki en með tímanum hefur það spænst upp og Senegal og Gambía geta ekki komið sér saman um hver á að greiða fyrir vegaframkvæmdirnar. Þetta er eins og þegar ríki og borg rífast um Sundabraut. Eini munurinn er sá að það er enginn annar vegur milli landshlutanna á þessum slóðum. Beggja vegna eru langar biðraðir af vörubílum. Þeir bíða í allt að því viku eftir því að komast yfir, venjuleg bið eru þrír dagar.

Vegna þess að nú er regntími er allt á kafi í drullu við ferjustaðina. Einhvers konar framkvæmdir eiga sér stað við suðurbakkann en þær eru ekki mjög markvissar. Vörubíll, valtari og nokkrir kallar hræra í drullunni og bera ofan í hana meiri drullu. Einmitt þegar við erum við það að fara um borð í ferjuna bilar stór trukkur beint framan við rampann með 40 tonn af mangó um borð og sekkur smám saman í eðjuna. Það tekur senegalíska og gambíska jeppakalla rúmar tvær klukkustundir að koma ferlíkinu upp. Manni finnst eins og maður sé uppi á hálendi eða í sveitinni í gamla daga þegar vél fór niður í pytt. Allir hafa skoðanir á því hvað sé best að gera og hvernig sé best að standa að þessu, mikið er um pat og öskur, dísilvélar drynja og mikið spáð og spegúlerað. Málið fer loks að ganga þegar vírtrossa kemur með hinni ferjunni af hinum fljótsbakkanum og eina raunverulega öfluga trukknum er beitt í átökunum.

Kannski væri það áhrifamikið inngrip í íslenskri utanríkisstefnu að kanna hvort hægt væri að breyta þessu smáræði sem virðist þarfnast málamiðlunar annars ríkis. Fátt myndi sannarlega bæta lífskjör fólks í öðrum löndum jafn áþreifanlega og að leiða Senegal og Gambíu að samningaborðinu og fá þá til að malbika þennan 35 kílómetra spotta sem liggur yfir Gambíu sem og að rýmka opnunartíma ferjunnar yfir Gambíufljót. Þetta hljómar smátt og lítið en einmitt við með okkar samgöngukerfi myndum skilja að þetta er vandamál sem þarfnast lausnar. Svona eins og Sundabrautin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband