Það er lína sem sker sundur landið

Fyrir austan hana er Ísland en fyrir vestan hana Reykjavík. Reykjavík teygir sig frá Akureyri vestur um landið og til Víkur í Mýrdal. Um leið og maður kemur austur fyrir þessa útpósta höfuðborgarsvæðisins snarlækkar tala Porche Cayenne jeppa, hjólhýsa, tjaldvagna og golfvalla. Í staðinn sér maður fyrst og fremst bílaleigubíla, stóra vöruflutningabíla og svo erlent fólk á sínum eigin farartækjum sem oftast líta út eins og bedúínalestir: fjórir til fimm saman í hnapp með vafninga bundna á topp, skut og hliðar. Þó er magnað að sjá Benz með belgísku númeri á hraðferð um Mýrar í Hornafirði og ekki örlar á hjóli, flísfötum eða vafningum. Snyrtilega klædd eldri hjón í framsæti. Þau virðast vera á heimleið úr bústaðnum, hafa ætlað að drífa sig snemma af stað því það er von á krökkunum í sunnudagsgrillið um kvöldið.

Skaftafellssýslur eru annar heimur. Reyndar er eitthvað enn höfuðborgarlegt við vestursýsluna. Hér og þar sjást bústaðir, fólk á leið í golf. En austursýslan er fjarlæg þessum höfuðborgarheimi. Þar eiga heimamenn og útlendingarnir sviðið. Í aðeins einum bíl af tíu er Íslendingur undir stýri. Bæirnir eru fáir, en oftast saman í hnapp. Þeir kúra sig undir grænum fjöllum andspænis óaðgengilegri, óárennilegri og óendanlegri strönd. Að baki er stærsti jökull Evrópu (raunar aðeins að rúmtaki, ekki flatarmáli ef menn eiga að vera mjög nákvæmir). Skriðjökulstungur sleikja björgin og spýta kolmóruðu. Tindarnir skaga til himins upp úr jökulbákninu í furðulega margbreytilegum litum. Sandarnir verða sviplitlir í sólskini, þá logar jökullinn og bláar sprungurnar, en í súldinni eru þeir eins og steppa.

Allt er stórt á þessum slóðum. Þegar maður les héraðssöguna er ekki einblínt á skopsögur eða skringilegt fólk, það er ekki hugað að lausaleiksmálum eða sauðaþjófnaði. Sögurnar eru um landkönnuði sem leggja á jöklblámann og sigrast á hrikalegum sprungum á sauðskinnsskóm, leiðsögumenn sem höggva spor í skriðjökla til að koma hrossum yfir þá, vatnamenn og vatnaklára sem leggja í jökulhröngl og hafa það af, jökulvötn sem sveipa burtu bæ þar sem vanfær kona er að eignast barn og hleypur undan flóðinu bak við stein þar sem hún verður léttari. Hross falla ofan í sprungur og hverfa. Menn hverfa í sprungur. Það þarf að fara allt upp í sex sinnum í göngur til að ná fénu neðan úr hæstu tindum landsins. Hver smá útrétting í kaupstað er heill leiðangur. Það tekur viku að reka féð yfir vötnin á sláturhús. Það er jafn löng vegalengd frá Höfn að Vík og er frá Vík til Stykkishólms. Það er golfvöllur á Höfn en það var enginn á honum og í bænum sést enginn Porche Cayenne.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband