Koldíoxíð og útjöfnun þess

Ég lagði mitt fram til kolefnisjöfnunar síðustu helgi og kom fyrir 400 græðlingum af heggstaðavíði í reitnum mínum norður í Skagafirði. Þar á að vaxa horn sem brýtur norðaustanáttina og ekki síður austanáttina sem getur orðið nokkuð þæfingsleg vestan undir Tröllaskaganum, sérlega á haustin og snemma vetrar.

Ég ritaði smá pistil í Lesbók Morgunblaðsins um kolefnisjöfnun um síðustu helgi sem er hér að neðan. Þetta var tilraun til að átta mig á hugtakinu sem ég komst að við eftirgrennslan að er nánast nýtt af nálinni. Skógræktarfélagi Íslands hefur tekist að búa til nýja vídd í vitund almennings á undraskömmum tíma. Þetta er ekki bara verk auglýsingastofa, þetta hefur eitthvað með jarðveginn að gera, hinn íslenska almenning.

Miðað við hve ótrúlegu flugi orðið „kolefnisjöfnun“ hefur náð á stuttum tíma gæti það komið einhverjum í opna skjöldu að fyrir tveimur mánuðum virðist það ekki hafa verið til. Um páskaleytið fréttist fyrst af Kolviðarsjóðnum sem hefur með höndum jöfnun á losun koldíoxíðs af völdum bílaumferðar landsmanna og komst stjórnarformaður hans, alþingiskonan Guðfinna Bjarnadóttir, þannig að orði að hlutverk hans væri að „afkola“ kolefnið; „jöfnunarhugtakið“ var enn ekki fætt. Þegar Skógræktarfélag Íslands og Landvernd í samstarfi við Kaupþing banka, Orkuveitu Reykjavíkur og sjálfa ríkisstjórn lýðveldisins hleyptu verkefninu af stokkunum í lok apríl sást kolefnisjöfnunin fyrst. Verkefnið var reyndar ekki kynnt af fullum þrótti, nánast hikandi, því kosningar voru á næsta leyti. Samt náði það fljótt ótrúlegri útbreiðslu og þegar allt var sett á fullt í kynningum um leið og birtingarpláss stjórnmálaflokkanna voru aftur laus gleymdust öll fyrri heiti yfir þessa starfsemi og kolefnisjöfnun varð umsvifalaust að tískuorði. Nú er enginn maður með mönnum nema að hafa kolefnisjafnað sig. Sumir uppi við Heklu eins og Hekla sjálf. Aðrir suður í Afríku eins og Baugsfólkið. Kolefnisjöfnun og útreikningur hennar er orðið að dægrastyttingu og umræðan um hana þegar farin að skiptast í gamalkunnug horn. Harðir umhverfisverndarsinnar eru á móti kolefnisjöfnun af því að hún á að vera villandi. Það er víst ekkert annað en sýndarfriðþæging að borga öðrum fyrir að planta trjám en spæna svo á Hummernum norður til Akureyrar. Harðir frjálshyggjumenn eru farnir að amast við aðkomu Hins Opinbera að verkefninu og benda á að það sé betur komið í höndum erlendra einkaaðila. Öll hringavitleysa hinnar fyrirframgefnu hugsunar er komin á fljúgandi fullt í kolefnisjöfnuninni. Fyrirtæki undirrita samstarfssamninga, almenningur reiknar út á netinu. Í haust verður þetta annað hvort jafn sjálfsagt og að eiga bíl eða fullkomlega gleymt og komið í skókassann þar sem orð á borð við „upplýsingahraðbrautin“, „alnetið“ og „áunnin ónæmisbæklun“ eru geymd eins og gömul ástarbréf.

Kolviðarsjóðurinn er hugmyndarík og áhrifamikil leið til að fá aukið fjármagn til skógræktar og vekja í leiðinni athygli á hve mikið bílafloti landsmanna mengar í raun og veru. Kolviðarsjóðurinn fær kannski líka einhvern til að hugsa um skóga í hnattrænu samhengi. Það er skortur á viði í heiminum og það er gengið á náttúrulega skóga heimsins af æ meira offorsi. Kínverja vantar timbur í Míru-húsgögnin sín og löndin sem hýsa skógana þurfa sína lífskjarabyltingu og kaupmáttaraukningu. Það má kannski taka undir það með umhverfisverndunarsinnum að í sjálfu sér væri miklu gáfulegra fyrir umhverfið, framtíð vistkerfis jarðarinnar og „lungu heimsins“ að vinda sér beint í að vernda skóginn sem fyrir er í stað þess að búa til excelskjal yfir hve marga græðlinga af rússalerki maður þarf að kaupa til að geta komist frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði. Það breytir hins vegar ekki inntaki verkefnisins: að gera hlutverk hvers og eins í loftlagsjöfnunni sýnilegt.

Kolviðarsjóðurinn, eða öllu heldur viðbrögðin við honum, sýna að umhverfisvitundin er í stöðugri þróun. Eftir ákveðið skeið í umhverfisbaráttunni þar sem umræðan náði að snúast um grundvöll umhverfisverndar á Íslandi hefur hún nú ratað inn á öllu meinlausari brautir. Þau meginrök fyrir verndun íslensks umhverfis að auðnir landsins eigi ekki að vera vettvangur verklegra athafna, að við eigum að þora að gangast við veruleikanum eins og hann er og leggja vegagerð, stíflugerð og hverskonar umbreytingu þessa veruleika á hilluna. Þessi rök hurfu allt í einu úr fjölmiðlum en ýmsar tæknilegar lausnir komu í staðinn. Orkuiðnaðurinn hefur nú hnattrænu hluverki að gegna sem er ekki óáþreifanlegt eða „undarlegt“ eins og það viðhorf að ekki megi gera neitt við tugþúsundir ferkílómetra, heldur er tæknilegt og útreiknanlegt og því tamara í munni og muna. Kolefnisbinding og jöfnun koldíoxíðsútblásturs eru tæknilega leysanleg verkefni sem hægt er að „vinda sér í“. Hugsjónir athafnamennsku og dugnaðar sem eru hugmyndafræði íslenskra valdastétta svo kærar ná nú einnig fram að ganga í umhverfisbaráttunni. Og í takt við útrásarhugmyndafræðina erum við ekki bara að kolefnisjafna hér á Geitasandi, heldur brátt út um allan heim: Í Búrúndí, Ekvador og Kenía geta íslensk fyrirtæki borgað fólki fyrir að kolefnisjafna víkingseðlið.

Mótsagnirnar í þessu eru himinhrópandi. Stærsti einstaki brennsluaðili jarðefnaeldsneytis á Íslandi, skipaflotinn, hefur til að mynda ekki fengið neina meldingu um að jafna út sitt vélastóð. Og í öllum þessum reiknikúnstum andrúmsloftsins gleymist mjög augljós kolefnisjöfnun. Í öllum Evrópulöndum er rekinn áróður fyrir því að kaupa matvæli sem unnin eru og ræktuð eru á heimaslóð til að koma í veg fyrir hlýnun andrúmsloftsins af völdum flutninga á ferskum matvælum heimsálfa á milli. Hins vegar hamast hérlendir andans vesírar enn sem fyrr við að níða skóinn af bændastéttinni sem hafi svikið launþega landsins um enn eina lífskjarabótina með því að voga sér að standa gegn eðlilegum stórflutningum á ókolefnisjöfnuðum matvælum milli meginlandanna. Ég legg því til að auglýsingar garðyrkju-, sauðfjár-, kúa-, svína- og eggjabænda beinist nú eingöngu að kolefnisjöfnun. Borðum íslenskt og björgum heiminum!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband