Lesið á fjöllum

Á einum stað í greinum sínum minnist Halldór Laxness á hve þægilegt það hafi verið að ferðast um landið með þýsku Recklam útgáfurnar í brjóstvasanum. Hann hafi til að mynda lesið Fást Goethes á leið um landið í vondum veðrum þegar gista þurfti í litlum kotum og sundríða ár, en alltaf hélst Fást frá Recklam þurr í vasanum og gladdi ferðamanninn með sinni andlegu næringu að kveldi. Fyrir þá sem ekki þekkja þessar bækur þá eru þær pínulitlar og fisléttar og seldar eftir þykkt og geyma allan andlegan kost hins vestræna heims og þótt víðar væri leitað.

Það er vandasamt og raunar flest því andstreymt að taka með sér mikla lesningu þegar maður ber allan útbúnaðinn á sjálfum sér uppi á hálendi. Um daginn gegnum við Magnús Viðar hins vegar frá Landmannalaugum í Þórsmörk eftir nokkrum krókaleiðum og þá var það svo að þegar ég var að raða í pokann greip ég með mér gömlu Menningarsjóðsútgáfuna af Grími Thomsen en gleymdi í staðinn vaðskónum. Þetta eru tiltölulega léttar og litlar bækur og ég komst að því að þær henta ákaflega vel sem ferðabækur. Stóru skáldin frá 19. öldinni hljóma betur þegar maður er uppi á fjöllum. Þau eru nálæg, einskonar vinir sem segja manni hina huldu sögu þess sem fyrir augu ber. Þau eru sönn.

Ég hefði þó betur munað eftir skóræflunum því við Maggi óðum Jökulgilskvísl í mitti einum fjórum sinnum áður en við brutumst upp á Hrygginn milli giljanna og gátum nokkurn veginn þurrir notið útsýnis yfir einn seiðmagnaðasta hluta þessa lands, þetta einstaka töfraland lita og hita og gljúfra og kletta og ríólíts sem Sveinsgil, Jökulgil, Hattver og undirhlíðar Torfajökuls eru. Algóður faðir forði þessu frá öllum orkuveitum heimsins.

Við sváfum á hrafntinnubeði í North Face tjaldi fyrstu nóttina og sváfum vel á grjótinu ofan á írsku loftdýnunum. En áður en við festum blund píndi ég Magnús með upplestri úr Grími. Ég verð að viðurkenna að ef frá eru skilin örlög Sörla hans Skúla sem ollu mér heilabrotum í æsku þegar ég lærði allt Skúlaskeið utan að eins og páfagaukur og ef frá eru skilin undarleg tilvik þar sem útlent fólk hefur orðið þess valdandi að ég hef sungið "Ríðum, ríðum" í vafasamara ástandi en ég kæri mig um að rifja upp, þá hefur Grímur Thomen ekki orkað mjög sterkt á mig sem skáld gegnum tíðina. Í námskeiði við HÍ um árið hjá Sveini Yngva Egilssyni las ég kvæði á borð við Huldur og Ólund, sem er sérdeilis magnað reynar, sem og Ásareiðin. En þarna í tjaldinu, með vatnsnið Jökulgilskvíslar og einmana garg heiðagæsapars í eyrum, sem voru einu heitblóðugu verurnar þarna utan við okkur, þá laukst upp fyrir mér ný vídd í Grími.

Grímur Thomsen er ferðaskáld. Hann er ekki síðri en Hannes Hafstein sem er líka mikill landlýsingarmaður. Eitt og eitt kvæði eftir Gröndal og Steingrím er í þessum anda, þekktast er örugglega Laugardalur eftir Steingrím og lýsing Gröndals á Þingvallaferð sinni, en Grímur er stöðugt að lýsa landi og ferðum sínum í kvæðunum, draga fram þjóðsögur og svipi fortíðar og kveikja í þeim líf mitt á ferðalaginu. Hann teiknar upp fjöll og umfaðmar jökla, hann sækist eftir hinu tröllslega, draugslega og mikilúðlega, en er jafnan feginn þegar hann er "kominn ofan í Kiðagil", sloppinn úr hrömmum þessarar miklu skepnu sem óbyggðirnar eru. Um leið heilla þær hann og hrífa, ótemjuskapurinn í náttúru og veðri er honum að skapi og hann lýsti meira að segja þeim slóðum sem við gengum í kvæðinu Að fjallabaki: "fjórtán tíma reið". Þar mærir hann Torfajökul sem reyndist okkur nokkuð óstöðugur bandamaður og fljótur að snúa við okkur rassinum með þokufýlu þegar hann hafði leyft okkur að gægjast yfir suðurbrúnina og horfa yfir stóra bróður: Mýrdalsjökul. 

Uppgötvun hálendisins og könnun Íslands er ekki gömul saga. Grímur opinberaðist mér skyndilega sem mikilvægur ferðamaður meðal annarra 19. aldar garpa á borð við Þorvald Thoroddsen. Hann skapar landið í kvæðum sínum. Hann er goðsagnasmiður og brúargerðarmaður sem býr til tengsl manna og umhverfis. En harmleikur nútímans er að þessar goðsagnir eru brothættar. Þær drukknuðu til að mynda á stað eins og Jósefsdal að baki Vífilfells sem torfærubrjálæðingarnir hafa nú með hjálp sveitafélagsins Ölfuss lagt undir sig og fá að spilla og skemma í friði "vegna þess að þeir verða að fá útrás". Maður nennir ekki lengur að labba á Vífilsfell bara til að hlusta á undirleik torfæruhjólanna. Um þennan stað orti Grímur magnað kvæði um álögin á dalnum og blótvarginn Jósef. Einhver áhrif hafði þetta á Magnús. Þegar við komum niður í Þórsmörk og Eyjafjallajökull blasti við í sólardýrðinni fór hann allt í einu að banga saman dýrum brag og ákaflega knosuðum og bar fyrir sig Grím. Megi svo öll torfæruhjól landsins bila, ryðga og verða að brotajárni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband